Fara í efni

Kraftur og bjartsýni einkenndu málþingið „Fólk færir störf“

Kraftur og bjartsýni einkenndu málþingið „Fólk færir störf“

Markmið þingsins var að varpa ljósi á vaxandi möguleika sem felast í störfum sem eru óháð staðsetningu.  Vel á annað hundrað manns fylgdust með og tóku þátt á Zoom. Flutt voru erindi og sagðar reynslusögur af opinberum stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa flutt störf á milli landa og landshluta eða þekkja vel kosti fjarvinnu.  Þau sem tóku til máls voru sammála um að Covid-19 faraldurinn hefði haft mikil áhrif, flýtt stafrænni þróun og opnað augu fyrir færanleika fólks og starfa. Ef margt fólk getur unnið heima án vandræða svo mánuðum skiptir ætti allt eins að vera mögulegt að velja sér annað búsetusvæði og taka vinnuna með sér.

HÉR er upptaka frá málþinginu

Snýst um hamingjusamt fólk
Sigurður Ingi Jóhannsson
, ráðherra sveitarstjórnarmála, sagði í upphafsræðu málþingsins að stefna stjórnvalda væri skýr um að fjölga störfum án staðsetningar. Markmiðið er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði óháð staðsetningu 2024. Samkvæmt greiningu sem var gerð 2019, áður en faraldurinn tók völd, er hægt að auglýsa allt að 890 störf án staðsetningar. Sigurður Ingi sagðist sannfærður um að hlutfallið hefði aukist.

Ríkið þyrfti að leggja skýrar línur en á endanum væri það fólkið sjálft sem færði störfin. „Og ég held í rauninni að þetta sé ekkert mál, það þarf bara að framkvæma. Ég held að störf án staðsetningar snúist ekki aðeins um byggðamál eða að ráða þann hæfasta burtséð frá búsetu, heldur ekki síst það að fólk geti valið sér búsetu óháð starfi á stað þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt,“ sagði Sigurður Ingi.

Laufey Kristín Skúladóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun benti á að störf án staðsetningar væru í eðli sínu byggðamál, jafnvel þótt fólk færi störf í allar áttir, enda er hlutfall opinberra starfa af mannfjölda talsvert hærra á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar. Markmiðið hljóti því að vera að efla starfsemi og umsvif ríkisins á atvinnumarkaði á landsbyggðunum. Meðal aðgerða er að kortleggja og auka aðgengi að vinnuaðstöðu. Samkvæmt yfirliti Byggðastofnunar eru nú þegar yfir 100 starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins sem geta tekið við fólki sem vinnur óháð staðsetningu.

Breytt hugarfar, hugrekki, vilji og samstilltar aðgerðir er það sem þarf, að mati Laufeyjar.

Atvinnuklasar skapa tækifæri

Efla verkfræðistofa er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa lagt áherslu á að byggja upp starfsstöðvar víða um land, auk þess sem 15% starfsmanna eru erlendis. Ingibjörg Sigrún Stefánsdóttir mannauðsstjóri sagði frá áherslu fyrirtækisins á að ráða hæft fólk burtséð frá búsetu og hjálpa starfsfólki sem vill flytja og taka starfið með sér. Starfsmaður sem býr í Mývatnssveit og tilheyrir teyminu á Akureyri og starfsmaður á Siglufirði sem sinnir verkefnum í Noregi eru dæmi um þetta.

„Það eru fullt af tækifærum fólgin í því að fólk geti flutt aftur í heimahagana að loknu háskólanámi,“ sagði Ingibjörg. Lykilatriði sé að huga að félagslega þættinum og að fólk tilheyri einhvers konar heild, hvar svo sem fólk býr.

Bryndís Björnsdóttir, stefnumótandi sérfræðingur hjá Matís sem er á þessari sömu vegferð, tók undir mikilvægi þess að huga að félagslega þættinum og telur að atvinnuklasar séu góð lausn sem skapi tækifæri. Matís er um þessar mundir að flytja starfsemina á Austurlandi í Múlann, nýtt samvinnuhús í Neskaupsstað. Bryndís sagði að aukin áhersla á störf óháð staðsetningu snúist ekki aðeins um að koma til móts við starfsfólkið, heldur einnig að færa starfsemina nær viðskiptavinum og hagsmunaaðilum og bæta þjónustuna. Matís hefur það meginhlutverk að stunda rannsóknir og nýsköpun á matvælum sem eru auðvitað framleidd um allt land.

En hvers vegna kýs fólk að búa utan höfuðborgarsvæðisins? Ólafur Helgi Rögnvaldsson, hugbúnaðarsérfræðingur hjá Five Degrees, sagði frá sinni reynslu á málþinginu en hann flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Danmörku til Akureyrar eftir að hafa stundað nám í Reykjavík. Fjölskyldutengsl, minna skutl, framboð á þjónustu og lágt húsnæðisverð eru meðal þeirra þátta sem höfðu mest áhrif. Atvinna var ekki hindrun, enda segir Ólafur að staðsetning starfsfólks sé aukaatriði í sínum geira eins og mörgum öðrum. Five Degrees, sem er hugbúnaðarhús fyrir fjármálageirann, er með skrifstofur á Akureyri, Kópavogi, Hollandi og Portúgal og er yfirlýst markmið fyrirtækisins að leyfa fólki að flakka á milli.

Stafræn þróun varð að byltingu

Einn liður í dagskrá málþingsins var svokallað spjallborð, þar sem fundarstjórinn Erla Björg Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Norðurorku, stýrði umræðum. Katrín Björk Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, Atli Örvarsson tónskáld, Þórleifur Stefán Björnsson framkvæmdastjóri T Plús og Svavar Pálsson sýslumaður á Norðurlandi eystra tóku þátt.

Katrín benti á áhugaverðan kynjavinkil, það er að reynslan hefði sýnt að konur flyttu frekar en karlar frá fámennum byggðalögum í leit að fjölbreyttum atvinnutækifærum. Með því að auka möguleika fólks á að búa um allt land og vinna spennandi störf óháð staðsetningu mætti snúa þessu við. Opinber störf spili þar stórt hlutverk, enda er meirihluti ríkisstarfsmanna konur. Katrín telur að fyrir tilstuðlan Covid-19 skapist tækifæri í þessa veru. „Okkur hefur verið hent inn í hringiðu stafrænnar byltingar síðastliðið árið sem ég held að muni hafa gríðarlega mikil áhrif,“ sagði Katrín.

Atli var á sömu nótum og telur að með stafrænu byltingunni þurfi starfsfólk á landsbyggðunum ekki lengur að fara í gegnum síu höfuðborgarsvæðisins, heldur hafi myndast bein tenging við allan heim og markaðurinn stækkað sem því nemur. Sjálfur flutti hann frá Bandaríkjunum til Akureyrar fyrir nokkrum árum og semur tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti og eru flestir samstarfsaðilar og viðskiptavinir erlendis. Atli hefur í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar byggt upp öfluga upptökustarfsemi á Akureyri undir merkjum SinfoniaNord. „Nú eru allar líkur á að fólk hafi horft á myndir á Netflix þar sem tónlistin var tekin upp í Hofi“

Tók hálftíma að flytja starfsemina heim

Þórleifur sem stýrir verðbréfafyrirtæki sem er sérhæft í bakvinnsluþjónustu fyrir fjármálageirann segir að ákveðið hafi verið að staðsetja fyrirtækið á Akureyri, jafnvel þótt viðskiptavinirnir séu í Reykjavík, vegna þess hve stöðugt vinnuafl og fjölskylduvænt umhverfi skipti miklu máli. „Það eina sem við þurftum var aðgengi að interneti og stöðugt rafmagn. Til viðbótar þá ákváðum við frá fyrsta degi að sjá starfsfólki fyrir heimavinnuaðstöðu sem var hluti af stefnu okkar um barnvænt fyrirtæki. Þegar Covid brast á þá ákváðum við í hádeginu á miðvikudegi að nú skyldu allir fara heim að vinna. Það stóðu allir upp og kveiktu á græjunum heima og þetta var hálftímarof. Þannig að viðbrigðin voru sáralítil,“ segir Þórleifur og undirstrikar þannig hvernig stafræn þróun breyti starfsaðstæðum.

Gallinn sé hins vegar sá að erfiðara hafi reynst að þjálfa nýtt starfsfólk í heimavinnu og því skipti máli að eiga kost á því að vera undir sama þaki, jafnvel þótt vinnan sjálf fari fram yfir netið. Hann reiknar með að þegar faraldrinum ljúki verði tekið hálft skref til baka, þannig að starfsfólki verði gert kleift að vinna hluta af vinnuviku heima og hluta á vinnustaðnum.

„Erum farin að dansa um salinn“

Sýslumenn hafa, að sögn Svavars, sett nýjan kúrs með því að „hætta að skrifa í bækur og veita stafræna þjónustu. Við erum búin að taka upp hald við Stafrænt Ísland og erum farin að dansa um salinn," sagði Svavar og bætti við að tækifærin sem verði til á hverjum degi fyrir tilstuðlan stafrænnar þróunar séu ótrúleg. Nýlegt samstarf við aðra ríkisstofnun sé dæmi um þetta, en unnið er að því að koma á fót nýrri starfsstöð Persónuverndar á Húsavík í klasa þar sem starfsfólk deilir húsnæði með sýslumannsembættinu og sinnir störfum sem geta verið hvar sem er á landinu.

„Ég held að það sem er að gerast núna í þessari stafrænu byltingu gefi landsbyggðinni meiri tækifæri en við hefðum haft ímyndunarafl til að styðjast við þegar við setjum fram hugmyndir. Við erum að tala um að útfærslurnar eru í raun óendanlegar,“ segir Svavar.

Hann velti því hins vegar upp hvort stjórnvöld séu nógu afgerandi í áætlanagerð og vísaði til annarra landa þar sem hefðu verið sett skýr markmið um að hækka hlutfall opinberra starfa á landsbyggðunum og lækka það í höfuðborgum. Í Danmörku hefði með þessu móti tekist að færa um 5.000 störf á örfáaum árum. Mikilvægt sé að setja skýr og tímasett markmið og fylgja þeim með markvissum aðgerðum.

Frummælendum og öðrum þátttakendum er þakkað kærlega fyrir þeirra framlag á málþinginu sem og öllum þeim sem fylgdust með.

Akureyarstofa og SSNE munu halda áfram samvinnu um þessi mikilvægu mál. Efni málþingins er verðmætt innlegg í endurskoðun atvinnustefnu Akureyrar sem stendur yfir og efniviður í tillögur um hvaða skref við getum stigið í samvinnu við aðra opinbera aðila og einkaaðila til að ýta undir færanleika starfa til hagsbóta fyrir atvinnusvæðið allt.

Getum við bætt síðuna?