Fundargerð 77. fundar stjórnar SSNE - 6. nóvember 2025
06.11.2025
77. fundur stjórnar Samtaka sveitarfélaga
og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra
Fundur haldinn fimmtudaginn 6. nóvember 2025 á Teams og hófst fundurinn kl. 14:00.
Fundinn sátu: Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður, Helena Eydís Ingólfsdóttir, Guðjón M. Ólafsson, Axel Grettisson, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir í forföllum Hildu Jönu Gísladóttur, Katrín Sif Ingvarsdóttir, Hermann Ingi Gunnarsson, Mirjam Blekkenhorst, Þórunn Sif Harðardóttir, Þröstur Friðfinnsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir og Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri sem ritaði fundargerð. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framkvæmdastjóri sat hluta fundarins.
Formaður stjórnar hóf fundinn á að bjóða Jónu Björgu Hlöðversdóttur velkomna í stjórn SSNE.
- Uppbyggingarsjóður – úthlutun 2026
Díana Jóhannsdóttir verkefnastjóri mætti til fundarins og kynnti tölfræði umsókna í Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra en umsóknarfrestur rann út 22. október s.l.. Alls bárust 127 umsókn frá öllum sveitarfélögum landshlutans. Alls var sótt um 290.690.574 kr..
Stjórn þakkar Díönu fyrir kynninguna og samþykkir að 74 m.kr. verði til úthlutunar á þessu ári.
Í úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra við þessa úthlutun sitja:
Kristín Sóley Björnsdóttir formaður, Thomas Helmig, Halldóra J. Friðbergsdóttir, Arnar Þór Stefánsson, Guðni Bragason og Linda Margrét Sigurðardóttir.
Í ljósi þess að færri umsóknir bárust í flokk atvinnuþróunar og nýsköpunar í Uppbyggingarsjóð í þessari úthlutun og þar sem meðaltal umbeðinna styrkupphæða er hærri í þann flokk vill stjórn SSNE koma þeirri ábendingu til úthlutunarnefndar að ekki sé sett sérstak þak á styrkupphæð, heldur horft sé til hvort verkefni styðji vel við markmið Sóknaráætlunar. - Áhersluverkefni
Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri fór yfir áhersluverkefni ársins og stöðu þeirra, auk þess sem kynntar voru hugmyndir að nýjum verkefnum.
Stjórn þakkar Elvu fyrir kynninguna og samþykkir eftirfarandi áhersluverkefni:
Öflugt millilandaflug á Norðurlandi – 3.750.000.- kr.
Fjölskylduþjónusta á Norðurlandi eystra – 10.000.000 kr.
Líforkuver – 2.000.000. – kr.
Axel Grettisson yfirgaf fundinn kl. 14:27.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir mætti til fundarins kl. 14:41. - Haustþing SSNE
Þinggerð haustþings SSNE lögð fram til samþykktar. Jafnframt var farið yfir ályktanir þingsins og eftirfylgni þeirra.
Stjórn þakkar fyrir kynninguna og felur framkvæmdastjóra að fylgja eftir ályktunum þingsins í samræmi við umræður á fundinum. - Mál til kynningar
- Landsbyggðarvagnar – breytt þjónusta strætó á Norðurlandi eystra.
- Skýrsla um atvinnulíf á Húsavík.
- Málþing um framtíðina á Bakka þann 20. nóvember.
- C1 – opið fyrir umsóknir.
Helena Eydís Ingólfsdóttir yfirgaf fundinn kl. 15:06.
- Mál til umsagnar
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (viðurkenning námsbrautarlýsinga o.fl.).
- Frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki.
- Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og hollustuhættir og mengunarvarnir.
- Varnir gegn mengun hafs og stranda.
- Jarðakaup erlendra aðila.
- Viðskipta- og þjónustusvæði við Svínvetningabraut, nr. 1427/2025: Lýsing (Breyting á aðalskipulagi)
- Tillaga til þingsályktunar um dreifingu starfa.
- Frumvarp til laga um vegalög (þjóðferjuleiðir).
- Frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).
- Samráðsgátt: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 (háskólasamstæða).
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir yfirgaf fundinn 15:15.
- Önnur mál
- Næsti fundur stjórnar verður staðfundur, haldinn á Laugum í Þingeyjarsveit þann 3. desember.
- Bókun stjórnar vegna viljayfirlýsingar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Landsnets og Rarik um eflingu raforkukerfis á norðausturhorni landsins.
Stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) fagnar því sérstaklega að í dag hafi verið undirrituð viljayfirlýsing milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Landsnets og Rarik um eflingu raforkukerfis á svæðinu.
Viljayfirlýsingin, sem kveður á um lagningu 33 kV strengs frá Vopnafirði til Þórshafnar og áform um 132 kV flutningslínu frá Kópaskeri til Þórshafnar, markar stórt framfaraskref fyrir orkuöryggi, atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun á Norðausturlandi.
Jafnframt er það sérstakt fagnaðarefni að einnig verði farið í að byggja nýtt 132 kV tengivirki á Bakka við Húsavík, sem auðveldar tengingu nýrra stórnotenda og styður við þróun atvinnulífs og orkutengds iðnaðar á svæðinu.
Stjórn SSNE bendir á að þessar aðgerðir eru í fullu samræmi við áherslur Samgöngu- og innviðastefnu SSNE 2023–2033, þar sem lögð er megináhersla á að tryggja tengingu Þórshafnar og Langaness við flutningskerfi landsins og að bæta orkuöryggi og flutningsgetu raforku á Norðurlandi eystra.
Viljayfirlýsingin er áþreifanlegt viðbragð stjórnvalda gagnvart stefnumótun og sameiginlegri hagsmunagæslu landshlutans. Ljóst er að um milljarða fjárfestingu er að ræða, sem á eftir að skila miklum samfélagslegum og efnahagslegum ávinningi bæði til landshlutans og þjóðarbúsins í heild.
Stjórn SSNE lýsir yfir vilja sínum til að vinna áfram með Landsneti, Rarik og stjórnvöldum að framgangi verkefnanna og heildstæðri þróun orkuinnviða á svæðinu.
Þetta er stór áfangasigur fyrir íbúa, atvinnulíf og samfélög á Norðurlandi eystra – og mikilvægt skref í átt að jafnvægi, öryggi og tækifærum um allt land.
Fundi slitið kl. 15:20.