Fara í efni

Gullakistan: Námskrá og tækifæri alltumlykjandi - Barnamenning

Markmið verkefnisins er að fjölga heimsóknum skólahópa í söfn, setur og sýningar á svæðinu. 

Leiðin að settu markmiði er að draga saman fyrir kennara tækifærin á sviði safna, setra og sýninga sem landshlutinn færir okkur á silfurfati. Með það fyrir augum að þeir geti á auðveldan og skilvirkan hátt flett upp möguleikum á vettvangsferðum, safnakennslu og annarri lifandi kennsluaðferð í takt við árgang, námsgrein og -bækur sem og námskrá. 

Upphæð: 4.000.000 kr.

Staða verkefnis:
Allir skólastjórar á leik- og grunnskólastigi fengu kynningarbréf og öllum bauðst jafnframt kynningarfundur. Í framhaldinu fengu allir skólastjórar hlekk á könnun og ósk um að 2 stjórnendur ásamt starfsfólki tækju þátt í stuttri könnun. Tilgangur könnunarinnar var að finna út hvaða leitarorð myndu henta skólastarfsfólki til að finna safnfræðslu og vettvang við hæfi. Svolítið eins og að búa til fjársjóðskort fyrir kennara, þannig að þeir verði fljótir að opna viðeigandi fjársjóðskistur og nýta þann auð sem við eigum í landshlutanum.

40 af 43 söfnum, sýningum, setrum á Norðurlandi eystra tóku þátt, þrjú gátu ekki tekið þátt vegna manneklu. Búið er að safna þeim upplýsingum sem ráðgert var, bæði útfrá niðurstöðum könnunar til skólastarfsfólks sem og almennum upplýsingum. Ljóst er að ríkulegur fjöldi af fjölbreyttum, vönduðum og lifandi fræðsluverkefnum er til staðar, en ekki sýnileg. Nauðsynlegt er að draga þau fram í dagsljósið. Aðeins 8 af 40 miðla fræðslumöguleikum sínum fyrir leik- og grunnskóla á heimasíðum sínum. Fimm eru með skriflega fræðslustefnu og færri búa yfir stöðu safnkennara. 

Áætlað er að birta lokaafurð þessa verkefnis í febrúar 2024. Samtímis er leitað leiða til að taka verkefnið á næsta skref og vinna að sýnileika menningararfsins og gera hann sérstaklega aðgengilegan skólastarfsfólki. Hér má finna kynningu á verkefninu frá mars 2023.

Verkefnið er unnið af menningarfulltrúa SSNE og Þórgunni Þórsdóttur verkefnastjóra.

Þórgunnur er menntaður listamaður sem hefur mikinn áhuga á því hvernig miðla megi íslenska menningararfinum. Hún hefur víðtæka reynslu sem veitir Gullakistunni forskot; hún hefur m.a. gegnt hlutverki fræðslufulltrúa safna, sérfræðings safna, safnstjóra, viðburðarstjóra og unnið ýmis konar kvikmynda-, heimasíðu- og ljósmyndaverkefni sem gefur mikilvæga innsýn í ólíkar þarfir nemenda. Þórgunnur er jafnframt með BA gráðu í samtímalist og sýningarstjórn.


Getum við bætt síðuna?