Fara í efni

Farsæld barna á Sjónaukanum 2025 – Verkefnastjórar kynntu svæðisbundin farsældarráð

Verkefnastjórar farsældar á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Austurlandi og Vestfjörðum kynna…
Verkefnastjórar farsældar á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Austurlandi og Vestfjörðum kynna svæðisbundin farsældarráð

Farsæld barna á Sjónaukanum 2025 – Verkefnastjórar kynntu svæðisbundin farsældarráð

Á ráðstefnunni Sjónaukinn 2025, sem haldin var við Háskólann á Akureyri dagana 19.–20. maí, var meginþemað farsæld í íslensku samfélagi. Meðal dagskrárinnar var sameiginleg kynning verkefnastjóra farsældar, þar sem fjallað var um hlutverk og tilurð svæðisbundinna farsældarráða.

Kynninguna fluttu Þorleifur Kr. Níelsson (Norðurland eystra), Nína Hrönn Gunnarsdóttir (Austurland), Sara Björk Þorsteinsdóttir (Norðurland vestra) og Erna Lea Bergsteinsdóttir (Vestfirðir), sem öll gegna nýju og mikilvægu hlutverki við að stofna svæðisbundin farsældarráð í sínum landshlutum.

Í sameiginlegu erindi verkefnastjóranna var áhersla lögð á að farsæld barna væri samfélagslegt verkefni sem krefst samþættrar þjónustu milli allra kerfa sem snerta líf barna og fjölskyldna þeirra. Fjallað var um lagagrundvöll svæðisbundinna farsældarráða, áskoranir við uppbyggingu þeirra og tækifærin sem felast í auknu samráði og samvinnu á svæðisbundnum vettvangi.

„Við erum að leggja grunn að nýju samtali þar sem þjónustuaðilar og notendur vinna saman að markmiðum um farsæld og þeirri sýn að farsæld er ekki síður byggðamál rétt eins og atvinnuuppbygging, innviðir og nýsköpun“ sagði Þorleifur Kr. Níelsson í kynningunni. Þá var lögð áhersla á að raddir barna skipti sköpum í þróun þessara ráða og að þau þurfi að vera raunverulegir þátttakendur.

Farsæld barna er málefni sem stjórnvöld, sveitarfélög og samfélagið allt þurfa að vinna markvisst að því að skapa barnvænt Ísland þar sem öll börn njóta stuðnings, virðingar og tækifæra. Sjónaukinn 2025 bauð upp á fjölbreytta dagskrá þar sem farsæld var skoðuð í víðu samhengi – allt frá þjónustu við börn til inngildingar, samfélagslegrar þátttöku, geðheilsu og framtíðarsýnar.

Getum við bætt síðuna?