Fundargerð 1. fundar Farsældarráðs Norðurlands eystra - 3. desember 2025
Dagsetning: 3. desember 2025
Tími: Kl. 13:00 – 14:10
Fundarstaður: Fjarfundur (Teams)
Fundarstjóri og ritari: Þorleifur Kr. Níelsson verkefnastjóri Farsældarráðs Norðurlands eystra
Fundinn sátu:
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bjarki Ármann Oddsson, Daníel Sigurður Evaldsson, Hilma Steinarsdóttir, Hjördís Albertsdóttir, Jón Höskuldsson, Karólína Gunnarsdóttir, Kristján Sturluson, María Aðalsteinsdóttir, Páley Borgþórsdóttir, Snæbjörn Ómar Guðjónsson, Svava Hrönn Magnúsdóttir og Þorleifur Kr. Níelsson.
Dagskrá og efnisatriði:
1. Setning fundar og kynning verkefnastjóra
Þorleifur verkefnastjóri setti fundinn og kynnti hlutverk og tilgang ráðsins. Hann lagði áherslu á að stuðla að opnu, gagnsæju samstarfi og að starf ráðsins verði markvisst og faglegt. Auk þess var fjallað var um praktísk atriði sem tengjast störfum ráðsins eins og tímasetningu og fjölda funda á næsta ári, upplýsingagjöf, gagnaöflun og utanumhald skjala.
2. Kynning fundarmanna
Fundarmenn kynntu sig og sinn bakgrunn. Fjölbreyttur hópur fagfólks sat fundinn – meðal annars frá velferðar- og skólaþjónustu, lögreglu, heilbrigðisþjónustu, foreldrasamstarfi og íþróttastarfi. Á fundinum kom fram sterk samstaða um mikilvægi þess að vinna saman að farsæld barna með skýra sýn og samræmda framkvæmd.
3. Kosning formanns og varaformanns
Þorleifur lagði fram tillögu hvað varðar kosningu formanns og varaformanns.
- Karólína Gunnarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Akureyrarbæjar, var kosin formaður.
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Fjallabyggðar, var kosin varaformaður.
Kosningin var samþykkt samhljóða.
4. Tilgangur og hlutverk ráðsins skv. 5. gr. laga nr. 86/2021
Þorleifur fór yfir að samkvæmt lögum ber svæðisbundnu farsældarráði að móta fjögurra ára aðgerðaáætlun um forgangsröðun í þágu farsældar barna. Fundarmenn ræddu mikilvægi þátttöku barna og foreldra í mótun aðgerða ásamt því hvernig baklandshópar og gögn (t.d. frá Íslensku æskulýðsrannsókninni) geti stutt við stefnumótun ráðsins.
5. Kynning á skipuriti ráðsins
Skipurit ráðsins hafði verið sent til fundarmanna fyrir fundinn. Farið var yfir hvernig ráðið er skipulagt og hvaða hagaðilar eiga sæti í ráðinu. Þá var rætt um nauðsyn þess að allir þeir sem sitja í ráðinu eigi að hafa baklandshópa sér til stuðnings. Sérstök áhersla var lögð á aðkomu barna og foreldra sem áheyrnarfulltrúa í framtíðinni og hlutverk ungmennaráða á Norðurlandi eystra. Samstarf sveitarfélaga og þjónustuveitenda ríkisins var einnig rætt í tengslum við skipurit.
6. Starfsreglur ráðsins – umræða og samþykkt
Starfsreglur ráðsins höfðu verið sendar til fundarmanna fyrir fundinn. Engar athugasemdir komu fram og þær voru samþykktar samhljóða. Í þeim er m.a. kveðið á um fundarfjölda, hlutverk aðal- og varamanna og verklag við ákvarðanatöku.
7. Samskiptasáttmáli – umræða og samþykkt
Samskiptasáttmáli ráðsins hafði verið sendar til fundarmann fyrir fundinn. Samskiptasáttmálinn byggir á virðingu, fagmennsku, trausti og ábyrgð. Fundarmenn samþykktu samskiptasáttmálann og þar með að nota hann sem leiðarljós samstarfsins sem framundan er.
8. Tillaga um skipulag funda ársins 2026
Lagt var til að halda átta fundi á fyrsta starfsári (janúar, febrúar, mars, apríl, maí, september, október og nóvember) og þar af tvo staðarfundi (apríl og september). Þetta fyrirkomulag kemur þegar fram í starfsreglum ráðsins. Fundartímar verði kl. 15–17 á miðvikudögum en þessi tímasetning er valin, svo að þau ungmenni sem munu sækja fundina, eiga auðvelt með það. Fundarmenn samþykktu tillöguna og voru sammála um mikilvægi þess að senda fundarboð með góðum fyrirvara og tryggja reglulegt flæði upplýsinga á milli funda.
9. Önnur mál
- Þorleifur lagði á það áherslu að þeir sem eru í farsældarráði hiki ekki við að hafa samband við hann eftir þörfum. Þétt samtal og samvinna verkefnastjóra, við þá sem eru í ráðinu, er forsenda þess að vegferðin sem framunda er verði gagnleg, farsæld barna til heilla.
- Lögð áhersla á mikilvægi virkra baklandshópa en með því móti styrkist starf og stefnumótun farsældarráðs.
- Rætt var um mikilvægi upplýstrar ákvarðanatöku með gögnum og til að móta forgangsröðun í aðgerðaáætlun.
- Lögreglan minntist á áhyggjur af aukningu ofbeldismála og nauðsyn samhæfðrar aðgerðaáætlunar á svæðinu.
Fundi var slitið kl. 14:10.
Næsti fundur verður haldinn í janúar 2026.