Fara í efni

75 milljónum úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra

75 milljónum úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra

Úthlutunarnefnd hefur nú valið þau 85 verkefni sem hljóta styrki úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra 2021.

HÉR er hægt að finna lista yfir öll þau verkefni sem hlutu styrk 2021.  

Metfjöldi umsókna barst og var það ærið verkefni fyrir úthlutunarnefndina að skera úr um hvaða verkefni skara framúr. Veittir voru styrkir til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja á sviði menningamála. Af 85 verkefnum sem hlutu styrk voru 34 í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar, 38 í flokki menningar og 13 stofn- og rekstrarstyrkir á sviði menningar. Umsóknir bárust úr öllum sveitarfélögum og skiptist úthlutun svona:

Vert er að athuga þegar skoðuð eru gögn um skiptingu styrkja á milli sveitarfélaga að þrátt fyrir að styrkhafi sé búsettur á einum stað og flokkast staðsetning styrksins samkvæmt því, þá er fjöldi verkefna sem hafa bein áhrif á aðra staði innan landshlutans. Auðvelt er að nefna sem dæmi listafólk sem sækir um styrk fyrir sýningu sem er svo haldin í félagsheimilum um allt Norðurland og áfram mætti telja.

Úthlutunarhátíð var rafræn að þessu sinni vegna samkomutakmarkana og var vel sótt af styrkþegum þessa árs. Eyþór Björnsson, framkvæmdarstjóri SSNE sá um fundarstjórn auk þess sem Hilda Jana Gísladóttir, stjórnarformaður SSNE fór yfir mikilvægi Uppbyggingarsjóðsins og tengingu hans við Sóknaráætlun landshlutans. Formaður úthlutunarnefndar, Katrín Sigurjónsdóttir fór yfir störf nefndarinnar og sagði frá nokkrum vel völdum verkefnum af þeim 85 sem hlutu styrk. Þá mættu fyrri styrkþegar og fjölluðu stuttlega um verkefni sín sem hlotið hafa styrki áður auk þess sem áhrifamikið tónlistaratriði var í boði en listakonan, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, hefur einmitt hlotið styrki fyrir frumsköpun listaverka sinna úr Uppbyggingarsjóði.

SSNE óskar öllum styrkþegum til hamingju um leið og við þökkum öllum umsækjendum fyrir sýndan áhuga og þá vinnu sem lögð var í umsóknargerðina alla.

Vinnustofur fyrir alla styrkþega
Öllum styrkþegum að þessu sinni verður boðið að taka þátt í vinnustofum þar sem verkefnastjórar SSNE sem sjá um umsýslu Uppbyggingarsjóðsins munu kynna næstu skref í ferlinu og svara algengum spurningum allra styrkþega.

Dagskráin:

  • Starfsmenn SSNE halda stutta kynningu á ferli Uppbyggingarsjóðs og næstu skrefum fyrir styrkþega
  • Starfsmenn fara yfir helstu atriði samninganna og skyldur styrkþega
  • Starfsmenn kynna nýjung: rafrænar undirskriftir samninga
  • Almennar umræður og fyrirspurnir

Fundarboð og hlekkur á vinnustofuna hefur verið sendur öllum styrkþegum en frekari upplýsingar gefur Rebekka Kristín í rebekka@ssne.is

 

Getum við bætt síðuna?