Fara í efni

Verkefnið Ratsjáin fer fram úr væntingum

Verkefnið Ratsjáin fer fram úr væntingum

Síðastliðin þriðjudag hittist forsvarsfólk þeirra tólf ferðaþjónustufyrirtækja sem tóku þátt í Ratsjánni á Norðausturlandi til að ljúka vel lukkaðri 12 vikna samvinnu í verkefninu. Sá hittingur var að frumkvæði þátttakenda og lýsir vel stemmningunni sem náðist í hópnum. Vogafjós, Snowdogs og Sel-Hótel buðu öðrum þátttakendum í heimsókn og veðrið lék við hópinn.

Ratsjáin var fyrst keyrð í samstarfi Ferðaklasans og Nýsköpunarmiðstöðvar árið 2016 en svo með stuðningi frá svonefndri Byggðaáætlun frá árinu 2019 sem lýsir stefnu ríksins í byggðamálum. Í dag er það Íslenski ferðaklasinn sem leiðir verkefnið í samstarfi við RATA og Samtök sveitarfélaga á landsbyggðinni.

Ratsjáin er hugsuð sem verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Umræðunni og verkefnavinnunni er stýrt þannig að þátttakendur taki á flestum þeim áskorunum sem fyrirtæki í þessum geira standa fram fyrir s.s. vöruþróun, markaðssetningu, ábyrgð og sjálfbærni, stafrænni þróun, breyttum veruleika í kjölfar heimsfaraldurs svo eitthvað sé nefnt.

„Ratsjáin fór fram úr mínum væntingum“

Verkefnið var allt í netheimum þar sem þátttakendur tóku þátt í fundum sem haldnir voru þvert á landið aðra hverja viku með öflugum fyrirlesurum. Hina vikuna hittust þátttakendur í hverjum landshluta fyrir sig í samvinnu varðandi áskoranir og tækifæri sem snúa að þeim. Þeir fundir voru aðallega í hópavinnuformi og þótti takast vel til.

Hrefna Laufey þátttakandi í Ratsjánni rekur gistiheimilið Ása inn í Eyjafjarðarsveit segir Ratsjánna hafa farið fram úr sínum væntingum; „Það er svo ótal margt sem nýtist mér í mínum rekstri. Ég er byrjuð að vinna í að laga heimasíðuna, eftir fyrirlestur og ábendingar frá þátttakendum. Ég hef styrkt tengslanetið og fengið viðurkenningu á því sem ég er að gera.“

Hrefna minnist oftar á það tengslanet sem myndaðist og hún stefnir á formaðra samstarf við aðila sem tóku þátt. Ásdís sem rekur í samstarfi við manninn sinn, Yngva Ragnar, Sel-Hótel í Mývatnssveit tekur í sama streng spurð út í Ratsjánna, „..víkkar tengslanetið og eykur sjóndeildarhringinn og getur skapað tækifæri á frekara samstarf við önnur fyrirtæki.“

Rebekka, Silja og Elva, verkefnastjórar SSNE stýrðu þeim hluta sem að landshlutasamtökunum stóð og telja þetta samstarf komið til að vera. Verkefninu var listilega stýrt af RATA og Íslenska ferðaklasanum í samstarfi við landshlutasamtökin.

 

 

Getum við bætt síðuna?