Fara í efni

Áhugavert og efnismikið ársþing SSNE að baki

Áhugavert og efnismikið ársþing SSNE að baki

Ársþing SSNE var haldið með rafrænum hætti á föstudag og laugardag í síðustu viku.  Viðamikil dagskráin tók til fjölmargra sameiginlegra mála s.s. umhverfis-, skipulags-, fjölmenningar-, sameiningar-, heilbrigðis- og atvinnumála, auk þess sem rætt var um klasastefnu, ungt fólk, áfangastaðastofu, atkvæðavægi vegna alþingiskosninga og samráð við ríkið. Þá fengum við til okkar góða gesti m.a. fyrsta þingmann kjördæmisins, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og formann stjórnar Samtaka íslenskra sveitarfélaga.  Fundargerð þingsins verður gerð opinber á heimasíðu SSNE og á Facebook síðu samtakanna auk þess sem grein mun birtast í aprílfréttabréfinu okkar. 
 
Þangað til langar okkur til að vekja sérstaka athygli á tveimur bókunum ársþingsins sem samþykktar voru samhljóða:
 
„Ársþing Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra leggur til að í nýrri byggðaáætlun verði aðgerð sem feli í sér að almennt sé gert ráð fyrir því að, að minnsta kosti, þriðjungur einstaklinga sem tilnefndir eru í stjórnir, ráð, nefndir og starfshópa á vegum ríkisins séu búsettir utan höfuðborgarsvæðisins. Þá skorar ársþing á fyrirtæki og félagasamtök sem starfa á landsvísu að horfa til sömu meginreglu.“
 

"Ársþing SSNE 2021 samþykkir að stjórn SSNE skoði möguleika þess að sækja í auknum mæli skoðanir og hagsmuni ungs fólks og fólks af erlendum uppruna t.d. með stofnun ungmennaráðs og fjölmenningaráðs sem skipuð yrðu annars vegar ungu fólki og hins vegar fólki af erlendum uppruna."

Þá var endurskoðuð sóknaráætlun landshlutans lögð fyrir og samþykkt samhljóða en framundan er kynningarátak um efnisleg atriði þeirrar stefnumörkunar sem þar kemur fram auk aðgerðaáætlunar sem fylgir.  
 
SSNE þakkar öllum þinggestum þátttökuna sem og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg að gera ársþingið hið glæsilegasta.  Eftir standa vonir um að við getum hist í raunheimum á næsta þingi sem halda skal eigi síðar en 30.september. 

 

Getum við bætt síðuna?