Fara í efni

Uppskeruhátíð Matsjárinnar

Uppskeruhátíð Matsjárinnar

Undanfarnar vikur hefur SSNE verið þátttakandi í verkefni sem nefnist Matsjá, sem snýr að því að veita stuðning til matarfrumkvöðla og er ætlað smáframleiðendum sem vilja efla leiðtogafærni sína, öðlast aukna getu til að þróa vörur og þjónustu og efla tengslanetið sitt í greininni.

Nú er komið að uppskeruhátíð Matsjárinnar og efna smáframleiðendur matvæla því til matarmarkaðar í Grettissal þann 7. apríl næstkomandi. Á markaðinum gefst gestum tækifæri til að kynnast fjölbreyttri nýsköpun í matvælaframleiðslu af öllu landinu.


Öflugt samstarfsverkefni um land allt

Matsjáin er á vegum Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM) og landshlutasamtakanna en SSFM sótti um styrk úr Matvælasjóði og fékk úthlutað í verkefnið. Verkefnið er byggt upp að fyrirmynd Ratsjárinnar sem er verkefni fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu þróað af Íslenska ferðaklasanum og leiðir Rata, ráðgjafafyrirtæki, verkefnið fyrir hönd samstarfsaðilanna. 

Alls sóttu um 80 aðilar um í Matsjánna þegar auglýst var eftir þátttakendum, en sex smáframleiðendur á Norðurlandi eystra voru valin til þátttöku í ár. Þeir eru: Sparifé frá Gilsbakka, Nægtabrunnur nátttúrunnar, Syðra Holt, Árdalur, Matgæðingar ehf og Böggvisbrauð.

Matsjáin snertir á helstu áskorunum sem smáframleiðendur matvæla standa frammi fyrir í dag og unnin út frá jafningjaráðgjöf, fræðslu, erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf. Nú er verkefnið á lokametrunum eftir sjö lotur yfir 14 vikna tímabil þar sem unnið hefur verið með eftirfarandi þætti:

  • Lota 1 – Nýsköpun og skapandi hugsun
  • Lota 2 – Markaðsmál og sala
  • Lota 3 – Ímyndin: Vörumerkið, heimasíðan og umbúðir
  • Lota 4 – Reksturinn og fjármögnun
  • Lota 5 – Stefnumótun og viðskiptaáætlun
  • Lota 6 – Umhverfismál og fullnýting
  • Lota 7 – Tengslanet, sýnileiki og kynningar

Elva Gunnlaugsdóttir og Anna Lind Björnsdóttir stýra verkefninu fyrir hönd SSNE.

Getum við bætt síðuna?