Á undanförnum áratugum hefur Menningar- og viðurkenningarsjóður KEA, veitt hverskonar menningarstarfsemi á félagssvæðinu fjárhagslegan stuðning.
Umsóknum þarf að skila í síðasta lagi föstudaginn 31. október 2025, hægt er að senda inn umsóknir á vefnum eða fylla út þar til gerð eyðublöð sem hægt er að nálgast á skrifstofu KEA.
Umsóknir sem berast Menningar- og viðurkenningarasjóði KEA eru sendar til fagráða sem meta umsóknir og gefa þeim einkunn samkvæmt útgefnum viðmiðum. Vakin er athygli á því að aðilar eða verkefni geta ekki fengið úthlutun úr sjóðnum tvö ár í röð. Styrkir eru ekki veittir til hlutafélaga og sveitarfélaga (eða stofnanna þeirra).
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel útlistun á hverjum flokki Menningar- og viðurkenningarsjóðs KEA:
Athygli skal vakin á því að launamiðar verða gefnir út vegna úthlutunar styrkja úr sjóðnum. Því er einstaklingum sem fá styrki bent á að halda til haga kvittunum vegna kostnaðar við viðkomandi verkefni. Umsækjendum er bent á að styrkir fyrnast séu þeir ekki sóttir innan tveggja ára frá úthlutun.
Umsóknareyðublöð:
Nánari upplýsingar um styrkja- og stuðningsflokka Menningar- og viðurkenningarsjóðs KEA:
- Menningar- og samfélagsverkefni. Um er að ræða styrki til einstaklinga, þar á meðal ungs fólks, félaga eða hópa sem skara fram úr eða vinna að mikilvægum mennta- og menningarmálum á félagssvæðinu. Um er að ræða málefni á sviðum félagsmála, minjavörslu, lista og hverra þeirra málefna sem flokkast geta sem menningarmál í víðtækri merkingu. Fagráð metur umsóknir og gefur þeim einkunn. Í einkunnagjöf fagráðs felst mat á því hvaða umsóknir skulu teljast styrkhæfar.
- Íþrótta- og æskulýðsstyrkir. Almenn markmið með styrkveitingum til íþrótta og æskulýðsmála eru:
- Að stuðla að því að börn og unglingar eigi kost á einhvers konar íþróttaiðkun nálægt heimili sínu eða skóla.
- Að íþróttamenn eða lið sem skara fram úr geti stundað markvissar æfingar og sótt mót við sitt hæfi.
- Að byggja upp aðstöðu sem er líkleg til að stuðla að ofangreindum markmiðum.
- Að styðja almennt við íþrótta- og æskulýðsstarfs klúbba og félaga sem halda úti metnaðarfullu starfi á sínu nærsvæði.