Fara í efni

Fundargerð - Ársþing SSNE - 8. og 9. apríl 2022

09.04.2022

Ársþing SSNE
Húsavík, 8. og 9. apríl 2022
Fundargerð (pdf skjal)

Föstudagur 8. apríl.
1. Þingsetning.

Formaður SSNE, Hilda Jana Gísladóttir, setti fund kl. 9:00 og bauð fundarmenn velkomna fyrir hönd stjórnar.

1.1. Kosning fundarstjóra og tveggja ritara.

Formaður lagði til eftirfarandi starfsmenn fundarins:

Fundarstjóri:
Svanfríður Jónasdóttir.
Samþykkt samhljóða.

Fundarritarar:
Ari Páll Pálsson.
Rebekka Kristín Garðarsdóttir

Samþykkt samhljóða.

Svanfríður þakkaði fyrir traustið og tók við fundarstjórn. Hún gerði grein fyrir að fundurinn yrði tekinn upp og farið að ákvæðum persónuverndar með þær upptökur. Engin andmæli voru við því.

Kosning kjörnefndar.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar um kjörnefnd fundarins:
Sóley Björk Stefánsdóttir, formaður.
Helena Eydís Ingólfsdóttir.
Helgi Héðinsson.
Samþykkt samhljóða.

Kosning fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar um fjárhags- og stjórnsýslunefnd fundarins:
Katrín Sigurjónsdóttir, formaður.
Halla Björk Reynisdóttir.
Finnur Yngvi Kristinsson.
Hjálmar Bogi Hafliðason.
Árni Pétur Hilmarsson.
Samþykkt samhljóða.

Sóley Björk, formaður kjörnefndar, upplýsti fundinn um að af fjörutíu fulltrúum væru 28 mættir og fundurinn því lögmætur.

Fundarstjóri lýsti þingið því lögmætt.

Hér má hlusta á upptöku.

1.2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.

Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE, flutti samantekt á skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Sjá nánari umfjöllun.

Hér má hlusta á upptöku.

1.3. Skýrsla framkvæmdastjóra fyrir liðið starfsár.

Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE, flutti samantekt á skýrslu framkvæmdastjóra fyrir liðið starfsár. Sjá nánari umfjöllun.

Hér má hlusta á upptöku.

1.4. Ársreikningur og skýrsla endurskoðanda.

Níels Guðmundsson, endurskoðandi hjá Enor ehf., kynnti ársreikning SSNE fyrir árið 2021. Þingfulltrúar fengu ársreikninginn sendan sem fundarskjal fyrir þingið. Skýringar og sundurliðanir eru nákvæmar í ársreikningnum. Sjá ársreikning og endurskoðunarskýrslu.

Hér má hlusta á upptöku.

Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:

Rekstrarreikningur 2021  
Rekstrartekjur 388.261.636 kr.
Rekstrargjöld 367.744.227 kr.
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða 20.517.409 kr.
Fjármunatekjur 179.184 kr.
Rekstrarniðurstaða ársins 20.696.593 kr.
Efnahagsreikningur 2021  
Eignarhlutir í félögum 5.423.042 kr.
Veltufjármunir 205.018.614 kr.
Eignir samtals 210.441.656 kr.
Eigið fé (13.271.786) kr.
Lífeyrisskuldbindingar 31.300.361 kr.
Skammtímaskuldir 192.413.081 kr.
Eigið fé og skuldir samtals 210.441.656 kr.

 

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá um skýrslu stjórnar, skýrslu framkvæmdastjóra og ársreikning.

Þingfulltrúar tóku til máls.

Fundarstjóri lokaði mælendaskrá og bar ársreikning undir atkvæði fundarins..
Samþykkt samhljóða.

Hér má hlusta á upptöku.

1.5. Fjárhagsáætlun 2022 og 2023.

Rögnvaldur Guðmundsson verkefnastjóri fjármála og reksturs, kynnti endurskoðaða fjárhagsáætlun SSNE 2022 og drög að fjárhagsáætlun 2023 sem þingfulltrúar höfðu fengið sendar sem fundarskjöl fyrir þingið. Sjá fjárhagsáætlanir 2022 og 2023 og greinargerð.

Samandregnar niðurstöður áætlana.

Rögnvaldur gat þess að nokkur óvissa væri í áætlunum í tengslum við þróun launakostnaðar.
Sjá greinargerð.

Fundarstjóri kallaði eftir umsögn fjárhags- og stjórnsýslunefndar um fjárhagsáætlun og gaf Katrínu Sigurjónsdóttur, formanni nefndarinnar orðið.

Katrín gerði grein fyrir því að eftir svör við fyrirspurnum um einstaka liði gerði nefndin engar athugasemdir við áætlunina.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá og þingfulltrúar tóku til máls.

Fundarstjóri bar fjárhagsáætlanir 2022 og 2023 undir atkvæði fundarins.

Samþykktar samhljóða.

Hér má hlusta á upptöku.

2. Tillögur og ályktanir frá stjórn og þingfulltrúum.

Fundarstjóri kynnti að fyrir þinginu lægju eftirfarandi tillögur.

2.1. Tillaga um skipan fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar um skipan fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar:

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar verði þannig skipað:

 • Thomas Helmig, Öxarfirði, formaður fagráðs
 • Sigríður Róbertsdóttir, Eyjafjarðarsveit
 • Preben Jón Pétursson, Akureyri
 • Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir, Siglufirði
 • Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, Svartárkoti

Samþykkt samhljóða.

2.2. Tillaga um skipan fagráðs menningar.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar:

Fagráð menningar verði þannig skipað:

 • Hulda Sif Hermannsdóttir, Akureyri, formaður fagráðs
 • Aníta Elefsen, Fjallabyggð
 • Guðni Bragason, Húsavík
 • Sigurður Guðni Böðvarsson, Skútustaðahreppi
 • Sigríður Örvarsdóttir, Eyjafjarðarsveit

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

2.3. Tillaga um skipan fagráðs umhverfismála.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar:

Fagráð umhverfismála verði þannig skipað:

 • Ottó Elíasson, Akureyri, formaður fagráðs
 • Guðmundur Sigurðsson, Akureyri
 • Áki Guðmundsson, Langanesbyggð
 • Rut Jónsdóttir, Akureyri
 • Salbjörg Matthíasdóttir, Norðurþing

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

2.4. Tillaga um skipan í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra.

Ársþing SSNE skipar, samkvæmt tillögu stjórnar, þrjá fulltrúa í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs, þar af einn sem formann, og tvo varamenn, sbr. 15. gr. samþykkta SSNE. Í úthlutunarnefnd sitja jafnframt formenn fagráða.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar:

Úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs verði þannig skipuð:

 • Katrín Sigurjónsdóttir, formaður
 • Thomas Helmig, Öxarfirði, formaður fagráðs
 • Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður fagráðs menningar
 • Ottó Elíasson, formaður fagráðs umhverfismála
 • Guðni Bragason
 • Preben Jón Pétursson

Varamenn:

 • Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, fagráði atvinnuþróunar og nýsköpunar
 • Sigríður Örvarsdóttir, fagráði menningar
 • Áki Guðmundsson, fagráði umhverfismála

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

2.5. Tillaga um breytingu aukaþinga.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar SSNE um breytingu aukaþinga. Tillöguna, ásamt ítarlegum skýringum, má nálgast hér.

1. og 2. mgr. 9. gr. samþykkta SSNE verði svohljóðandi: „Stjórn skal boða þingfulltrúa til a.m.k. tveggja reglulegra aukaþinga, eigi síðar en 30. september og 31. desember ár hvert.

Aukaþing í september skal vera vettvangur til að taka á dagskrá málefni sem þörf er talin á að fjalla um hverju sinni meðal þingfulltrúa SSNE, sveitarfélaga og annarra hagaðila, vinna hópastarf og/eða annað samstarf en dagskrá er ekki skilyrt að öðru leyti.

Á aukaþingi í desember skulu eftirtalin mál tekin á dagskrá:

1) Skýrslur um framvindu starfs- og fjárhagsáætlunar.
   a) Stjórn SSNE
   b) Úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs sóknaráætlunar Norðurlands eystra
   c) Fagráð
   d) Undirnefndir – ef við á
2) Starfsáætlun næsta árs
3) Tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun
4) Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin“

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

2.6. Tillaga um rafræn aukaþing.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar SSNE um rafræn aukaþing. Tillöguna ásamt skýringum má nálgast hér.

4. mgr. 9. gr. samþykkta SSNE verði svohljóðandi:

„Aukaþing skal halda með rafrænum hætti í gegnum fjarfundabúnað, enda sé tryggt að almenningur og aðilar með málfrelsis- og tillögurétt hafi viðeigandi aðgang að fundinum. Heimilt er að halda aukaþing í staðarfundi sé talin þörf á. Þess skal skýrt getið í fundarboði skv. 7. gr. hvort um rafrænt þing í gegnum fjarfundarbúnað eða staðarfund er að ræða.“

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

2.7. Tillaga um mönnun starfsstöðva.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar SSNE um mönnun starfsstöðva. Tillöguna ásamt ítarlegum skýringum má nálgast hér.

„Starfsstöðvar SSNE á Húsavík og á Akureyri verða hvor um sig mannaðar með tveimur stöðugildum að lágmarki og aðrar starfsstöðvar með ekki minna starfshlutfall en nú þegar er, þ.e. 30% stöðugildi í starfsstöð á austursvæði og 60% stöðugildi á Tröllaskaga. Að öðru leyti verða störf hjá SSNE hér eftir auglýst óháð staðsetningu innan starfssvæðis SSNE.“

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.

Aldey Unnar Traustadóttir, fulltrúi Norðurþings, las upp bókun fyrir hönd fulltrúa í Norðurþingi og tillögu þess efnis að afgreiðslu tillögunnar yrði vísað frá að þessu sinni.

Þingfulltrúar tóku til máls um bókun og frávísunartillögu fulltrúa Norðurþings.

Fulltrúi Norðurþings, Aldey Unnar Traustadóttir, þakkaði fyrir umræðuna og lagði bókunina fram að nýju með eftirfarandi breytingu á upphaflegri tillögu:

Fulltrúar í Norðurþingi geta ekki samþykkt fyrirliggjandi tillögu um lágmarks mönnun starfsstöðva SSNE að svo stöddu. Einungis eru rúm tvö ár síðan samtökin urðu til. Í ljósi þess að þau hafa því sem næst eingöngu starfað undir þeim takmörkunum sem Covid-19 hafði í för með sér, og sameining atvinnuþróunarfélaganna og Eyþings sætti mikilli gagnrýni í okkar sveitarfélagi, er að okkar mati ekki komin nægilega mikil reynsla á núverandi fyrirkomulag og þar af leiðandi ekki tilefni til að gera breytingar að svo stöddu.

Við leggjum því til að afgreiðslu tillögunnar verði frestað til aukaþings í haust.

Fundarstjóri bar tillöguna atkvæði fundarins.

Samþykkt með meginþorra atkvæða (4 greiddu atkvæði gegn).

2.8. Tillaga um greiðslu þóknana til stjórnar.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar SSNE um greiðslu þóknana til stjórnar. Tillöguna ásamt skýringum má nálgast hér.

Þóknun til stjórnar verði óbreytt frá því sem samþykkt var á ársþingi 2021.

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

2.9. Tillaga um greiðslu þóknana til nefndarmanna í starfshópum, fagráðum og úthlutunarnefnd.

Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar SSNE þess efnis að greiðslur þóknana til nefndarmanna í starfshópum, fagráðum og úthlutunarnefnd yrðu óbreyttar frá því sem samþykkt var á ársþingi 2021. Tillöguna ásamt skýringum má nálgast hér.

Fundarstjóri gerði jafnframt grein fyrir því að komið hefði fram tillaga til breytinga varðandi greiðslur til nefndarmanna í úthlutunarnefnd.

2.10. Tillaga úthlutunarnefndar uppbyggingarsjóðs um breytingu á greiðslum til nefndarmanna.

Fundarstjóri kynnti tillögu úthlutunarnefndar uppbyggingarsjóðs um breytingu á greiðslum til nefndarmanna. Tillöguna ásamt skýringum má nálgast hér.

Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á þóknun til úthlutunarnefndar:

Greiðslum verði skipt í tvo flokka eftir því hvort umsókn sé
a)
ítarlesin og metin til einkunnar eftir matsblaði eða
b) 
hraðlesin og grófflokkuð eingöngu.

Greiddar verða 1200 kr. per umsókn fyrir ítarlestur og 500 kr. per umsókn fyrir hraðlestur. Heildarkostnaður vegna yfirlestrar hækkar ekki m.v. þann fjölda umsókna sem borist hafa sjóðnum undanfarin ár en þetta fyrirkomulag þykir sanngjarnara þar sem nefndarmenn úthlutunarnefndar fá mismargar umsóknir til ítarlegs yfirlesturs.

Fundarstjóri gaf Katrínu Sigurjónsdóttur, formanni úthlutunarnefndar, orðið.

Katrín gerði grein fyrir tillögunni og fór yfir rökin að baki henni.

Fundarstjóri bar breytingartillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar því næst undir atkvæði fundarins tillögu stjórnar með hliðsjón af samþykktri breytingu er varðar greiðslur til nefndarmanna í úthlutunarnefnd.

Þóknun til nefndarmanna í starfshópum og fagráðum verði óbreytt frá því sem samþykkt var á ársþingi 2021.

Greiðslur til nefndarmanna í úthlutunarnefnd verði þannig:

Greiðslum verði skipt í tvo flokka eftir því hvort umsókn sé
a)
ítarlesin og metin til einkunnar eftir matsblaði eða
b)
hraðlesin og grófflokkuð eingöngu.

Greiddar verða 1200 kr. per umsókn fyrir ítarlestur og 500 kr. per umsókn fyrir hraðlestur. Heildarkostnaður vegna yfirlestrar hækkar ekki m.v. þann fjölda umsókna sem borist hafa sjóðnum undanfarin ár en þetta fyrirkomulag þykir sanngjarnara þar sem nefndarmenn úthlutunarnefndar fá mismargar umsóknir til ítarlegs yfirlesturs.

Samþykkt samhljóða.

2.11. Kosning endurskoðanda.

Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar SSNE um kosningu endurskoðanda.

Enor hefur verið endurskoðandi SSNE og er tillaga stjórnar að svo verði áfram.

Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði fundarins.

Samþykkt samhljóða.

Ekki lágu aðrar tillögur fyrir fundinum.

Hér má hlusta á upptöku.

3. Að búa í kynjaveröld - Katrín Björg Ríkharðsdóttir.

Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu flutti erindi. Sjá kynningu.

Katrín Björg gerði fyrst stutta grein fyrir starfsemi Jafnréttisstofu. Stofnunin væri staðsett á Akureyri, starfaði í samræmi við lög um stjórnsýslu jafnréttismála. Meðal verkefna hennar væri að eftirliti, fræðslu og ráðgjöf auk þess að fylgjast með þróun.

Umfangsmest um þessar mundir sagði Katrín Björg vera umsýslu og eftirlit með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingum. Þá vék hún að lagalegum skyldum sem hvíla á sveitarfélögum og sagði Jafnréttisstofu verða þeim til ráðgjafar og leiðbeiningar og að stefnt væri á fund og námskeið í haust.

Katrín Björg fór því næst nánar í hvernig nálgast má kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun og tók dæmi um stöðuna á Norðurlandi eystra með tilliti til kynjahlutfalls. Hún sagði Jafnréttisstofu vera að ljúka skýrslugerð í verkefni um stöðu og tækifæra kvenna á landsbyggðinni á vinnumarkaði og myndi skila tillögum til forsætisráðuneytis og innviðaráðuneytis byggðum á niðurstöðum verkefnisins.

Hér má hlusta á upptöku.

Kaffihlé

Katrín, formaður fjárhags- og stjórnsýslunefndar, sagði að Eyþór hefði skýrt frá helstu ábendingum nefndarinnar. Hún þakkaði nefndarmönnum fyrir gott starf.

Fundarstjóri bar fjárhagsáætlun SSNE fyrir árið 2022 undir atkvæði fundarins og bað þá sem samþykktu um að rétta upp hönd.
Samþykkt samhljóða.

Hér má hlusta á upptöku.

4. Samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra.

Svanfríður Jónasdóttir og Hjalti Jóhannesson, RHA, kynntu vinnu við samgöngu- og innviðastefnu sem er eitt af áhersluverkefnum SSNE.

Svanfríður sagði verkefnið hafa þróast úr því að vera samgöngustefna í það að vera samgöngu- og innviðastefna, gerði grein fyrir markmiði og framvindu verkefnisins og ræddi mikilvægi þess fyrir landshlutann að standa sameinuð að baki sameiginlegri stefnu í þessum málaflokki.

Næstu skref sagði Svanfríður vera vinnu starfshópsins við samráð innan landshlutans þar sem rædd yrðu áskoranir og tækifæri, fengin innsýn í staðbundnar aðstæður til að ná fram fjölbreyttum sjónarmiðum og fá heildarsýn yfir þarfir landshlutans. Vinna starfshópsins hæfist strax eftir Páska.

Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur RHA ræddi um áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir í samgöngumálum og nefndi m.a. krefjandi landslag innan landshlutans og mjög krefjandi skipulagsmál.

Við það að verkefnið hefði verið útvíkkað til þess að ná til allra innviða, sagði Hjalti vera reynt að fara meira á breiddina en dýptina. Þegar væri búið að vinna hugmyndaskýrslu um mögulegar framkvæmdir í vegagerð og tengsl landshlutans. – Sjá skýrslu RHA.

Hjalti sagði að greining og kortlagning væri hafin á þeim gögnum sem safnað hefði verið frá forsvarsmönnum málaflokka í samgöngum og innviðum. Afurð vinnunnar sagði hann verða ítarlega greinargerð sem skiptist í stöðulýsingu annars vegar og sameiginlegar áherslur hins vegar.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá og þingfulltrúar tóku til máls.

Hér má hlusta á upptöku.

5. Norðanátt – fjárfestahátíðin.

Anna Lind Björnsdóttir, verkefnastjóri SSNE, og Sveinn Margeirsson, verkefnisstjóri Nýsköpunar í norðri kynntu frumkvöðla- og nýsköpunarverkefnin sem SSNE er þátttakandi í.

Anna Lind kynnti fyrst Norðanátt, sem væri samstarfsverkefni SSNE, SSNV, Eims, Nýsköpunar í Norðri og Hraðsins á Húsavík, með stuðningi frá RATA. Norðanátt væri heildstæð nálgun á vistkerfum nýsköpunar á Norðurlandi með það markmið að þétta möskvana í stuðningsneti frumkvöðla, setja á ólíka viðburði sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum, efla frumkvöðlastarf með áherslu á sjálfbærni og auka fjárfestingar á Norðurlandi.

Hún sagði frá tilurð samstarfsins, sem hófst með lausnamótinu Hacking Norðurland. Í framhaldi af því hefið verið komið á fót Hringrás nýsköpunar, með styrk úr Lóunni, og af því hefði sprottið viðskiptahraðallinn Vaxtarrými, því næst frumkvöðlavinnusmiðja og síðast fjárfestahátíðin Skíði og peningar á Siglufirði.

Sveinn sagði frá viðskiptahraðlinum Vaxtarrými, þar sem áherslan hefði verið á sjálfbærni, vatn, mat og orku. Hann kynnti stuttu máli þátttakendur og greindi frá efnistökum, sem í grunninn hafi gengið út á samtal milli frumkvöðlanna sem og við mentora og samstarfsaðila.

Anna Lind greindi næst frá fjárfestahátíðinni Skíði og peningar sem haldin var á Siglufirði í marslok og hafi verið vettvangur til að leiða saman frumkvöðla og fjárfesta. Hún sagði frá frumkvöðlum og gestum sem þátt tóku, undirbúningi, aðdraganda og dagskrá hátíðarinnar sem hefði þótti heppnast mjög vel.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá og þingfulltrúar tóku til máls. 

Hér má hlusta á upptöku.

6. Ávörp gesta.

Fundarstjóri kynnti ávörp gesta sem voru þrjú í röð.

6.1. Ingibjörg Ísaksen.

Ingibjörg Ísaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, flutti ávarp þar sem hún fór í stuttu máli yfir málefni sem í gangi eru í kjördæminu öllu.

Í máli sínu ræddi hún m.a. um samning um rekstur hjúkrunarheimila, stöðu Sjúkrahússins á Akureyri, og samgöngumál í kjördæminu. Þá vék hún einnig að rammaáætlun þrjú og orkuskiptum.

Í lok máls síns talaði Ingibjörg um vettvang fyrir aukið samstarf og samtal milli sveitarstjórnarfulltrúa og þingmanna kjördæmisins og kvaðst bjartsýn á gott samstarf á þeim vettvangi.

Hér má hlusta á upptöku.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá og þingfulltrúar tóku til máls.

6.2. Innviðaráðuneytið.

Guðni Geir Einarsson, skrifstofustjóri skrifstofu sveitarafélaga og byggðamála í innviðaráðuneytinu, ávarpaði þingið um fjarfundarbúnað og flutti kynningu frá innviðaráðuneytinu

Í kynningunni fjallaði Guðni Geir almennt um fjármál sveitarfélaganna og jöfnunarsjóð.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá og þingfulltrúar tóku til máls.

Sjá kynningu.

6.3. Sigurður Ármann Snævarr.

Sigurður Ármann Snævarr, sviðstjóri hag- og upplýsingarsviðs hjá Sambandi sveitarfélaga ávarpaði þingið. Hann ræddi fyrst um mikilvægi þess fyrir samband íslenskra sveitarfélaga að vera í góðu sambandi við sveitarfélögin, og unnið hefði verið að því að styrkja það. Haldnir hefðu verið fjarfundir til undirbúnings fyrir stefnumörkun sambandsins fyrir landsþing sem haldið verður í september 2022 á Akureyri.

Á fundunum hafi verið unnið úr ábendingum og skoðaðar leiðir til að vinna nýjar áherslur þar sem m.a. væri horft til loftslags- og jafnréttismála, tengingar við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna og byggðasjónarmiða. Hann sagði þátttöku hafa mátt vera meiri, en vakti athygli á að síðasti fundurinn væri eftir.

Sigurður ræddi því næst um starfsemi og verkefni síðasta árs, og fjölmörg verkefni og áskoranir á yfirstandandi ári. Hann kom víða við og nefndi m.a. fjármál, orkumál, úrgangsmál, menntastefnu og velferðarmál.

Sigurður Ármann sagði frá verkefninu gagnalón sem vonir standa til að miðli betri gögnum á skemmri tíma en nú er, og vék að endingu að komandi sveitarstjórnarkosningum.

Hér má hlusta á upptöku.

Fundarstjóri opnaði mælendakrá og þingfulltrúar tóku til máls.

Þinghlé kl.17:16.

Laugardagur 9. apríl

Fundi var framhaldið kl. 9:00.

7. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, gerði grein fyrir starfsemi HNE á liðnu ári.

Hann gerði grein fyrir að rekstur hefði verið í jafnvægi, og búið væri að dreifa ársskýrslu. Því næst fór hann í stuttu máli yfir helstu viðfangsefni í starfsemi HNE á liðnu ári. Hann vék m.a. að svifryksvandamáli á Akureyri og mögulegum úrbótum á því en sagði lítið hefði verið um matareitranir á liðnu ári. Þá nefndi hann heimildir heilbrigðisnefndar til að fjarlægja lausadót og drasl, en sagði misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig gengi að fylgja þeim eftir.

Alfreð gerði grein fyrir aðgerðaráætlun heilbrigðisnefndar í umhverfis- og loftslagsmálum. Sjá kynningu.

Að erindinu loknu opnaði fundarstjóri fyrir spurningar og þingfulltrúar tóku til máls.

Hér má hlusta á upptöku.

8. Áherslur SSNE í umhverfismálum.

Smári Jónas Lúðvíksson, verkefnastjóri umhverfismála hjá SSNE, kynnti sig og fór yfir áherslur SSNE í umhverfismálum.

Í máli hans kom fram að aukin áhersla hafi verið lögð á umhverfismál í sóknaráætlun 2020-2024. Hann fór yfir markmið sem þar koma fram og einnig það stóra verkefni sem nú lægi fyrir að koma til móts við þau markmið sem sett væru fram í landsáætlun um meðferð úrgangs.

Smári greindi frá áhersluverkefni sem samþykkt hefði verið og snéri að stefnumótun og aðgerðaáætlunum í landnýtingu, orkuskiptum og úrgangsmálum.

Smári sagði að nánar yrði farið í þessa þætti í eftirfarandi fjórum erindum. Á síðasta ársþingi hefði hann fjallað um áskoranir í umhverfismálum, en með þessari umfjöllun vonaðist hann til horft væri frekar til mögulegra lausna.

Hér má hlusta á upptöku.

8.1. Áherslur Orkusjóðs 2022.

Ragnar Ásmundsson, verkefnastjóri orkusjóðs, fór yfir áherslur orkusjóðs fyrir árið. Sjá kynningu.

Ragnar gerði stutta greini fyrir sögu sjóðsins hvernig áherslur hefðu breyst og fór yfir dæmi um verkefni sem orkusjóður hefur styrkt síðustu tvö ár.

Þá vakti Ragnar athygli á að nú væri opið fyrir umsóknir í orkusjóð og fjármagn til hans hefði tvöfaldast milli ára. Verkefnastyrkir til orkuskipta greinast í fimm áherslur sem Ragnar geði nánar grein fyrir og nefndi möguleg tækifæri á svæðinu. Hann benti m.a. á að stórt svæði á Norðausturlandi væri án hleðslustöðva.

Að erindinu loknu svaraði Ragnar fyrirspurnum frá þingfulltrúum.

Hér má hlusta á upptöku.

8.2. Hagkvæmnimat líforkuvers.

Guðmundur H. Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku, hóf mál sitt með kynningu á starfi Vistorku og vísaði á vefsíðu félagsins til frekari upplýsinga. Sjá vefsíðu.

Því næst ræddi Guðmundur um líforkuver og úrgangsmál. Sjá kynningarmyndir.

Hann sagði aðdraganda verkefnisins langan og þegar væru komnar þrjár framleiðslueiningar, molta, metan og lífdísill. Hann sagði áskorunina á þessu svæði vera stærðarhagkvæmni vegna lítils magns af úrgangi, og því hefði komið upp sú hugmynd að samþætta þessa ferla.

Þrátt fyrir að ferlarnir væru allir þekktir sagðist Guðmundur ekki vita til þess að sambærileg lausn væri til annars staðar og því um ákveðna frumraun að ræða.

Guðmundur gerði síðan nánari grein fyrir þróun, fjármögnun og framvindu verkefnisins. Að lokum sagði hann áætlað að drög að skýrslu yrði tilbúin um miðjan maí og hún svo gefin út í lok maí.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.

Þingfulltrúar tóku til máls.

Hér má hlusta á upptöku.

8.3. Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi.

Stefán Gíslason, stofnandi og eigandi Environice, flutti kynningu í gegnum fjarfundabúnað þar sem hann fór yfir vinnu við svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi. Sjá kynningu.

Í kynningu sinni fór Stefán m.a. yfir forsöguna, tilgang áætlunarinnar og lagalegar skyldur sveitarfélaganna. Í máli hans kom fram að með lagabreytingu sem tekur gildi í janúar á næsta ári væri búið að auka vægi svæðisáætlana frá því sem áður var, og þær tækju við af því sem landsáætlun gerði áður.

Stefán lagði áherslu á að svæðisáætlunin markaði stefnu sveitarfélaganna og mikilvægi þess að þau hefðu virka aðkomu að gerð hennar. Hann sagði þungamiðju áætlunarinnar vera stefnu sveitarfélaganna, markmið og aðgerðir. Stefnt væri að fundi 25. apríl þar sem vonast væri eftir góðu innleggi í þessa liði.

Hér má hlusta á upptöku.

8.4. Landnotkun, gróðurhúsalofttegundir og loftlagsbókhaldið.

Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslunni, flutti erindi um landnotkun, gróðurhúsalofttegundir og loftlagsbókhaldið. Sjá kynningu.

Jóhann fór yfir nálgunina á loftslagsbókhaldinu og gerði svo nánari grein fyrir landnotkun, sem vegur langmest í losun gróðurhúsategunda á Íslandi.

Hann ræddi um áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir vegna breytinga á skuldbindingum vegna landnotkunar í loftslagsbókhaldi. Í framhaldi af því ræddi hann hvaða tækifæri væru til þess að bregðast við og nefndi sérstaklega eiginleika jarðvegs á Íslandi til að binda mikið magn af kolefni.

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá og þingfulltrúar tóku til máls.

Hér má hlusta á upptöku.

9. Önnur mál

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.

Siggeir Stefánsson tók til máls og lýsti ánægju með nýsamþykkta sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps. Í framhaldi af því ræddi hann um vel heppnaða sameiningu SSNE og möguleika sveitarfélaga á svæðinu til frekara samstarfs í framtíðinni.

Ekki tóku fleiri til máls.

10. Þingslit.

Hilda Jana þakkaði þingfulltrúum, fundarstjóra, starfsfólki, framsögumönnum og gestum fyrir gott þing og flutti lokaávarp.

Fundarstjóri kallaði eftir samþykki fyrir því að fundarritarar og fundarstjóri klári fundargerð.

Hilda Jana sleit þingi kl.11:40.

Hér má hlusta á upptöku.

Getum við bætt síðuna?