Fara í efni
Umsóknafrestur: Styrkir til fráveituframkvæmda

Stjórnarráðið hefur opnað fyrir umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 30. nóvember 2025.

  • Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Í fjárlögum vegna ársins 2025 er gert ráð fyrir að 379 m.kr. verði varið til þess að styrkja sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda.
  • Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.
  • Kostnaður við útboð, fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda í fráveitumálum teljast ekki styrkhæf. Sama gildir um hefðbundið viðhald og endurbætur á eldri fráveitukerfum. Þó eru endurbætur á eldri kerfum styrkhæfar ef tilgangurinn með endurbótunum er að kerfin standist gildandi kröfur laga og reglugerða.

Styrkir

Styrkfjárhæð nemur að jafnaði 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfrar fráveituframkvæmdar. Styrkfjárhæð skal þó aldrei verða hærri en 30% af heildarkostnaði og að jafnaði aldrei lægri en 15%.

Umsóknir á eyðublaðavef Stjórnarráðsins

Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Hægt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli frá Þjóðskrá. Umsækjendur skrá sig inn og finna þar viðeigandi eyðublað undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

  • Umsóknum skal fylgja verk- og tímaáætlun fyrir þá áfanga framkvæmdar sem sótt er um styrk fyrir og uppfærðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað frá samþykktri áætlun eftir því sem við á, auk afrita af greiddum reikningum eftir atvikum.
  • Miðað er við að greiðsla styrkja fari fram í desember 2025 og í janúar 2026 - og þurfa gögn að berast fyrir 15. janúar 2026.
  • Fyrirvari er um að greiðslur styrkja verði eftir því sem fjárheimildir leyfa.
  • Styrkir verða einungis greiddir út á grundvelli þegar greiddra reikninga.
  • Upplýsingar um útgreiðslu styrkja, útgreiðsluáætlun og útgreiðsluhlutfall verða birtar á vef ráðuneytisins.

Umsóknir sem ekki uppfylla skilyrði auglýsingar og úthlutunarskilmála samkvæmt reglugerð um úthlutun styrkja til fráveitna sveitarfélaga, nr. 1424/2020, verða ekki teknar til umfjöllunar.

Nánari upplýsingar má nálgast hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu: urn@urn.is

Umsóknafrestur: Styrkir til fráveituframkvæmda