Fara í efni

5 verkefni á NE fá styrk úr Barnamenningarsjóði

5 verkefni á NE fá styrk úr Barnamenningarsjóði

Tilkynnt var um fjórðu úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands og hlutu 34 verkefni styrki upp á 92 m.kr. Þar af voru 5 af Norðurlandi eystra sem hlutu samtals 4,7 m.kr. 

Þau voru:

Ljóðasetur Íslands fékk 906.000 kr. fyrir verkefnið "Barnamenning á Ljóðasetri".  Verkefnið er unnið í samstarfi við Fjallabyggð, Umf. Glóa, Kómedíuleikhúsið og hljómsveitina Ástarpunga. 
Ljóðasetrið virkjar börn í Fjallabyggð í sumar til ýmissa skapandi verka m.a. með ljóða- og sögugerð, grímugerð, söng og listaverkasmíð. Í boði verða vikulegir viðburðir fyrir börn á aldrinum 5 - 12 ára, auk þess sem farið verður í samstaf við Ungmennafélagið Glóa um skapandi verkefnið Ævintýravikur, þar sem listin verður fléttuð saman við fjöru- og skógarferðir. 

Menningarfélag Akureryar fékk 1.350.000 kr. fyrir verkefnið "Fiðringur á Norðurlandi"
Fiðringur 2022 er hæfileikakeppni grunnskólanna á Norðurlandi í anda Skrekks. Verkefnið snýst um að byggja upp Fiðring til framtíðar og bjóða öllum grunnskólum Norðurlands til þátttöku frá Borðeyri til Bakkafjarðar 2023 með tilheyrandi undankeppnum.

Safnasafnið fékk 614.000 kr. fyrir verkefnið "Fjórvíð virkni".  Verkefnið er unnið í samstarfi við Svalbarðsstrandarhrepp o.fl. 
Verkefnið Fjórvíð virkni er hugsað til þess að auka þátttöku barna í sumarstarfi Safnasafnsins, í fyrsta lagi með því að efna til tveggja sýninga á verkum nemenda Svalbarðstrandahrepps og bjóða yngri gestum safnsins upp á að skoða sýningar safnsins í gegnum Feluleik. Auk þess væri boðið upp á lifandi sýningu á gripum úr Bláa boxinu.

Ösp Eldjárn Kristjánsdóttir fékk 1.100.000 kr. fyrir verkefnið "Tónatrítl".  Verkefnið er unnið í samstarfi við Dalvíkurbyggð, Minjasafnið á Akureyri, Safnahúsið á Húsavík o.fl. 
Tónatrítl er hugljúf tónlistarstund ætluð börnum á aldrinum 0-5 ára og foreldrum þeirra. Um er að ræða 40-60 mínútna samverustund í söng, hreyfingu og dansi sem söngkonan og tónlistarkennarinn Ösp Eldjárn leiðir. Notast verður við íslenskar þulur og barnagælur sem og frumsamin lög og texta í bland við erlend, sem Ösp hefur þýtt og heimfært á íslenska vísu.

Orgelhúsið - félagasamtök - fékk 700.000 kr. fyrir verkefnið "Orgelkrakkahátíð".  Verkefnið er unnið í samstarfi við Listvinafélag Akureyrarkirkju, Hóladómkirkju, Tónlistarskóla A-Húnavatnssýslu o.fl. 
Orgelkrakkahátíð er listgjörningur og tónlistarveisla fyrir börn á öllum aldri. Þátttakendur taka virkan þátt og fá að njóta undraheima orgelsins með hlustun, sköpun, smíði og fræðslu með það að markmiði að víkka sjóndeildarhringinn á tónlistarsviðinu. Orgelkrakkahátíð samanstendur af vinnusmiðjunum orgelspuna og tónleikum þar sem flutt verða frægustu orgelverk sögunnar ásamt tónlist úr þekktum kvikmyndum og flutningi á tónlistarævintýrinu Lítil saga úr orgelhúsi.

Hér má sjá frekar upplýsingar um öll verkefnin sem hlutu styrk að þessu sinni.  Við óskum styrkþegum öllum innilega til hamingju með þessi flottu verkefni. 

Í rökstuðningi fagráðsins sem fjallar um umsóknirnar segir að umsóknirnar sem bárust beri fagurt vitni ástríðu og hugmyndaauðgi þeirra sem sinna skapandi störfum með börnum og í þágu barna. Þar eru á ferðinni fagmenn og frumkvöðlar sem sinna flóknum verkefnunum af djúpri þekkingu og einlægri sköpunargleði. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í verkefnunum áhrif alþjóðlegrar stefnumörkunar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun, sem ber vott um flókið samspil menningarlegra þátta og sem setja mun mark sitt á framtíð þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Getum við bætt síðuna?