Fara í efni

Samstarf safna

Meginmarkmið verkefnis er að bregðast við niðurstöðum fýsileikakönnunar um aukið samstarf eða sameiningu safna á Norðurlandi eystra. Könnunin var liður í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 (liður C.14 – Samstarf safna – ábyrgðarsöfn) sem samþykkt var á Alþingi þann 11. júní 2018. Vörður verkefnisins ,,Samstarf safna"  felast í því halda fjölbreyttar vinnustofur með það markmiði auka samstarf, njóta og nýta styrk og þekkingu ólíkra safna, setra og sýninga á svæðinu, efla faglegt starf og þannig búa til sameiginlega verkfærakistu. Með vinnustofunum bæta við tólum og tækjum við verkfærakistuna sem hvert safn/setur/sýning nýtir eftir sýnum áherslum.

,,Samstarf safna" er allt í senn verkefni er snýr að fagþekkingu sem og samfélags- og ferðaþjónustu verkefni þar sem lögð er áhersla á að faghópurinn leggi saman krafta sína til eflingar svæðisins í heild sinni. Með samstarfinu verður aðgengi að vinnustofum betra eða raunhæft, námskeiðskostnaður lágmarkaður fyrir hvern þátttakanda og stéttin eflist með aukinni þjónustu- og vöruþróun gagnvart gestum. 

Með verkefninu er jafnframt lögð drög að hreyfiafli til endurvekja klasa eða samstarfskjarna austan megin líkt og er á Eyjafjarðarsvæðinu og samstarf klasanna á milli sem eina heild þegar kemur öflun þekkingar, færni, markaðsstarfs og viðburða

Upphæð: 3.000.000 kr.

Verkefnastýrur: Hildur Halldórsdóttir fyrir hönd SSNE, Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins Siglufirði fyrir hönd Safnaklasa Eyjafjarðar, Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri Flugsafns Íslands á Akureyri fyrir hönd Safnaklasa Eyjafjarðar og Sigríður Örvarsdóttir forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga fyrir hönd Safnaþings.

Staða verkefnis: 2/3 er lokið.

Yfirlit yfir afurðir verkefnisins hingað til:

Maí 2022 - Áherslur fyrstu vinnustofanna voru á sumarstarfið sem og markaðsstarf svæðisins og safnanna/setra/sýninga.

1. Sú fyrsta fór fram á KEA hótel á Akureyri og fjallaði um stafræna frásagnargerð á snjallsímum fyrir mismunandi miðla og notendur, hvaða tækni er beitt til að ná sem mestum áhrifum í myndmáli. Þá var kennt á forritið KineMaster og prófað að búa til og miðla efni þar sem síminn er eina tækið. Farið var yfir tímalínu, klippingu og hljóð- og myndvinnslu á KineMaster. Eftirfylgni og stuðningur var í boði fyrir þá sem þess óskuðu næstu fjórar vikurnar. Kennari námskeiðsins var Skúli Arason frá Glimrandi sem sérhæfir sig í menningarframleiðslu. Hvatt var til þess að þátttakendur væru fyrirfram búnir að skrá sig inn á svæði Markaðsstofu Norðurlands, upplifdu.is, og sækja sér efni þangað sem framleitt hefur verið fyrir söfn, setur og sýningar á svæðinu.

2. Vinnustofa tvö var rafræn og fjallaði um markaðssetningu; Miðlunarleiðir efnis: möguleikarnir sem eru í boði á FB, Google og Instagram. Hvernig best er að nýta við miðlana best til að ná til mögulegra gesta, hraðbrautir, krossgötur og göngustígar google, facebook og instagram. Kennari vinnustofunnar var Atli Björgvinsson frá Glimrandi.

Október 2022 - Áherslur á faglegt safnastarf eftir mesta ferðamannatímann, sem nýtist fyrir starf vetrarins.

3. Vinnustofa þrjú var haldin í Menningarmiðstöð Þingeyinga og var helguð söfnun og grisjun. Reynsluboltarnir Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safneignar hjá Þjóðminjasafninu og Lilja Árnadóttir fyrrum sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins höfðu umsjón með vinnustofunni og mæltist hún mjög vel fyrir.

4. Fjórða vinnustofan var rafræn og fjallaði um sýningarhönnun, erindin voru tvö. Sara Blöndal sýningarhönnuður fræddi þátttakendur um hönnunarhugsun í safnastarfi og Heiðar Már Björnsson kvikmyndagerðarmaður miðlaði þekkingu sinni á því hvernig hægt væri að nota tæknina við gerð sýninga, hvernig hún er hönnuð inn í rými og hversu mikilvægur partur hún er orðin af sýningagerð og sýningarhönnun.

5. Fimmta vinnustofan var einnig rafræn og fjallaði um safnfræðslu, erindin voru tvö. Fyrra erindið fjallaði um fræðslu við jaðarhópa og kynntu Hlín Gylfadóttir verkefnastjóri samfélagsverkefna og safnfræðslu Borgarsögusafni Reykjavíkur og Halla Margrét Jóhannesdóttir, verkefnastjóri miðlunar Listasafni Reykjavíkur verkefni sem söfnin unnu saman að og kallast Tökum höndum saman. Verkefnið miðar að því að auka aðgengi fólks að söfnunum tveimur og bjóða alla gesti velkomna, líka þá sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að koma í söfnin eða finna sig ekki þar, s.s. blindir og sjónskertir.

Jóhanna Bergmann safnkennari við Þjóðminjasafn Íslands kynnti síðan mastersverkefnið sitt Hugmyndahattinn, sem er „aðgengilegt uppflettirit sem gagnast sem innblástur fyrir grunnskólakennara um mögulegar nálganir í fræðslu nemenda í samstarfi við söfn, þar sem sköpunarkraftur nemenda fær að njóta sín og safnið verður að vettvangi þeirra til að rannsaka, uppgötva og gera nýjar tengingar í huga sér. Handbókin kemur sér einnig vel fyrir starfsfólk safna sem hefur áhuga á að brydda upp á skemmtilegum nýjungum í safnfræðslu fyrir grunnskólanemendur.“ Jóhanna ræddi um safnfræðslu út frá verkefninu og lagði verkefni fyrir þátttakendur.

6. Sjötta vinnustofan var haldin á Siglufirði og fjallaði um varðveislu, skráningu, miðlun og almenna meðhöndlun á ljósmyndum í safnkosti. Kristín Halla Baldvinsdóttir og Þórir Ingvarsson frá Þjóðminjasafni Íslands fóru yfir þessi mál með þátttakendum auk þess sem Hörður Geirsson frá ljósmyndadeild Minjasafnsins á Akureyri fjallaði um höfundarréttarmál og persónuverndarreglur sem varða notkun og meðhöndlun ljósmynda í safnkosti.