Fara í efni
Hlusta Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku

Fyrir hverja?
Bókaútgefendur sem skráðir eru virðisaukaskattskyldir aðilar skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt með atvinnugreinarnúmerið 58.11.0 sem bókaútgáfa. Umsækjandi sé jafnframt fjárhagslega ábyrgur fyrir útgáfu bókar sem sótt er um. Umsækjandi má ekki vera í vanskilum við opinbera aðila og skal leggja fram staðfestingu á því með yfirlýsingu af vefsíðunni skattur.is.

Til hvers?

Endurgreiðsla hluta kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku sem eru aðgengilegar almenningi með opinberri sölu, láni eða leigu byggir á lögum um stuðning við útgáfu bóka á íslensku nr. 130/2018.

Umsóknarfrestur
Opið fyrir umsóknir allt árið. Umsókn um staðfestingu ásamt fylgigögnum skal berast eigi síðar en níu mánuðum eftir útgáfudag bókarinnar.

Hvert er markmiðið?

Markmiðið er að efla útgáfu bóka á íslensku með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku.

Hverjir geta sótt um?

Umsækjandi skal vera skráður virðisaukaskattsskyldur aðili skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt með atvinnugreinarnúmerið 58.11.0 sem bókaútgáfa. Umsækjandi sé jafnframt fjárhagslega ábyrgur fyrir útgáfu bókarinnar sem sótt er um. Með „bók“ er átt við ritverk eða ritröð sem er að minnsta kosti átta blaðsíður að lengd og bundið eða fest á hliðstæðan hátt í kjöl. Undir hugtakið bók falla einnig hljóðupptökur af lestri og önnur rafræn útgáfa slíkra verka. Ritröð er safn ritverka í mörgum bindum með sameiginlegum heildartitli, en hvert bindi sjálfstæð heild.

Umsækjandi má ekki vera í vanskilum við opinbera aðila og skal leggja fram staðfestingu á því með yfirlýsingu af vefsíðunni skattur.is.

Umsókn

Einungis er tekið við rafrænum umsóknum á þar til gerðu umsóknareyðublaði, sem berast gegnum gátt hjá rannis.is . Fylgigögn skulu einnig vera á rafrænu formi.

Umsóknarkerfið krefst rafrænnar auðkenningar með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Hægt er að leggja inn umsóknir um endurgreiðslu hvenær sem er innan níu mánaða frá útgáfudegi.

Alla kostnaðarliði skal færa inn á umsóknareyðublaðið án virðisaukaskatts.

Umsækjandi getur unnið með umsókn og bætt við upplýsingum þar til öll gögn eru til staðar.

Ekki er hægt að senda inn umsókn ef fylgigögn vantar.

Ekki er hægt að breyta umsókn eftir að hún hefur verið send.

Hvað er endurgreitt?

Endurgreiðsla varðar eingöngu kostnað við útgáfu bókar.

Samkvæmt lögum nr. 130/2018 eru eftirfarandi kostnaðaliðir hæfir til 25% endurgreiðslu:

a. Beinn launakostnaður.

b. Beinar verktakagreiðslur.

c. Laun höfundar eða rétthafa.

d. Prentkostnaður og hliðstæður kostnaður vegna útgáfu í öðru formi en á prenti.

e. Þýðingarkostnaður og prófarkalestur.

f. Auglýsinga- og kynningarkostnaður sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfudag.

g. Eigin vinna. Ef útgefandi og höfundur bókar er sami aðili skal honum heimilt að leggja eigin laun til grundvallar endurgreiðsluhæfum kostnaði. Miða skal við mánaðarlaun listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2009, um listamannalaun.

Liðir a), b) og e) ná til ritstjórnar verks sem samþykkt hefur verið til útgáfu, prófarkalestrar, þýðingar, skýringar- og ljósmynda, og hönnunar og vinnu við innsíður og kápu.

Liður c) eru laun rétthafa fram að móttökudegi umsóknar um endurgreiðslu.

Liður d) nær til prentunar á verkinu og samskipti við prentsmiðju og aðra framleiðsluaðila svo sem tölvuvinnu vegna rafrænnar útgáfu og upplestri hljóðbókar í löndum á EES-svæðinu, innan EFTA eða í Færeyjum.

Liður f) nær til auglýsinga- og kynningarkostnaðar sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útkomu bókar og hönnunar og birtingar auglýsinga í ljósvaka- og prentmiðlum sem og á neti. Þegar margar bækur eru auglýstar í sömu auglýsingu skal umsækjandi tilgreina kostnaðarhlutfall umræddrar bókar. Kynningarkostnaður tengist kostaðri umræðu og sérstökum atburðum til kynningar á verkinu, þó ekki mat og drykk.

Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu bókar dregst sá styrkur frá þeirri fjárhæð sem telst endurgreiðsluhæfur kostnaður. Samanlögð fjárhæð styrkja skal ekki fara yfir 50% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sömu bókar.

Hlusta Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku