Fara í efni

20,5 m.kr. styrkir til fjarvinnustarfa á Raufarhöfn, Bakkafirði og Húsavík.

Mynd: Ríkharður Guðmundsson
Mynd: Ríkharður Guðmundsson

20,5 m.kr. styrkir til fjarvinnustarfa á Raufarhöfn, Bakkafirði og Húsavík.

Innviðaráðherra úthlutaði nýverið 35 m.kr. til fjarvinnustöðva á grundvelli aðgerðar B.8 í stefnumótandi byggðaáætlun með það markmið að koma opinberum gögnum á stafrænt form og fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.  Auglýst var eftir umsóknum í febrúar og bárust 6 umsóknir en 4 verkefni hlutu styrk.   Tvö af þeim voru á Norðurlandi eystra. 

Skráning sóknarmannatala
Þjóðskjalasafn Íslands hlaut styrk upp á rúmlega 16,5 .kr. fyrir árin 2022 - 2023 en ráða á tvö störf á Bakkafirði og Raufarhöfn.  Þar skal koma opinberum gögnum á stafrænt form og gera þau aðgengileg fyrir almenning.  Um er að ræða innslátt sóknarmanntala sem varðveitt eru í frumritum Þjóðskjalasafns í leitarbæran gagnagrunn.  Sóknarmanntölin eru frumheimildir um líf og störf Íslendinga frá 18.-20. öld.

Skráning í Sarp
Þjóðminjasafn Íslands hlaut 4 m.kr. styrk fyrir árið 2022 vegna fjarvinnsluverkefnis sem unnið verður við Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík. Verkefnið felst í að tengja og nýskrá upplýsingar um ljósmyndir sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni í menningarsögulega gagnasafnið Sarp og gera ljósmyndirnar aðgengilegar almenningi. Um er að ræða 14 þúsund ljósmyndir og tilheyrandi lýsigögn.

Tvö verkefni til viðbótar hlutu styrk.  Háskóli Íslands hlaut styrk fyrir verkefni sem unnið verður í Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum og Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hlaut styrk vegna verkefnis sem unnið verður í Vestmannaeyjum.  Hér er hægt að sjá frétt innviðaráðuneytisins um öll verkefnin. 

Það er eitt af yfirlýstum markmiðum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra að auka hlutdeild landshlutans í úthlutunum opinberra styrkja. SSNE því unnið ötullega að umsóknum, styrkumsóknaaðstoð og upplýsingagjöf vegna slíkra styrkja og styrkveitinga og samgleðst öllum þeim sem hafa erindi sem erfiði. 

Getum við bætt síðuna?