Fara í efni

Almenningssamgöngur á austursvæði landshlutans

Almenningssamgöngur á austursvæði landshlutans

Almenningssamgöngur frá Húsavík og austur til Þórshafnar hafa ekki verið til staðar frá því 2017 en þá gekk leið 79 á milli Akureyrar og Þórshafnar með viðkomu á Húsavík, Ásbyrgi, Kópaskeri og Raufarhöfn. SSNE fékk styrk úr úthlutun úr aðgerð A.10 á byggðaáætlun 2020 til að kanna möguleika á að endurvekja þessa leið með því að skoða hvort samnýta megi póst- og farþegaflutninga svo að leiðin verði rekstrarhæf, með það að markmiði að íbúar og ferðamenn geti nýtt sér þjónustuna.

Markmiðið er að almenningssamgöngur á svæðinu frá Þórshöfn til Húsavíkur verið aftur mikilvæg stoð byggðar á svæðinu öllu með því að tengja þessa byggðarkjarna saman, auka aðgengi og jafnræði íbúa ásamt því að auka möguleika rekstraraðila í ferðaþjónustu á að beina ferðamönnum meira á svæðið. Norðausturhornið er það svæði á landinu þar sem skóinn kreppir hvað mest að, þegar litið er til almenningssamgangna. Þá má ekki líta framhjá því að fjölmargir íbúar þurfa að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu til Húsavíkur og Akureyrar, þannig að almenningssamgöngur gegna einnig öryggishlutverki.

Unnin hafa verið drög að skýrslu sem gerð verður opinber í september næstkomandi og niðurstöður kynntar. Íbúakönnun var framkvæmd á vormánuðum og kemur það glögglega í ljós að íbúar telja mikla þörf á almennissamgöngum þá sér í lagi þegar litið er til tenginga við flugsamgöngur, framhaldsskóla og heilbrigðisþjónustu.

Í aðgerðaáætlun Íslands í loftlagsmálum 2018-2030 er ein af aðgerðunum að efla almenningssamgöngur og deilihagkerfi í samgöngum. Því er afar mikilvægt að taka verkefni sem þetta til ýtarlegrar skoðunar þar sem litið er til þarfa íbúa ekki síður en ferðamanna. SSNE vinnur áfram að verkefninu í samvinnu við Vegagerð. 

 

 

Getum við bætt síðuna?