Fara í efni

Líforkuver

Verkefnið Líforkuver í Eyjafirði var eitt af áhersluverkefnum SSNE árið 2023, með mótframlagi frá Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytinu. Markmið verkefnisins var að útbúa kostnaðar- og rekstraráætlun fyrir líforkuver á Dysnesi í Hörgársveit og að kanna nánar forsendur uppbyggingar líforkuvers á Dysnesi en gert var í frumhagkvæmnimati sem kynnt var fyrir sveitarfélögum SSNE þann 1. nóvember 2022.

Verkefnastjórn fór fram innan SSNE í þéttu samstarfi við Vistorku sem ljáði verkefninu krafta starfsmanns síns. Utanaðkomandi ráðgjafar voru fengnir að borðum; sérfræðingur í meðhöndlun dýraleifa og sjúkdómavörnum, hagfræðingur, verkfræðingar og arkitektar. Ákveðið var að skipta verkefninu upp þannig að einblínt væri á meðhöndlun dýraleifa/dýrahræja í fyrsta fasa verkefnisins. Mat verkefnastjórnar var að skynsamlegt væri að horfa fyrst til þess efnis sem á engan góðan farveg á landinu í dag og ríður verulega á að koma á fót innviðum sem geta tekið á þeim vanda sem Ísland stendur frammi fyrir í kjölfar EFTA dóms sem féll á landið árið 2022.

Í júní 2023 voru niðurstöður vinnunnar kynntar sveitarstjórnarfólki og í kjölfarið var tekin ákvörðun um að stofna einkahlutafélag til að halda áfram vinnu við verkefnið. Líforkuverið sem kynnt var sveitastjórnarfólki byggir á áratugalangri reynslu nágrannalanda okkar þegar kemur að meðhöndlun dýraleifa, og leitað var til finnskra aðila sem unnu með þær forsendur sem verkefnastjórn lét þeim í té. Niðurstaða vinnunnar er sú að á Dysnesi gæti risið líforkuver sem annað gæti öllum dýraleifum á landinu, og að nauðsynlegt sé að ríkið komið verulega að uppbyggingu þessara innviða, auk þess að koma á samræmdri söfnun á dýrahræjum á landsvísu.

Í kjölfar þessarar vinnu hefur félagið Líforkuver ehf. sótt um lóð á Dysnesi undir vinnsluna og landeigendur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að verið rísi þar, víðtækt samtal og samráð hefur farið fram við helstu hagaðila og skipulögð og farin var kynnisferð til Finnlands og Noregs fyrir fulltrúa helstu hagaðila sem fengu færi á að kynnast starfsemi slíkra vinnslna.

Getum við bætt síðuna?