Fara í efni

Fagráð menningar - 5. fundur - 20.06.24

20.06.2024

Fundur eitt af tveimur árið 2024, fimmti fundur fagráðsins frá stofnun.
Rafrænn fundur settur kl. 13:30 á TEAMS og slitið kl. 15:00

Fundinn sátu fagráðsfólkið Hulda Sif Hermannsdóttir formaður, Guðni Bragason, Sigríður Örvarsdóttir og Anita Elefsen. Kristín Sóley Björnsdóttir boðaði forföll. Starfsfólk fagráðs menningar SSNE, Hildur Halldórsdóttir og Díana Jóhannsdóttir sátu fundinn auk Elvu Gunnlaugsdóttur sem sá um kynningu fyrir liði 4 – 6. Um fundarritun sáu Hildur Halldórsdóttir og formaður Hulda Sif Hermannsdóttir.

Dagskrá fundarins

  1. Starfsáætlun fagráðs menningar
    • Framlenging á skipan fagráðs
    • Tímalína funda og næstu skref
  2. Fulltrúar fagráðs menningar í úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs
    • Tilnefna fulltrúa og varamann
  3. Uppbyggingarsjóður
    • Breytingar á úthlutunarreglum vegna 2025
    • Yfirferð á úthlutun úr sjóðnum 2024
    • Umsóknartímabil vegna 2025
    • Umræður um áherslur vegna næstu úthlutunar
      • Tillögur fagráða AtNý og Umhverfismála kynntar
      • Tillaga fagráðs menningar að áherslu/m til stjórnar
  4. Vinnan við gerð nýrrar Sóknaráætlunar
  5. Samráðsvettvangur atvinnulífsins
  6. Áhersluverkefni
    • Kynning og umræða um samþykkt verefni 2024
    • Umræður og tillögur til áhersluverkefna í hugmyndabankann
  7. Önnur mál

1. Starfsáætlun fagráðs menningar

  • Neðangreint erindi barst til meðlima fagráðsins í maí 2024:
    ,,Góðan daginn, á 63. fundi stjórnar SSNE var fjallað um skipan úthlutunarnefndar og fagráða. Stjórn samþykkti að óska eftir því við núverandi fagráð að sitja áfram út þetta ár. Er það gert í ljósi þess núgildandi sóknaráætlun landshlutans rennur út um áramót og líklegt að einhverjar breytingar verði þegar ný Sóknaráætlun Norðurlands eystra verður samþykkt í haust. Bestu kveðjur, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri SSNE”.

Engin sitjandi fagráðsmaður baðst undan setu í fagráði og situr því fagráðið óbreytt út árið 2024.

  • Formaður kynnti breytingar á starfsfólki ráðsins sem felast í því að Díana Jóhannsdóttir mun vera annar starfsmaður allra fagráða. Ari Páll Pálsson víkur sem annar starfsmaður ráðsins og Hildur Halldórsdóttir situr áfram.

Ara Páli Pálssyni var þakkað fyrir góð störf í þágu fagráðs menningar.

  • Formaður fór yfir drög að starfsáætlun næstu 18 mánuði. Ákveðið var að nákvæmar dagsetningar fyrir árið 2025 yrðu ákveðnar þegar ljóst yrði hvert hlutverk og skyldur fagráðs verða með tilkomu nýrrar Sóknaráætlunar.

Drög að starfsfáætlun ársins 2024 og 2025 var samþykkt og verður lögð fyrir stjórn. Næsti áætlaður fundur fagráðsins er 9. október 2024.

2. Fulltrúar fagráðs menningar í úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs

  • Kristín Sóley Björnsdóttir – aðalfulltrúi
  • Hulda Sif Hermannsdóttir – varafulltrúi

Fagráð menningar samþykkti einróma eftirfarandi fulltrúa í úthlutunarnefnd.

3. Uppbyggingarsjóður

  • Hildur fór yfir þær breytingar á Uppbyggingarsjóði sem snéru að fyrri umræðu fagráðsins.
    • Annars vegar þá einföldun fyrir bæði umsækjendur og úthlutunarnefnd, að árlegar áherslur úthlutunar komi nú einungis fram á tveimur í stað þriggja staða í upplýsingum Uppbyggingarsjóðs. Nú koma áherslur fram í Sóknaráætlun og matsblaði sjóðsins, en áður var jafnframt grein í úthlutunarreglum með sér áherslum.
    • Hins vegar að viðmiðunartaxti við launaútreikning verði í samræmi við kjarasamninga en ekki eitt almennt viðmið óháð fagtöxtum.

Uppfærðar úthlutunarreglur vegna úthlutunar fyrir árið 2025, má finna hér en þær voru samþykktar af stjórn SSNE 30. apríl 2024.

  • Díana kynnti úthlutun úr Uppbyggingarsjóði vegna 2024. Rýnt var í af hverju færri umsóknir bárust síðast miðað við árin á undan, og snéri umræðan að því að það gæti verið jákvæð vísbending um að áherslur sjóðsins og styrkhæfi væri betur komið á framfæri í gegnum ráðgjöf og upplýsingar á miðlum SSNE. Ekki var talið að sýnileiki sjóðsins hefði minnkað heldur frekar aukist. Ánægja var með að fleiri verkefni en áður hefðu hlotið fullan styrk. Rætt var um hver ástæðan væri fyrir því að fleiri umsóknir á sviði menningar hefðu borist heldur en í atvinnuþróun og nýsköpun (AtNý). Mögulega er erfiðara fyrir menningarverkefni að sækja fjármagn í aðra sjóði en jafnframt gæti það skýrst af góðu atvinnuástandi í landshlutanum. Starfsfólk var hvatt til að fylgjast með þessari þróun. Útfrá niðurstöðum 2024 var spurt út í hvort gögn bendi til þeirrar tilhneigingu úthlutunarnefndar að veita AtNý verkefnum hærra hlutfall umbeðins styrks eða hvort umbeðnir verkefnastyrkir á sviði menningar séu almennt lægri en umbeðnir styrkir AtNý. Starfsfólk var beðið um að skoða það betur. Þá var fækkun stofn- og rekstrarstyrkja umsókna rædd, t.d. hvort þeir aðilar sem ekki sóttu um í ár, hefðu hlotið verkefnastyrki eða hvort aðrar ástæður lægju að baki.

Úthlutun vegna 2024 og tölfræði hennar má nálgast hér.

  • Díana kynnti að stjórn hefði samþykkt tillögu um að umsóknarferli fyrir uppbyggingarsjóð yrði í samræmi við árið 2023 þegar það var fært fram í september og úthlutun í desember.

Opið verður fyrir umsóknir frá 11. september til hádegis 16. október og úthlutun í desember 2024 vegna ársins 2025.

  • Díana kynnti tillögur fagráða AtNý og Umhverfismála vegna næstu úthlutunar úr Uppbyggingarsjóði. Sú úthlutun verður sú síðasta með núverandi Sóknaráætlun. Bæði fagráðin leggja til að hvorki verði gerð sértæk áhersla í auglýsingu né í matsblaði vegna umsókna í Uppbyggingarsjóð 2025. Í samræmi við þá tillögu yrði matsþáttur 7A lagður niður en vægi matsþáttar 4 hækkað í samræmi, miðað við matsblað vegna úthlutunar 2024. Sjá fundargerð fagráðs umhverfismála. Rætt var um áherslur og innt eftir tillögum eða ábendingum.

    Fagráðið spurði út í hvort hallaði á einhver markmið í Sóknaráætlun og upplýsti Elva fundinn að samkvæmt síðasta stöðumati á Sóknaráætlun væri verið að vinna með öll markmiðin og ekkert sem þyrfti sérstaklega að leggja áherslu á. Í framhaldinu var samróma álit ráðsins að gefa umsækjendum meira svigrúm til að þróa sínar verkefnahugmyndir og horfa til þeirra markmiða Sóknaráætlunar sem best ættu við.

Fagráð menningar leggur til við stjórn að matsþáttur 7m í Matsblaði menningar fyrir Uppbyggingarsjóð vegna ársins 2024 verði fjarlægður fyrir árið 2025 og að þau 10 prósentustig verði færð yfir á matsþátt 4, svo gildi hans færist úr 20% yfir í 30%. Þá bendir fagráðið á tækifærið að uppfæra texta við matsþátt 4 þar sem ekki er þörf að vísa í áherslur sjóðsins eftir síðustu breytingar.

4. Vinnan við gerð nýrrar Sóknaráætlunar

  • Elva kynnti vinnulag við gerð nýrrar Sóknaráætlunar sem verður í gildi 2025-2029. Þrír starfsmenn SSNE mynda vinnuhóp sem leiðir vinnuna sem hefur það markmið að byggja næstu Sóknaráætlun á sameiginlegri sýn heimamanna fyrir landshlutann til framtíðar. Samtal og samráð er gríðarlega mikilvægt til að auka þekkingu og skilning á hlutverki Sóknaráætlunar meðal íbúa, svo Sóknaráætlun verði tæki sem greiði fyrir sókn samfélagsins. Vinnuhópurinn hefur mótað fjóra flokka fyrir næstu áætlun sem stjórn SSNE hefur samþykkt; innviðir, atvinnulíf, blómlegar byggðir, umhverfismál. Menning mun falla undir blómlegar byggðir og skapandi greinar undir atvinnulíf. Opnar vinnustofur verða í öllum sveitarfélögum 20. ágúst til 13. september, þar sem kallað verður eftir verkefnahugmyndum. Þegar vinnuhópurinn hefur unnið úr gögnum vinnustofanna fer Sóknaráætlun að lokum í samráðsgátt stjórnvalda.

      Rætt var um virka þátttöku ungmenna og fólks sem ekki hefur íslensku sem móðurmál. Vinnuhópurinn ætlar t.d. að mæta íbúum sem gætu átt erfitt með virka 
      þátttöku á íslensku með því að halda rafræna vinnustofu á ensku, en öll velkomin á allar vinnustofur. Áætlað er að þýða nýja Sóknaráætlun á ensku. Hvatti Elva meðlimi
      fagráðs menningar til að taka þátt í umræðum á vinnustofunum.

Fagráð menningar hvetur íbúa landshlutans til að taka þátt í vinnustofunum til að hafa áhrif á nýtingu fjármagns og vinnu SSNE næstu fimm ár. Skráning er hafin á vinnustofurnar. Hvatti fagráðið vinnuhópinn að senda erindi á ungmennaráð sveitarfélaganna til að fá upplýsingar um leiðir til að ná til ungmenna og hvetja þau til þátttöku.

5. Samráðsvettvangur atvinnulífsins

  • Elva sagði frá nýstofnuðum samráðsvettvangi atvinnulífsins og hlutverki hans. Vettvangurinn hittist á fjarfundum, einn fundur hefur verið haldinn. Lagt er upp með að hlýða á erindi atvinnugreina og þeirra áskoranir. Allar starfsgreinar eiga erindi inn í þennan vettvang.

6. Áhersluverkefni

  • Elva fór yfir áhersluverkefni ársins 2024 sem stjórn og stýrihópur stjórnarráðsins hafa samþykkt. Þá fór hún yfir framlag stjórnvalda til Sóknaráætlunar, en Umhverfisráðuneytið ákvað nýlega að taka þátt og setja inn sérstakt framlag í Sóknaráætlun. Tvö barnamenningarverkefni fengu samning til 3 ára og þar af leiðandi mikill fyrirsjáanleiki fyrir Menningarfélag Akureyrar og skólanna. Þetta eru fyrstu áhersluverkefnin sem hljóta samning til fleiri en eins árs, þó svo einhver hafi hlotið styrk fleiri en eitt ár í röð.

Fagráð menningar fagnar bæði framlagi Umhverfisráðuneytisins sem og þeim fyrirsjáanleika í barnamenningar- og skólasamstarfi sem nú hefur fengist með því að úthluta fjármunum til lengri tíma en áður.

7. Önnur mál

  • Í samræmi við fyrirspurn síðasta fundar fóru Hildur og Elva yfir stöðu áhersluverkefna SSNE sem snúa að fjölmenningu. Elva og Sigurborg eru verkefnastjórar, fjölmenningarráð hefur hafið störf, stjórn hefur samþykkt að hluti vinnunar snúi að mannréttindum, t.d. aðgerðaráætlun í takt við þá mannréttindastefnu sem Ísland hefur sett sér að vinna eftir.
  • Hildur sagði frá því að fyrsta sjónvarpsmyndver utan höfuðborgarsvæðisins myndi opna á Húsavík 26. júní og málþingi sem yrði haldið af því tilefni þar sem tækifæri og áskoranir í kvikmynda- og dagskrárgerð í landsbyggðum, áhrif kvikmyndagerðar á ferðaþjónustu og fjölmiðlun i dreifðum byggðum yrði rædd í pallborði með Lilju Alfreðsdóttur ráðherra menningar-, viðskipta- og ferðamála, Skarphéðni Guðmundssyni dagskrárstjóra RÚV, Baldvini Z kvikmyndagerðarmanni, Atla Örvarssyni kvikmyndatónskáldi, Hildu Jönu úr stjórn SSNE og fyrrum fjölmiðlakonu og Rakel Hinriksdóttur fjölmiðla- og dagskrárgerðarkonu.

Fundi slitið.

Getum við bætt síðuna?