Fara í efni

Ágrip framkvæmdastjóra SSNE

Ágrip framkvæmdastjóra SSNE

Við erum ítrekað að reka okkur á mikilvægi stefnumótunar fyrir landshlutann. Hverjar eru áherslur í þessum landshluta þegar kemur að stóru málunum? Það er gríðarlega mikilvægt fyrir landshlutasamtök að hafa skýra stefnu til að byggja á þegar við rækjum það hlutverk okkar að gæta hagsmuna heildarinnar í landshlutanum, m.a. gagnvart ríkisvaldinu. Nýlegt dæmi um þessa stöðu er umsögn um fjárlagafrumvarpið. Mjög skammur tími var gefinn til að veita umsögn þar sem stóru málin skipta öllu máli. Vel má halda því fram að sá tími sem veittur var til umsagnar hafi verið óásættanlegur. En þegar svo ber við gefst ekki tími til að safna saman sjónarmiðum allra og enn síður er mögulegt að samræma sjónarmið, en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt til að við getum sett fram athugasemdir, umsagnir og svör og verið viss um að baki þeim sé sameiginlegur vilji. Ef við erum óviss, óskýr eða ósammála í samtali okkar við ríkið og aðra er hætt við því að slagkraftur okkar verði máttleysislegur. Ég sé það sem eitt af forgangsverkefnum næsta árs að vinna stefnumótun fyrir landshlutann í helstu málaflokkum eins og samgöngustefnu, innviðastefnu, endurskoða stefnu um meðhöndlun úrgangs, umhverfisstefnu og þannig mætti lengi telja.

Nú fer árið að vera á enda runnið. Á áramótum er manni orðið það tamt að líta aðeins til baka yfir árið og gera það upp. Fjarfundir eru okkar aðal samskiptaleið en við fögnum því að hafa getað heimsótt aðila og einstaklinga á svæðinu þegar rofað hefur til í faraldrinum og við höfum líka tekið á móti fjölda gesta sem heimsóttu okkur til að fræðast um starfsemi SSNE, tækifæri og áskoranir í landshlutanum og skiptast á upplýsingum og skoðunum. Atvinnuþróun og nýsköpun hefur blómstrað sem og skapandi greinar í verkefnum sem SSNE kemur að svo ekki sé minnst á umhverfismálin sem sannarlega hafa tekið rými á árinu. Ég gæti tiltekið mikinn fjölda verkefna sem SSNE hefur komið að á árinu og vert er að nefna en hér er ekki rými fyrir það og erfitt er að gera upp á milli. Ég læt slíkt yfirlit því bíða ársskýrslu SSNE sem koma mun út fyrir ársþing okkar í apríl. En mig langar samt að nefna opnun starfsstöðvar í Ólafsfirði sem var stórt og mikið skref til að ná góðri tengingu við allt svæðið.

Í upphafi þessa árs var að myndast ákveðinn stöðugleiki hjá SSNE í kjölfar sameiningar. En árið hefur verið nokkuð sviptivindasamt því miklar breytingar hafa verið í starfsmannahópnum. Fimm starfmenn létu af störfum á árinu en þau eru: Vigdís Rún Jónsdóttir, verkefnastjóri menningarmála, en hún tók við starfi verkefnastjóra sýninga hjá Listasafni Íslands, Ólafur Áki Ragnarsson, verkefnastjóri „Betri Bakkafjörður“ lét af störfum vegna aldurs, Baldvin Valdemarsson sviðsstjóri tók við starfi forstöðumanns RHA og Helga María Pétursdóttir, verkefnastjóri fjármála og reksturs fór til Háskólans á Akureyri í starf verkefnastjóra gagnagreiningar og fjárhags. Silja Jóhannesar Ástudóttir, verkefnastjóri umhverfismála lætur af störfum um áramót. Ég vil endurtaka þakkir til þessa ágæta fólks fyrir ánægjulegt samstarf og mjög gott starf í þágu SSNE á starfstíma þeirra og óska þeim velfarnaðar í því sem þau taka sér fyrir hendur.

Sex nýjir starfsmenn hófu störf á árinu og einn starfsmaður byrjar í upphafi nýs árs:Anna Lind Björnsdóttir, verkefnastjóri atvinnuþróunar og nýsköpunar í Ólafsfirði, Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnastjóri „Glæðum Grímsey“ en ákveðið var í sumar að tryggja framhald þess verkefnis til ársloka 2022, Gunnar Már Gunnarsson, verkefnastjóri „Betri Bakkafjörður“, Hildur Halldórsdóttir, verkefnastjóri menningarmála, Rögnvaldur Guðmundsson, verkefnastjóri fjármála og reksturs og Kolfinna María Níelsdóttir, kynningar- og markaðsmál. Smári Jónas Lúðvíksson, verkefnastjóri umhverfismála hefur störf 3. janúar á næsta ári. Gerður Sigtryggsdóttir starfaði hjá SSNE í nokkra mánuði við skjalamál.

Það er svo sannarlega tilefni til þess að hrósa starfsfólki SSNE fyrir frábært starf á árinu. Það er ánægjulegt að sjá samheldnina og samstarfið sem okkur hefur tekist að skapa, hér hlaupa allir undir bagga þegar þarf og ekki er spurt um tíma dags, lengd vinnudags eða hvað stendur í starfslýsingu, hér eru málin bara leyst. Það eru forréttindi að vera hluti af svo öflugu og samstilltu teymi.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum samstarfsaðilum fyrir frábært samstarf á árinu, góð og málefnaleg samskipti og ég hlakka mikið til framhalds þess á næsta ári.

Með ósk um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Eyþór Björnsson
Framkvæmdastjóri SSNE

Getum við bætt síðuna?