Fara í efni

Októberpistill framkvæmdastjóra

Októberpistill framkvæmdastjóra

Október var einn af þessum mánuðum sem virtist ljúka áður en hann hófst og allt í einu er kominn nóvember. Þegar ég sest niður til að líta til baka yfir verkefni mánaðarins þá er gleðilegt að sjá hvað það var í raun margt jákvætt sem var í gangi hjá okkur hér á Norðurlandi eystra.

Í fyrstu viku október voru tveir stórir viðburðir. Þann 5. október síðastliðinn var haldið glæsilegt afmælismálþing Brothættra byggða á Raufarhöfn. Þar komu saman aðstandendur Brothættra byggða verkefna af landinu öllu og ræddu um árangurinn af verkefninu síðustu tíu árin. Heilt yfir má segja að almennt ánægja hafi verið með hvernig til hefur tekist. Þó voru nokkur atriði sem vert er að læra af líka og endurspeglast sú umræða nokkuð í áhrifamati verkefnisins sem KPMG vann fyrir Byggðastofnun. Þar kemur meðal annars fram í helstu niðurstöðum að meginmarkmið verkefnisins sé ekki nægjanlega skýrt, stjórnsýsluleg staða verkefnisins, verkefnastjóra og verkefnisstjórnar er heldur ekki nægjanlega skýr og nokkuð vantar upp á að skerpa á verklagi, þá sérstaklega í tengslum við lok og eftirfylgni verkefna. Þannig er mikilvægt að tengja verkefnið betur inn í aðrar áætlanir hins opinbera, tryggja aðkomu og ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga inn í verkefnin og breyta meginmarkmiðum og fjölga verkfærum. Þannig kom fram í viðtölum að verkefnið nýtist ekki nægjanlega vel byggðum sem nú þegar eru brotnar og það þurfi eitthvað stærra til að snúa við neikvæðri íbúaþróun. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur áhrifamatið sem er aðgengilegt á heimasíðu Byggðastofnunar, en þar er margt fleira áhugavert sem vert er að kynna sér.

Daginn eftir, föstudaginn 6. október, hélt SSNE árlegt haustþing sitt sem samkvæmt samþykktum var rafrænt. Þar kom saman sveitarstjórnarfólk frá öllum sveitarfélögum landshlutans og ræddu málefni landshlutans. Þar stóð helst upp úr umræða um og samþykkt nýrrar Samgöngustefnu landshlutans fyrir árin 2023-2033. Væntingar eru um að þessi nýja stefna þar sem helstu samgönguverkefni innan landshlutans eru listuð og forgangsraðað nýtist okkur til að ná betri árangri í samtali við ríkisvaldið þegar kemur að forgangsröðun verkefna innan nýrrar samgönguáætlunar, en þingsályktun um samgönguáætlun 2024-2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 er nú í umræðu hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Í byrjun október var RECET verkefnið einnig sett af stað en verkefnið, sem er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, hlaut styrk sem nemur um 1,5 milljónum Evra úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. EIMUR og Íslensk NýOrka leiða verkefnið hér á landi, en SSNE og Vestfjarðarstofa eru samstarfsaðilar verkefnisins hér á landi. Við hlökkum auðvitað til samstarfsins og höfum miklar væntingar um gagnlegar afurðir úr því fyrir sveitarfélögin á Norðurlandi eystra og Vestfjörðum.

Annar hápunktur þessa mánaðar var umsóknarferli Uppbyggingarsjóðs Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, en sjóðurinn styrkir atvinnuþróunar-, nýsköpunar- og menningarverkefni landshlutans, með áherslu á umhverfistengd verkefni. Nú hefur úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs tekið til starfa og mun í nóvember takast á við það erfiða verkefni velja þau bestu úr þeim frábæru verkefnum sem bárust í ár. Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Sóknaráætlunar Norðurlands eystra er svo áætluð 13. desember, en það verður kynnt betur síðar.

Annars var gaman að ljúka mánuðinum á sérstökum hápunkti í gær þegar alþjóðlega flugfélagið easyJet hóf áætlunarflug milli Akureyrar og Lundúnaborgar. Þetta er risastórt skref í því að byggja upp Akureyrarflugvöll sem gátt inn í landið, nokkuð sem ríki og sveitarfélög á Norðurlandi hafa unnið að lengi. Þetta er einnig í fyrsta skipti sem íbúum gefst kostur á lággjaldaflugi beint frá Akureyri og hafa gárungar hent gaman að því að nú sé einnig orðið ódýrara að fljúga til Reykjavíkur með því að fljúga með viðkomu í London. Þetta er þó fyrst og fremst dýrmætt tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila á Norður- og Austurlandi til að fjölga ferðafólki inn á svæðið á lágönn. En til að þetta flug haldi áfram þá þurfum við að nýta okkur það og ég hvet ykkur til að skoða flugin sem eru í boði inn á heimasíðu easyJet, verðin eiga örugglega eftir að koma ykkur á óvart!

Mæli einnig með að kynna ykkur fréttirnar sem fylgja með þessu ágæta fréttabréfi en þær veita enn betra yfirlit yfir það fjölmarga sem hefur verið í gangi hjá okkur og ég hef ekki náð að nefna hér.

Gleðilegan nóvember!

Getum við bætt síðuna?