Fara í efni

Ágrip frá framkvæmdastjóra

Ágrip frá framkvæmdastjóra

Stjórn SSNE hélt aukafund í lok janúar þar sem tillögur að áhersluverkefnum voru ræddar og áhersluverkefni 2022 voru ákveðin. Þrátt fyrir að stjórn hefði úr 62 milljónum að spila var ekki hægt að fjármagna öll þau mikilvægu verkefni sem voru á borðinu en engu að síður eru áhersluverkefni SSNE fjórtán talsins árið 2022. Nú verða verkefnin sem stjórn samþykkti send til stýrihóps Stjórnarráðsins sem fjallar um þau og gefur endanlegt samþykki.

Ekki eru öll áhersluverkefnin ný, fjármagni er einnig veitt í áframhald verkefna sem hófust á síðasta ári. Má sem dæmi nefna samgöngustefnu en það verkefni hefur verið útvíkkað og verður unnin samgöngu- og innviðastefna fyrir landshlutann. Gríðarlega mikilvægt verkefni sem fyrirsjáanlega verður umfangsmikið og krefjandi.

En áhersluverkefni eru ekki ein um hituna. Það er óhætt að segja að þessi árstími sé tími fjárhagslegrar innspýtingar í uppbyggileg verkefni hér á Norðurlandi eystra því úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs hefur unnið úr þeim mikla fjölda umsókna sem bárust eins og fram hefur komið. Rafræn úthlutunarhátíð sjóðsins er svo hápunkturinn og mikil gleðistund. Ég ætla að nýta þetta tækifæri til að óska styrkhöfum til hamingju og óska þeim velfarnaðar í verkefnunum framundan.

Mig langar til að hrósa mínu frábæra starfsfólki fyrir mikið og gott starf í umsóknarferlinu þar sem þau hafa veitt umsækjendum í uppbyggingarsjóð ómetanlega aðstoð og stuðning og lögðu á sig mikla vinnu, ekki síður við úrvinnslu umsókna og aðstoð við starf úthlutunarnefndar, sem og úthlutunarhátíð og eftirfylgni mála. Það sama á við um undirbúning og útfærslu tillagna um áhersluverkefni, að baki því liggur mikil og góð vinna starfsfólks SSNE sem auðveldaði stjórn að leggja mat á verkefnin.

Hafin er vinna við endurskoðun svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Verkefnið er unnið af Stefáni Gíslasyni hjá Environice en það er ráðgjafafyrirtæki á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Stefán þekkir svæðisáætlun okkar vel enda vann hann núgildandi áætlun. Fyrir liggur verkefnisáætlun í 6 liðum:

1.Greining á stöðu mála og líklegri þróun
2.Mótun stefnu í úrgangsmálum
3.Umhverfismat áætlana
4.Ritun skýrslu
5.Samráð við almenning
6.Lokafrágangur

Eins og margir vita þá nær núgildandi svæðisáætlun yfir allt Norðurland og er endurskoðunin því unnin í samstarfi á starfssvæði SSNE og SSNV.

Haldinn var einn fundur með kjörnum fulltrúum og framkvæmdastjórum sveitarfélaga. Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sveitarfélaga og byggðarmála í innviðaráðuneytinu, áður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, kynnti stefnu í málefnum sveitarfélaga með sérstakri áherslu á aðgerðaráætlun stefnunnar fyrir árin 2019-2023 og stöðu hvers verkefnis fyrir sig. Í framhaldi af kynningu hennar fóru fram umræður. Hér má sjá frétt frá þeim fundi og hér er er upptaka af fundinum.

Við erum nú að hefja vinnu við þarfagreiningu fyrir skjalakerfi og málaskrá SSNE. Val, kaup og innleiðing á slíkum kerfum verður lokahnykkurinn í uppbyggingu rafrænna kerfa SSNE en mikið verk hefur verið unnið á þessu sviðið frá því að samtökin í núverandi mynd tóku til starfa í upphafi árs 2020.

Það er mikill hugur í okkur nú í upphafi nýs árs og við hlökkum til að halda áfram starfi okkar í samræmi við skýra stefnu og metnaðarfull, mælanleg markmið. Við bindum miklar vonir við batnandi stöðu hvað heimsfaraldurinn varðar og tilslakanir sem opna okkur tækifæri til þess að láta sjá okkur meira og hitta allt það skemmtilega fólk sem við höfum að mestu leyti haft samskipti við í netheimum.

kær kveðja,

Eyþór Björnsson,
framkvæmdastjóri SSNE.

Getum við bætt síðuna?