Pistill framkvæmdastjóra - Apríl
Pistill framkvæmdastjóra - Apríl
Þrátt fyrir að aprílmánuður hafi verið óvenju gjafmildur á frídaga, þá var apríl viðburðaríkur í starfsemi SSNE. Mánuðurinn hófst af krafti með ársþingi samtakanna en það fór fram 2.-3. apríl á Hótel Natur í Svalbarðsstrandarhreppi. Þar áhersla lögð á annars vegar „að grípa tækifærin“ og hins vegar á samvinnu og samstarf. Þátttaka var afar góð og er rétt að ítreka þakkir okkar til þinggesta og sömuleiðis til gestgjafanna.
Í aprílmánuði var nýju verkefni hleypt af stokkunum þegar auglýst var eftir styrkjum í frumkvæðissjóði Brothættra byggða II fyrir Öxarfjörð og Raufarhöfn. Umsóknir þurfa að tengjast meginmarkmiðum svæðanna og hafa samhljóm við framtíðarsýn verkefna, en verkefnin þurfa þó fyrst og fremst að vera til þess fallin að efla samfélagið. Rétt er að vekja athygli á að enn er opið fyrir umsóknir og er frestur er til 5. maí næstkomandi.
Rétt fyrir páska var svo föstudagsfundur SSNE haldinn en í þetta skiptið fjölluðum við um hagræn áhrif skapandi greina. Það var virkilega áhugaverður fundur þar sem kom skýrt fram m.a. í erindi Ágústar Ólafs Ágústssonar hagfræðings að menning og skapandi greinar eru engin neðanmálsgrein í hagtölum. Kristjana Rós Guðjohnsen frá Íslandsstofu fór svo yfir tölfræði birtinga sem Íslandsstofa heldur utan um. Þar var líklega mest sláandi hversu lítið Íslandsstofa virðist styðja við viðburði utan höfuðborgarsvæðisins og er ljóst að gera þarf betur í því tilliti. Þá fengum við skemmtilega innsýn í þremur aðilum sem starfa innan menningar og skapandi greina á Norðurlandi eystra en þau sýndu öll vel hversu metnaðarfull og mikilvæg menningin er, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins.
Þá má nefna að nefna að í aprílmánuði voru sett af stað tvö NPA verkefni sem SSNE er þátttakandi í. Annars vegar er það samstarfsverkefnið NACEMAP Sem er verkefni sem miðar að því að efla viðbragðsgetu norðlægra samfélaga gagnvart hamförum. Við erum þar þátttakendur fyrir ásamt Háskólanum á Akureyri og Norðurslóðanetinu, ásamt aðilum frá Írlandi og Finnlandi, auk þess sem sérfræðingar frá Kanada koma að verkefninu. Verkefnið er afar mikilvægt fyrir svæði eins og okkar þar sem náttúruvá er hluti af daglegu lífi. Hins vegar er það svo verkefnið Nordic Bridge sem er verkefni sem miðar að því að efla tengsl milli háskólasamfélags, atvinnulífs og nærsamfélaga til að styðja við nýsköpun og sjálfbæra þróun á norðlægum svæðum. Þar erum við þátttakendur ásamt Háskólanum á Hólum, auk samstarfsaðila frá Finnlandi, Noregi og Írlandi. Verkefnin eru bæði virkilega spennandi og við erum spennt að taka þátt og koma þeirri þekkingu sem skapast í þeim inn í samfélögin okkar á Norðurlandi eystra.
Það stefnir annars í spennandi maí mánuð hjá okkur. Þar ber fyrst að nefna ráðstefnuna Akureyri Energy Seminar: Sustainable Solutions for Remote Areas, sem haldin verður í Hofi þann 6. maí næstkomandi. Þar verður m.a. fjallað um nýjungar í sjálfbærum orkulausnum fyrir dreifðar byggðir, en verkefnið er haldið í tengslum við RECET verkefnið sem leitt er af Eimi en SSNE og Vestfjarðastofa eru þátttakendur í. Þá verður viku seinna, eða 14. maí, haldin ráðstefna um menningarferðaþjónustu og ferðamálastefnu til 2030 sem verður ákaflega áhugaverð, ekki síst fyrir öll sem hafa áhuga á eflingu atvinnugreina innan ferðaþjónustu og menningar. Það er Rannsóknarsetur skapandi greina sem stendur fyrir ráðstefnunni.
Annars óskum við ykkur öllum gleðilegs sumars! Það verður allavega nóg um að vera hjá SSNE og hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með heimasíðunni okkar, en þar má alltaf nálgast upplýsingar um helstu viðburði og umsóknarfresti.
Með bestu kveðju,
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
Framkvæmdastjóri SSNE