Fara í efni

Kynningarferð um líforkuver til Finnlands og Noregs

Hópurinn ásamt starfsfólki Biosirk í Hamar, Noregi
Hópurinn ásamt starfsfólki Biosirk í Hamar, Noregi

Kynningarferð um líforkuver til Finnlands og Noregs

Vikuna 16. - 20. október var farin kynnisferð til Finnlands og Noregs þar sem hag- og fagaðilum var boðið að kynna sér starfsemi líforkuvera í báðum löndum. Ferðin var skipulögð af verkefnastjóra SSNE, Kristínu Helgu Schiöth, og ráðgjafanum Karli Karlssyni sem hefur verið SSNE innan handar í undirbúningi líforkuvers á Dysnesi.

Þátttaka í ferðina var góð, en með í för voru 12 manns fyrir utan fararstjóra. Meðal þátttakenda voru fulltrúar Hörgársveitar, fulltrúi landeigenda, opinberir eftirlitsaðilar og fulltrúar annarra landshlutasamtaka. Markmið ferðarinnar var að sjá hvernig Finnland og Noregur standa að söfnun, mótttöku og vinnslu á dýraleifum/hræjum - en fyrsti fasi Líforkugarða á Dysnesi snýr einmitt að þeirri vinnslu. Afurðir vinnslunnar eru í formi orkugjafa; kjötmjöls og fitu sem áfram má vinna í lífdísil. 

Í Finnlandi er tekið við efni af þessu tagi (ABP CAT1) á einum stað í landinu, og var vel tekið á móti Íslendingunum í höfuðstöðvum Honkajoki/GMM. Í Noregi voru gestgjafarnir Biosirk, en þátttakendur heimsóttu höfuðstöðvar fyrirtækisins í Hamar, þar sem önnur af tveimur vinnslustöðvum CAT1 úrgangs á öllu landinu er starfrækt. Hjá Biosirk gafst þátttakendum einnig tækifæri til að ræða við Mattilsynet (norska MAST), spyrja út í þátt eftirlitsaðila og fræðast um hvernig söfnun og vinnsla dýraleifa blasir við bændum. 

Ferðin gekk afskaplega vel og urðu þátttakendur margs vísari um söfnunarkerfi, smitvarnir, sýnatökur, loft- og vatnshreinsun, vinnsluferla og notkun afurðanna sem úr vinnslunni koma. 

Starfsfólk SSNE hefur unnið ötullega að undirbúningi líforkuvers á Dysnesi undanfarið ár með aðstoð ráðgjafa, en Frumhagkvæmnimat líforkuvers var kynnt á fundi í Hofi þann 1. nóvember 2022. Virkt samtal hefur verið milli sveitarfélaga á svæði SSNE, ráðuneyta sem fara með málaflokkinn og annarra hagaðila. Sveitarfélögin að baki SSNE hafa sammælst um aðstofna þróunarfélag um verkefnið og var þróunarfélagið Líforkugarðar ehf stofnað fyrr í haust. Félagið hefur síðan sótt um lóð á Dysnesi undir fyrsta fasa líforkugarðanna. 

Getum við bætt síðuna?