Fara í efni

Flutningsjöfnunarstyrkir vegna sölu olíuvara fyrir árið 2021

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands
Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Flutningsjöfnunarstyrkir vegna sölu olíuvara fyrir árið 2021

Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum um flutningsjöfnunarstyrki vegna sölu olíuvara til söluaðila sem starfrækja sölustaði á svæðum sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræðilegra aðstæðna, skv. ákvæðum laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011. Umsóknarfrestur er til og með 31. mars 2022 og verður ekki tekið á móti umsóknum eftir þann tíma.

Styrkir eru veittir vegna olíuvara, ásamt tilheyrandi íblöndunarefnum, sem skiptast í eftirfarandi flokka:
Flokkur 1, bensín: Olíuvörur sem eru ætlaðar til notkunar sem eldsneyti fyrir vélknúin ökutæki.
Flokkur 2, gasolía: Gasolía sem er ætluð til notkunar fyrir vélknúin ökutæki, iðnað, til húshitunar og þess háttar.
Flokkur 3, gasolíutegundir fyrir skip og báta: Gasolíutegundir sem eru ætlaðar fyrir skip og báta.

Þrátt fyrir að eftirfarandi olíuvörur kunni að falla í ofangreinda flokka, eru þær ekki styrkhæfar:
a. Olíuvörur sem eru ætlaðar til útflutnings, svo sem til millilandasiglinga og erlendra skipa.
b. Olíuvörur sem ætlaðar eru flugvélum, svo sem flugvélabensín og flugvélaeldsneyti.

Umsóknum um flutningsjöfnunarstyrki skulu berast með útfyllingu á umsóknarskjali sem finna má neðst í þessari frétt. Í umsóknarskjalinu skulu vera nafn, kennitala og lögheimili söluaðila auk upplýsinga um selt magn á árinu 2021 í hverjum flokki olíuvara á þeim sölustað sem sótt er um, sem nauðsynlegar eru til að ákvarða upphæð styrks. Þá skal einnig senda með umsókn eftirfarandi skjöl:

  1. Staðfesting á að umsækjandi skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi
  2. Staðfesting að umsækjandi hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á næstliðnum fimm árum frá dagsetningu umsóknar. Byggðastofnun leggur mat á umsóknir og getur kallað eftir gögnum umfram þeirra sem hér er getið um og eru nauðsynleg til að reikna út og staðfesta styrkveitingu.
  3. Staðfestingu á uppruna og lögmæti gagna um selt magn á sölustöðum

Heildarfjárhæð styrkveitingar vegna ársins 2021 verður 175.000.000 kr. að frádregnum umsýslukostnaði Byggðastofnunar vegna úthlutunar. Því sem eftir stendur verður skipt á eftirfarandi hátt eftir flokkum skv. reglugerð 890/2021:

  • Flokkur 1: 25%
  • Flokkur 2: 45%
  • Flokkur 3: 30%

Úthlutun byggist á seldu magni sölustaðar í hverjum flokki fyrir sig m.t.t. til byggðastuðla sem finna má í 6. gr. reglugerðar nr. 890/2021. Einn sölustaður getur ekki fengið hærri flutningsjöfnunarstyrk en sem nemur 10% af heildarfjárhæð fyrirhugaðrar styrkveitingar í tilteknum viðmiðunarflokki olíuvara.

Að öðru leyti fer úthlutun fram samkvæmt lögum nr. 160/2011 og reglugerð nr. 890/2021.

Hér má sækja umsóknarskjal til útfyllingar

Umsóknir og aðrar fyrirspurnir berist á netfangið kristofer@byggdastofnun.is.

Getum við bætt síðuna?