Fara í efni

Vorfundur Byggðastofnunar og landshlutasamtaka

Fulltrúar SSNE á vorfundi Byggðastofnunar og landshlutasamtaka
Fulltrúar SSNE á vorfundi Byggðastofnunar og landshlutasamtaka

Vorfundur Byggðastofnunar og landshlutasamtaka

Fulltrúar SSNE sóttu vorfund Byggðastofnunar og landshlutasamtaka 7. – 8. maí á Breiðdalsvík. Fundurinn er mikilvægur vettvangur starfsfólks landshlutasamtaka og Byggðastofnunar til að rýna verkefni, miðla upplýsingum, auka fræðslu og tengslamyndun þvert á landið.

Dagskráin var afar fjölbreytt, sem er í takt við þau fjölbreyttu hlutverk sem landshlutasamtök sinna:

Íbúakönnun í brothættum byggðum
Kristján Halldórsson frá Byggðastofnun sagði frá þróun og gildi íbúakannana fyrir byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir. Þar til í ár, hafa kannanir einungis verið lagðar fyrir íbúa í lok verkefna, en frá og með þeim verkefnum sem hefjast í ár, er könnunin lögð fyrir í upphafi og í lok verkefnis. Könnuninni er til dæmis ætlað að kanna viðhorf og væntingar í upphafi verkefnis, virkni íbúa á verkefnatíma, hvernig breytingar á samfélaginu verða yfir verkefnatímann og hvaða áhrif verkefnið hefur haft á viðhorf íbúa gagnvart búsetu.

Mikilvæg markmið verkefnisins er að virkja frumkvæði og samtakamátt íbúa, sem og auka vitund þeirra um eigin þátt í þróun samfélagsins og veitir könnunin m.a. innsýn í þessa þætti. Hér má finna upplýsingar um þau verkefni Brothættra byggða sem eru í gangi og hafa farið fram á Norðurlandi eystra.


Hagnýting gagna til að efla stefnumótun og ímynd sveitarfélaga
Erna Kaaber og Anna Hildur Hildibrandsdóttir fóru yfir það hvernig skoða megi sérstöðu svæða utan þéttbýlis út frá menningu og skapandi greinum – og hvernig sveitarfélög geta hagnýtt þau gögn til að efla stefnumótun og ímynd sveitarfélaga. Sömuleiðis gætu gögnin nýst vel til að móta starfsáherslur í stoðumhverfi landshlutasamtaka. Drógu þær til dæmis upp mynd þar sem áhrif vistkerfis menningar og skapandi greina á félagslega og efnahagslega nýsköpun eru könnuð.

Anna Hildur fór jafnframt yfir starfsemi og stefnu Rannsóknarseturs skapandi greina en meðal verkefna setursins er að kortleggja og afla gagna, móta rannsóknaverkefni og efla samstarf og tengslamyndun.


Ráðgjöf til frumkvöðla og fyrirtækja
Sveinbjörg Pétursdóttir framkvæmdastjóri SSNV og Niall O’Leary verkefnisstjóri Target Circular kynntu aðferðarfræði til að efla ráðgjöf til frumkvöðla og fyrirtækja. Target Circular er samstarfsverkefni írskra, norskra, finnskra, sænskra og íslenskra aðila sem snýst um að styrkja rekstrarforsendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja, ekki síst þeirra sem vilja leggja áherslu á sjálfbærni og samkeppnishæfni.

Fyrirtækjaheimsóknir - uppbygging, þröskuldar og sigrar
Þá hélt hópurinn af stað í fyrirtækjaheimsóknir og var gríðarlega vel tekið á móti gestum hjá bifreiðaverkstæðinu og ferðaþjónustunni Tinnu, brugghúsinu Beljanda, borkjarnasafni Íslands og rannsóknarsetri Háskóla Íslands.


Aðlögun sveitarfélaga að loftslagsbreytingum
Seinni daginn var það Magnús Freyr Sigurkarlsson frá Byggðastofnun sem hóf leika og sagði frá verkefninu ,,Aðlögun sveitarfélaga að loftslagsbreytingum“, sem svarar til aðgerðar C.10 í Byggðaáætlun. Fimm íslensk sveitarfélög taka þátt í verkefninu og á okkar landshluti einn fulltrúa, Akureyrarbæ. Sveitarfélögin fimm voru valin með það fyrir augum að verkefnið myndi spanna sem fjölbreyttastan hóp íslenskra sveitarfélaga, m.t.t. stærðar, íbúafjölda, staðsetningar, lykilatvinnugreina og loftslagstengdra áskorana. Markmið verkefnisins er að búa til leiðarvísi og móta heildstæða nálgun fyrir íslensk sveitarfélög fyrir aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga. Vonir standa til að áætlanirnar verði grunnur að frekara samtali og ákvarðanatöku innan sveitarfélaganna um framkvæmd nauðsynlegra aðlögunaraðgerða.


Þjónustukönnun 2024

Þorkell Stefánsson sagði frá fyrstu niðurstöðum úr þjónustukönnun Byggðastofnunar. Könnunin er liður í að skilgreina þjónustusvæði og fá mynd af viðhorfum íbúa mismunandi svæða til breytinga á þjónustu. Þjónustukannanir eru liður í greiningu þess hvort þjónustustig sé sambærilegt um allt land svo meta megi hvort og þá hvaða breytinga sé þörf, hvernig bæta megi þjónustu eða jafna aðgengi að þjónustu. Í könnuninni er leitað svara við því hvert og hversu oft íbúar sækja margvíslega þjónustu, jafnt opinbera þjónustu sem og aðra þjónustu. Heildar niðurstöður verða birtar á vef Byggðastofnunar síðar á þessu ári. Upplýsingar fyrir landshlutann verða sérstaklega dregnar fram og birtar á heimasíðu SSNE.


Áhrif stóriðjuframkvæmda á samfélag á Austurlandi
Lilja Sif og Tinna frá Austurbrú sögðu frá niðurstöðum sem þær hafa verið að vinna úr gagnasöfnun Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar. Gagnasöfnunin hefur staðið síðustu 20 ár og er spennandi að rýna gögnin með byggðaþróunargleraugun á nefinu. Úr gögnunum má t.d. lesa hvernig kynjasamsetning íbúa hefur breyst, aldursdreifing, fasteignarverð, fjármál sveitarfélaga, menningarviðburðir, umhverfisvísa og svo margt fleira. Sjálfbærni verkefninu var komið á til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og Alcoa í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Hægt er að fylgjast með og rýna í gögn inn á sjalfbaerni.is


Byggðavísitala
Sigurður Árnason frá Byggðastofnun kynnti verk í vinnslu, svo kallaða byggðavísitölu. Slíkar tölur eru t.d. notaðar í Noregi sem verkfæri fyrir úthlutun eða dreifingu fjármagns til eflingar byggða.


Hvað næst?
Sameiginlegir fundir Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna eru haldnir tvisvar á ári og flakka á milli landshluta. Fundirnir eru mikilvægur vettvangur til fræðslu og samtals, en ekki síður innlitið í þá byggðaþróun sem á sér stað hjá gestgjöfum, en fyrirtækjaheimsóknir eru dýrmætur partur af dagskránni. Vorfundurinn er tengdur við ársfund Byggðastofnunar, sem er opinn öllum áhugasömum um byggðamál. Aftur á móti er haustfundurinn tengdur Byggðaráðstefnuninni og verður hann sem og ráðstefnan haldin á Norðurlandi eystra í ár, nánar tiltekið í Þingeyjarsveit 4. nóvember. Hér getið þið séð nánari upplýsingar, við mælum með að taka daginn frá. Jafnframt er vert að nefna að opið er fyrir tillögur að erindum inn á ráðstefnuna en þema hennar er: Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga, jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?

Getum við bætt síðuna?