Fara í efni

27,5 milljónir til tveggja verkefna á Norðurlandi eystra úr Byggðaáætlun

27,5 milljónir til tveggja verkefna á Norðurlandi eystra úr Byggðaáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til tíu verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 (aðgerð C.1)

Markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt var til grundvallar við mat á umsóknum.

  • Samfélagsmiðstöð á Bakkafirði – nýtt hlutverk skólans sem vinnu- og samverurými. Búa á til klasasetur í hluta skólahúsnæðis og auka þjónustu við heimamenn. Sköpuð verður aðstaða til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi, efla fjarnám og gefa samastað fyrir samkomur og viðburði. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk að upphæð kr. 12.500.000.
  • Lýsistankarnir á Raufarhöfn. Gera á lýsistankana á Raufarhöfn manngenga og mögulega til notkunar fyrir kvikmyndagerð, tónleika og menningarviðburði. Tankarnir eru sagðir einstakir og hafa sögulegt gildi. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk að upphæð kr. 15.000.000.

SSNE óskar styrkþegum innilega til hamingju.

Getum við bætt síðuna?