Fara í efni

Vinnustofa um heildstæð orkuskipti á Samsø

Árið 1997 tóku íbúar Samsø þá ákvörðun um að verða fyrsta sjálfbæra eyjan í Danmörku og á 10 árum tó…
Árið 1997 tóku íbúar Samsø þá ákvörðun um að verða fyrsta sjálfbæra eyjan í Danmörku og á 10 árum tókst þeim að umbreyta raforkuframleiðslu í 100% sjálfbæra orku en eyjan framleiðir allt sitt rafmagn með vindmyllum sem eru að stærstum hluta í eigu íbúanna.

Vinnustofa um heildstæð orkuskipti á Samsø

SSNE tók þátt í vinnustofu um heildstæð orkuskipti á eyjunni Samsø í Danmörku. Vinnustofan var í höndum Energi Akademiet sem hafa áratuga reynslu af því að þróa og innleiða svæðisbundnar orkuskiptaáætlanir.

Vinnustofan var hluti af RECET-verkefninu. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið snýst um að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir. Sveitarfélög í dreifðum byggðum munu gegna lykilhlutverki í orkuskiptum og innleiðingu aðgerða sem miða að markmiði Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi 2050 og lögfest markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040.

RECET er skammstöfun fyrir Rural Europe for the Clean Energy Transition  og hlaut styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 M ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál.

Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi en Vestfjarðarstofa og SSNE eru einnig þátttakendur. Utan Íslands koma sveitarfélagið Postojna í Slóveníu, Blekinge sýsla í Suðaustur-Svíþjóð og sveitarfélög á eyjunni Menorca á Spáni einnig að verkefninu. Sjá nánar hér.

Stuðst verður við reynslu og aðferðir Energi Akademiet í þeim orkuskiptaverkefnum sem hafa átt sér stað á Samsø. Árið 1997 tóku þau ákvörðun um að verða fyrsta sjálfbæra eyjan í Danmörku og á 10 árum tókst þeim að umbreyta raforkuframleiðslu í 100% sjálfbæra orku en eyjan framleiðir allt sitt rafmagn með vindmyllum sem eru að stærstum hluta í eigu íbúanna. Þau hafa einnig stigið gríðar stór skref í átt að 100% sjálfbærri húshitun og stefna á að verða alfarið laus við brennslu jarðefnaeldsneytið fyrir árið 2030.

Mikil ánægja var með vinnustofuna og óhætt er að segja að reynslan muni nýtast vel til þróunar og innleiðingar á orkuskiptaverkefnum hér á Norðurlandi eystra.

Getum við bætt síðuna?