Akureyri viðurkennd sem svæðisborg
Akureyri viðurkennd sem svæðisborg
Stórt skref fyrir byggðaþróun í landinu var stigið í gær þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um borgarstefnu fyrir árin 2025-2040. Með samþykkt stefnunnar er Akureyri skilgreind sem svæðisborg og hlutverk hennar í byggðaþróun landsins viðurkennt.
Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við áherslur í Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2020-2024 og þá vinnu sem SSNE hefur haft forystu um á undanförnum árum.
Borgarstefnan miðar að því að þróa og efla tvö borgarsvæði á Íslandi – Reykjavík og Akureyri – og styrkja þannig samkeppnishæfni landsins með fjölbreyttari búsetukostum á landinu og markvissri uppbyggingu innviða, menntunar, þjónustu og atvinnulífs.
Með samþykkt þingsályktunarinnar er ríkisstjórninni falið að vinna að framkvæmd borgarstefnu, en með farsælli innleiðingu stefnunnar geta skapast fjölmörg tækifæri fyrir Ísland í heild með fjölbreyttari búsetukostum, aukna nýsköpun og jafnvægi í byggðaþróun. Lykilatriði verður þó að aðgerðir og fjármögnun fylgi með, auk þess sem áherslur stefnunnar ættu að birtast skýrt í annarri stefnumótun ríkisins, svo sem í samgöngu-, byggða- og fjármálaáætlunum ríkisins.