Fara í efni

Kraftmikið og vel sótt HönnunarÞing

Hér má sjá ráðherra veita gestum þingsins innblástur í komandi störf. 
Boðið var upp á samtíma túlk…
Hér má sjá ráðherra veita gestum þingsins innblástur í komandi störf.
Boðið var upp á samtíma túlkun á öllum dagskrárliðum, til að jafna aðgengi íbúa og gesta HönnunarÞings. Erindin fóru fram bæði á ensku og íslensku, en hluti framsögufólks starfar á alþjóðlegum vettvangi.

Kraftmikið og vel sótt HönnunarÞing

Um helgina lauk kraftmiklu og afar vel sóttu HönnunarÞingi // DesignThing, en fullt var út úr dyrum á hinum fjölmörgu viðburðum Þingsins. Kjarni ráðstefnunnar er hönnun og nýsköpun og svo er þriðji þráðurinn ávallt þræddur inn í dagskrána til að kanna og upplifa nýja snertifleti. Í ár var þemað, eða þriðji þráðurinn, matur.

Ráðstefnan fór fram á Stéttinni á Húsavík sem er samfélag stofnana, fyrirtækja og frumkvöðla á Húsavík sem starfa við nýsköpun, rannsóknir, þróun og þekkingarstarfsemi. Líkt og sjá má í samantektar myndbandi frá HönnunarÞingi, var suða í pottinum.

Mikið af hugmyndum og tengslum urðu til í samtölum meðal þátttakenda og gesta og verður spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

Á dagskránni mátti finna ávarp ráðherra menningar-, nýsköpunar- og háskóla, Loga Einarssonar, fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig skapandi greinar og frumkvöðlastarf geta mæst á fjölbreyttan hátt og skapað einstakan kraft og upplifun. Þess ber jafnframt að geta að boðið var upp á samtíma túlkun á öllum dagskrárliðum, til að jafna aðgengi allra íbúa og gesta HönnunarÞings. Erindin fóru fram bæði á ensku og íslensku, en hluti framsögufólks starfar á alþjóðlegum vettvangi. Auk þess tóku veitingastaðir á Húsavík þátt með því að prófa sig áfram með ný hráefni og brögð, til að mynda kolmuna sem hingað til hefur aðallega verið notaður í mjölframleiðslu en ekki á diska landsmanna.

Að þessari skapandi ráðstefnu stendur Hraðið miðstöð nýsköpunar á Húsavík með vöruhönnuðinn Stefán Pétur Sólveigarson í fararbroddi. SSNE er samstarfsaðili og leggur áherslu á að vekja athygli á atvinnulífi á sviði nýsköpunar, menningar og skapandi greina. Með viðburðinum er meðal annars leitast við að opna augu fólks fyrir möguleikum þess að vinna að hönnun og öðrum skapandi greinum um allt land.

„HönnunarÞing eða „DesignThing“, er innblásið af þeirri sannfæringu okkar að hönnunar og hönnunarhugsunar sé alls staðar þörf, ekki bara í miðborgum eða inni í háskólum. Hönnun og hönnunarhugsun sé ekki síður mikilvæg úti í byggðum landsins og í öllum tegundum samfélaga. Á HönnunarÞingi koma gestir úr ýmsum áttum og kynna og fræða gesti. Þá verður vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands í vikudvöl í Hraðinu – miðstöð nýsköpunar – í tengslum við viðburðinn. Það eitt og sér er afar mikilvæg tenging við Listaháskóla Íslands og öfugt, þeirra við byggðir landsins. Í einföldustu mynd viljum við leiða saman skapandi krafta hönnunarhugsunar og veruleika harðkjarna atvinnulífs. Kveikja þannig neista nýsköpunar. Og auðvitað vekja athygli á að hægt er að vinna alls konar skapandi vinnu og verkefni um allt land, tækifærin leynast víða.“  -Stefán Pétur

Ef stikklað á stikkorðum dagskrár þá mætti nefna: skordýraprótein, hringrás, glatvarma, snigla, umbúðahönnun, hráefni, upplifunarhönnun, örverur, stökkfisk, ostamótahönnun, listaháskólastig, bragðþjálfun, keramik, geitur, kjörbúð, brögð af stað, spaghetti, samfélagsgróðurhús neðansjávar, landbúnað, lífgas, útieldhús, neðansjávarsvið, sykurpúða, götubita, bíó, úrgang, eldstæði, grásleppu, lífrænt val, stemningu, samfélag,húðflúr, sjálfbærni, hönnunarvernd, fegurð, kolmunna, bókahönnun, regluverk,flugelda, list, klaustur, fjölskyldur, villiöl, matarhefðir, Bakkafjörð, handverk, líffræðilegan fjölbreytileika, nýtingu, 2050, vörumerki.

--> Hér má sjá yfirlit yfir dagskrárliði og þátttakendur ársins 2025.

HönnunaÞing hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

Getum við bætt síðuna?