Fara í efni

Tannhjólið

Tannhjólið

Í lok síðasta árs kláraðist þriggja ára áhersluverkefni Eyþings frá 2017, Gert – Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni á Norðurlandi eystra. Verkefnið var að stóru leyti þekkingaryfirfærsla þar sem sambærilegt verkefni er unnið á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land. Um var að ræða samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins (SI), Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að auka áhuga grunnskólanemenda á raunvísindum og tækni. Unnið var að því að allir skólar væru Gert skólar og hefðu þar með aðgang að verkefnastjóra verkefnisins hjá SI og einnig þeim tólum og tækjum sem þar eru. Haldnar voru starfamessur á Akureyri og grunnskólum af öllu svæðinu boðið að koma og rútuferðir voru greiddar af verkefninu. Heimsókn frá Háskólanum í Reykjavík og margt fleira var gert.

 

Nú er verkefnið í höndum skólanna sjálfra og verkefnastjóra SI og mun halda áfram. Meðan á verkefninu stóð átti starfsfólk atvinnuþróunarfélaganna á svæðinu í góðu samtali við gunn- og framhaldsskólana á svæðinu. Rætt var um sameiginlegar áskoranir og möguleika á að vinna að þeim saman. Nær allir grunnskólar nefndu að þeir ættu í erfiðleikum með að uppfylla og bjóða uppá fjölbreyttar valgreinar á unglingastigi. Upp frá því spratt hugmynd að verkefni sem nú er orðið að veruleika og heitir Tannhjólið og var unnið af Ásgarði.

Tannhjólið er rammi utan um námsferil þar sem nemendur hanna og útfæra sína eigin valgrein eða verkefni í hóp. Hugmyndafræðin byggir á hugmyndum um forvitnimiðað nám (e. inquiry based learning) og sköpunarnám (e. maker centered learning) og stuðst er fyrst og fremst við hönnunarhugsun (e. design thinking). Unnið er út frá grunnþættinum sköpun og hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Miðpunkturinn er að nemendur hanni og útbúi sína eigin afurð og verði í ferlinu rannsakendur, hönnuðir, uppfinningamenn, framleiðendur og seljendur sinnar eigin vöru. Í ferlinu er gert ráð fyrir að nemandi leiti sér leiðsagnar hjá aðila sem hefur þekkingu sem nýtist nemanda. Miðað er við að leitað sé grænna leiða og efniviður endurunninn eins og frekast er unnt.

Öllum er velkomið að nýta sér Tannhjólið og við hvetjum til þess að allir nýti sér efnið í heild sinni eða eitthvað úr því.

Nánari upplýsingar er að finna hér: https://ais.is/latum-tannhjolin-snuast/

Getum við bætt síðuna?