Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2018

21.09.2018

 AÐALFUNDUR EYÞINGS 21. og 22. september 2018
Skýrsla stjórnar starfsárið 2017 - 2018. 

 

Aðalfundur Eyþings var haldinn 10. og 11. nóvember 2017 á Siglóhóteli í Fjallabyggð. Í stjórn sitja Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Akureyri, Eva Hrund Einarsdóttir, Akureyri, Gunnar I. Birgisson, Fjallabyggð, Eiríkur H. Hauksson, Svalbarðsstrandarhreppi, Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit, Sif Jóhannesdóttir, Norðurþingi og Elías Pétursson, Langanesbyggð.
Fastráðnir starfmenn Eyþings eru þrír, Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri, Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri og Vigdís Rún Jónsdóttir verkefnisstjóri menningarmál. Þá kom Hulda Jónsdóttir aðeins að frágangi verkefnisins Creative Momentum.
Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 9 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu um 120 mál. Hafa ber í huga að nokkru skemmri tími er nú milli aðalfunda en venja er. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári. Vakin er athygli á að í fundargerðum stjórnar og fundargerðum fulltrúaráðs er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar. Jafnframt er bent á fundargerð aðalfundar 2017.
Ástæða er til að geta þess sérstaklega að unnar voru starfsreglur fyrir stjórn Eyþings sem stjórnin samþykkti á fundi sínum 27. júní sl. 

Nefndir, ráð og starfshópar
Stjórn Eyþings skipar eða tilnefnir fulltrúa í nokkrar nefndir. Skipunartími þeirra er all misjafn. 

Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Samkvæmt tilnefningu Eyþings voru skipaðir sem aðalmenn Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit og Bjarni Höskuldsson Þingeyjarsveit og til vara Sigurður Böðvarsson Mývatnssveit og Guðrún María Valgeirsdóttir Mývatnssveit (293. fundur). 
Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja Ólafur G. Vagnsson Eyjafjarðarsveit sem er formaður, Árni Sigurður Þórarinsson Dalvíkurbyggð og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi (287. fundur). 
Minjaráð Norðurlands eystra. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn: Steinunn María Sveinsdóttir, Fjallabyggð og Sif Jóhannesdóttir, Norðurþingi. Til vara: Logi Már Einarsson, Akureyri og Daníel Pétur Hansen, Svalbarðshreppi. (260. fundur). 
Norðurslóðanet Íslands. Framkvæmdastjóri á seturétt sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundum í samræmi við stofnskrá. Rétt er að minna á að stofnun Norðurslóðanetsins er fyrsta verkefnið sem ráðist var í á grunni sóknaráætlunar á Norðurlandi eystra árið 2012. 
Fagráð menningar - Menningarráð fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Arnór Benónýsson, formaður, Þingeyjarsveit, Hildur Stefánsdóttir, Svalbarðshrepp, Valdimar Gunnarsson, Eyjafjarðarsveit, Hulda Sif Hermannsdóttir, Akureyri (301. fundur) og Sólveig Elín Þórhallsdóttir, Akureyri (293. fundur) Varamenn: Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, Húsavík og Gunnar I. Birgisson, Siglufirði (291. fundur). 
Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Sigurður Steingrímsson formaður, Akureyri, Heiðrún Óladóttir, Þórshöfn, Snæbjörn Sigurðarson, Húsavík, Sigríður María Róbertsdóttir, Siglufirði og Eiríkur H. Hauksson, Svalbarðsstrandarhreppi (291. fundur). Varamenn: SigríðurBjarnadóttir, Eyjafjarðarsveit (292.fundur) og Rúnar Sigurpálsson, Akureyri (291. fundur). 
Úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs (5 fulltrúar). Formenn fagráða taka sæti í úthlutunarnefnd skv. samþykktu stjórnskipulagi uppbyggingarsjóðs, þeir Arnór Benónýsson og Sigurður Steingrímsson. Auk þeirra skipa eftirtaldir úthlutunarnefnd: Eva Hrund Einarsdóttir formaður, Akureyri, Birna Björnsdóttir, Raufarhöfn og Sigrún Stefánsdóttir, Akureyri (291. fundur). Varamenn: Dagbjört Bjarnadóttir, Skútustaðahreppi og Valdemar Þór Viðarsson, Dalvík (291. fundur). 
Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra Eftirtaldir voru skipaðir: Gunnlaugur Stefánsson, Húsavík og Linda Margrét Sigurðardóttir, Eyjafjarðarsveit (varamaður) (267. fundur). 
Verkefnisstjórnir í verkefninu „Brothættar byggðir“. Pétur Þór Jónasson framkvæmastjóri Eyþings situr í verkefnisstjórn Öxarfjarðar og sat einnig í verkefnisstjórn Raufarhafnar en því verkefni lauk formlega í janúar sl. Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi Akureyri siturí verkefnisstjórnum Grímseyjar og Hríseyjar. (270. fundur). 
Samstarfsverkefni um bætta nýtingu orkuauðlinda.  Félag um verkefnið fékk nafnið Eimur. Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit, var skipaður í stjórn verkefnisins. Eva Hrund Einarsdóttir, Akureryi, skipuð varamaður (304. fundur). Sigurður Ingi Friðleifsson, Eyjafjarðarsveit, framkvæmdastjóri Orkuseturs og Arnheiður Jóhannsdóttir, Akureyri, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands voru skipuð í fagráð verkefnisins. Einn varamaður var skipaður frá hvoru atvinnuþróunarfélagi (279. fundur). 
Starfshópur um úrgangsmál í tengslum við áhersluverkefni Eyþings og SSNV. Af hálfu Eyþings voru Kristján Þór Magnússon, Norðurþingi og Gunnar I. Birgisson, Fjallabyggð skipaðir. Stjórn SSNV skipaði Einar E. Einarsson í starfshópinn.

Helstu þættir í starfi Eyþings/Ályktun aðalfundar
Líkt og árið áður þá samþykkti aðalfundur 2017 eina stutta hnitmiðaða ályktun sem tók á þeim málum sem fulltrúar vildu setja á oddinn. Þess var gætt að ályktunin hefði skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og rúmaðist á einu A4 blaði. Efnisþættir ályktunarinnar voru almenningssamgöngur, samgönguáætlun, orkumál, menntamál, heilbrigðismál, öldrunarmál, sóknaráætlanir landshluta, atvinnumál og menningarmál. Ályktunin rammaði þannig inn megináherslur fyrir stjórn á starfsárinu ásamt nokkrum atriðum sem fram komu í umræðu málefnahópa. Í punktum frá málefnahópunum var þó lítið um að ábendingum væri beint til stjórnar heldur voru umræður meira vítt og breitt um hin ýmsu mál sem brunnu á fulltrúum. Hér verður gerð grein fyrir helstu þáttum í starfi Eyþings og verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða tæmandi lista. 

1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra.
Lang umfangsmesti þáttur í starfsemi Eyþings tengist samningi milli Eyþings og ríkisins um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019. Hér er um að ræða lögbundið verkefni. Það verklag sem felst í samningnum hefur verið að festast í sessi með aukinni reynslu. Eyþing hefur fengið lof fyrir vandað verklag og umsýslu sóknaráætlunar. Fulltrúar stýrihóps Stjórnarráðsins komu og héldu fund með ábyrgðar- og umsjónaraðilum Sóknaráætlunar þar sem farið var yfir reynslu og ýmis hagnýt málefni.
Í grófum dráttum má segja að samningurinn um sóknaráætlun taki til þriggja meginþátta sem eru: hin eiginlega sóknaráætlun sem er stefnuskjal fyrir landshlutann, uppbyggingarsjóður landshlutans og áhersluverkefni. Framlag ríkisins til samningsins árið 2018 var það sama og árið 2017 eða 125.860.056 kr. Að auki leggja sveitarfélögin 11.450.000 kr. til samningsins í ár. Þá annast Eyþing greiðslu á 6.400.000 kr. framlagi til Urðarbrunns skv. samningnum.
Stjórn Eyþings samþykkti þann 13. desember sl. að setja til úthlutunar í Uppbyggingarsjóð samtals 100.000.000 kr. sem skiptust jafnt milli menningar og atvinnuþróunar og nýsköpunar. Rúmar 28 mkr fóru í áhersluverkefni og 9 mkr í umsýslu líkt og heimild er til í samningnum þar af 2 mkr. til atvinnuþróunarfélaganna skv. samningi og 7 mkr. til Eyþings vegna menningarstyrkja og umsjón sóknaráætlunarsamnings. Fram til þessa hefur kostnaður við umsýslu verið nokkuð umfram þær 9 mkr sem í hana hafa verið ætlaðar. Þann umframkostnað hefur Eyþing borið. Í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir að kostnaður við umsýslu rúmist innan 9 mkr. sem leiðir af skýrara og skilvirkara skipulagi.
Í lok árs 2017 voru töluverðar fjárhæðir óráðstafaðar. Stjórn Eyþings ráðstafaði þeirri upphæð til áhersluverkefna á fundi sínum 2. mars sl. Nánar verður fjallað um áhersluverkefni síðar í skýrslunni.

Stefnumörkun - stefnuskjal. Hin eiginlega sóknaráætlun er þróunaráætlun eða stefnuskjal með framtíðarsýn og markmiðum, ásamt þeim leiðum sem menn vilja fara að þeim. Áform ríkisins eru að taka mið af þeim áherslum og markmiðum sem hver landshluti hefur sett fram í sinni sóknaráætlun þegar forgangsraða þarf verkefnum og úthluta fjármunum.
Eyþing vann og sendi frá sér Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra á árinu 2015. Á árinu 2016 var síðan unnin sérstök aðgerðaáætlun með skilgreindum leiðum og verkefnum til að vinna að þeim markmiðum sem fram koma í stefnuskjali sóknaráætlunar. Aðgerðaáætlunin er megin vinnuskjal við framkvæmd sóknaráætlunar og grunnur að forgangsröðun verkefna og samstarfi við ýmsa aðila.
Í samningi um sóknaráætlun er kveðið á um skipan samráðsvettvangs sem gert er ráð fyrir að starfi á gildistíma áætlunarinnar og fái að fylgjast með framvindu hennar. Samráðsvettvangur Eyþings er skipaður 41 fulltrúa. Leitast er við að ná fram ólíkum sjónarmiðum úr landshlutanum. Um helmingur fulltrúa kemur úr röðum sveitarstjórnarmanna. Athygli hefur vakið að vel hefur tekist að fá ungt fólk úr framhaldsskólum og háskóla til þátttöku. Samráðsvettvangurinn hefur ekki verið kallaður saman á þessu starfsári. Gert er ráð fyrir að fundað verði í samráðsvettvanginum síðar í haust. 

Uppbyggingarsjóður. Hér á undan hefur verið gerð grein fyrir fjárhag uppbyggingarsjóðs og sóknaráætlunar í heild. Áfram hefur verið unnið að því að bæta starfshætti og faglega umgjörð sjóðsins til að tryggja vandaða stjórnsýslu. Verkskipulag  við umsýslu sjóðsins hefur verið endurskilgreint. Mikilvægt er að hafa í huga að allur stjórnsýsluþáttur sjóðsins, ásamt fjármálaumsýslu er hjá Eyþingi. Sá þáttur er í höndum framkvæmdastjóra og verkefnastjóra Eyþings. Verkefnisstjóri menningarmála og ráðgjafar atvinnuþróunarfélaganna annast kynningu á sjóðnum og aðstoð við umsækjendur ásamt því að annast ráðgjöf og eftirfylgni við styrkþega. Þá taka þeir við lokaskýrslum til yfirferðar.
Þá gegna fagráð og úthlutunarnefnd mikilvægu hlutverki og mikilli ábyrgð við úthlutun úr sjóðnum. Fagráðunum er ætlað að fara yfir allar umsóknir og gera tillögur til úthlutunarnefndar um styrkveitingar. Á síðasta starfsári samþykkti stjórnin nýtt fyrirkomulag á þóknunum til fagráða og úthlutunarnefndar. Almenn ánægja var með þetta fyrirkomulag eftir úthlutun 2018.
Fjárhags- og stjórnsýslunefnd á aðalfundi Eyþings 2017 lagði fram tillögu að reglum um skipun fulltrúa í fagráð og úthlutunarnefnd. Ekki tókst að leiða málið til lykta á aðalfundinum og var tillögunni vísað til stjórnar sem falið var að koma með tillögu á aðalfund 2018. Tillaga stjórnar liggur nú fyrir fundinum.
Haustið 2017 var ný umsóknargátt Uppbyggingarsjóðs tekin til notkunar. Nokkrir byrjunarörðuleikar voru við nýtt ferli en ráðgjafar og umsjónaraðilar voru umsækjendum til aðstoðar. Lögð hefur verið áhersla á að þeir starfsmenn sem koma að ráðgjöf og umsýslu sjóðsins tali einni röddu út á við s.s. um æskilegar breytingar. Þannig mætti verkefnastjóri Eyþings á fund í janúar um endurbætur á umsóknargáttinni í kjölfar vinnu heima fyrir um sameiginlega sýn á kerfið. Opnað var fyrir umsóknir 1. nóvember sl. og var umsóknarfrestur til 29. nóvember. Uppbyggingarsjóði bárust samtals 133 umsóknir, þar af 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar. Úthlutunarhátíð var haldin á Húsavík þann 1. febrúar sl. þar sem 85 verkefnum var úthlutað styrk. Gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir umsóknir vegna 2019 um miðjan október nk. og úthlutunarhátíð verði haldin í byrjun febrúar. 

Áhersluverkefni. Svokölluð áhersluverkefni eiga að hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og miða að því að uppfylla markmið sem fram koma í sóknaráætlun. Um er að ræða samningsbundin verkefni. Aðgerðahluti sóknaráætlunar er grunnur að vali og skilgreiningu áhersluverkefna.
Hér á eftir verða listuð upp þau áhersluverkefni sem ráðist hefur verið í frá og með 2015 á grundvelli gildandi samnings um sóknaráætlun 2015 – 2019. Öll verkefnin svara með afgerandi hætti áherslum sem fram koma í aðgerðahluta sóknaráætlunar. Upptalning á markmiðum verkefna er ekki tæmandi. Hægt er að kynna sér áhersluverkefnin á heimasíðu Eyþings. Þeim verkefnum sem nú standa yfir verður lokið í síðasta lagi fyrir lok árs 2019 en nokkrum þeirra verður lokið í ár. 

Áhersluverkefni í gangi:

  1. SinfoniaNord – þjónusta og upptaka á sinfónískri tónlist í Hofi. Meginmarkmið er að skapa fjölbreyttara atvinnu- og menningarlíf á svæðinu með nýrri starfsemi. Upphæð 19.000.000 kr. Samþykkt árið 2018. Framkvæmdaaðili: Menningarfélag Akureyrar (Mak).
  2. Okkar áfangastaður – markaðsgreining fyrir Norðurland. Meginmarkmið er að styrkja samkeppnisstöðu Norðurlands með markvissri og faglegri uppbyggingu og markaðssetningu ferðaþjónustu landshlutans. Upphæð 12.500.000 kr. Samþykkt árið 2018. Framkvæmdaaðili: Markaðsstofa Norðurlands.
  3. Innviðagreining á Norðurlandi eystra. Meginmarkmið er að efla samkeppnishæfni landshlutans. Upphæð 8.000.000 kr. Samþykkt árið 2018. Framkvæmdaaðili: Atvinnuþróunarfélögin.
  4. Framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurland. Meginmarkmið er að leysa meðhöndlun og förgun úrgangs/sorps á Norðurlandi með hagkvæmum og umhverfisvænum hætti. Upphæð 5.500.000 kr. Samþykkt árið 2018. Framkvæmdaaðili: Eyþing og SSNV auk ráðgjafarfyrirtækis.
  5. Ungt og skapandi fólk. Meginmarkmið er að auka samkeppnishæfni landshlutans fyrir ungt fólk. Upphæð 4.000.000 kr. Samþykkt árið 2018. Framkvæmdaaðili: N4
  6. Menntunarþörf og tækifæri eftir starfssviðum og greinum á Norðurlandi eystra. Meginmarkmið er að greina menntunarþarfir og tækifæri eftir starfssviðum og greinum bæði hvað varðar grunn- og framhaldsmenntun. Upphæð 6.000.000 kr. Samþykkt árið 2018. Framkvæmdaaðili: RHA.
  7. Samstarf um fjölnýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra. Meginmarkmið er að auka og bæta nýtingu orkuauðlinda landshlutans. Upphæð 9.000.000 kr. Samþykkt árið 2016-18. Framkvæmdaaðili: Eimur.
  8. Þróun og ráðgjöf í menningarmálum. Meginmarkmið er að starfandi verði verkefnisstjóri menningarmála sem sinni þróun og ráðgjöf í menningarmálum. Upphæð 11.225.000 kr. Samþykkt árið 2015-19. Framkvæmdaaðili: Eyþing.
  9. GERT. Meginmarkmið er mæta þörfum vinnumarkaðarins fyrir vel menntað starfsfólk á sviði raunvísinda og tækni. Upphæð 9.000.000 kr. Samþykkt árið 2017. Framkvæmdaaðili: Atvinnuþróunarfélögin.
  10. Smávirkjanakostir á Norðurlandi eystra. Meginmarkmið er að kanna möguleika á aukinni sjálfbærni í raforkunotkun með smávirkjunum. Upphæð 6.500.000 kr. Samþykkt árið 2017. Atvinnuþróunarfélögin.
  11. Raforkuöryggi á Norðurlandi eystra. Meginmarkmið er að greina framboð og eftirspurn eftir raforku á Norðurlandi eystra. Upphæð 5.000.000kr. Samþykkt árið 2017. Framkvæmdaaðili: Atvinnuþróunarfélögin.
  12. Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Meginmarkmið er að stuðla að heildstæðri stefnu um ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Upphæð 9.000.000 kr. Samþykkt árið 2016. Verkefnisáætlun var unnin en verkefninu síðan frestað 2017. Framkvæmdaaðili: Eyþing. 

Áhersluverkefnum sem er lokið:

  1. Uppbyggingaráætlun fyrir Akureyrarflugvöll. Meginmarkmið er að bæta aðstöðu á Akureyrarflugvelli til að geta þjónað millilandaflugi og þjónað sem varaflugvöllur. Upphæð 3.500.000 kr. Samþykkt árið 2018. Framkvæmdaaðili: Eyþing í samstarfi við ráðgjafafyrirtæki.
  2. Kostir og gallar sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna. Meginmarkmið er að draga fram kosti og galla þess að sameina félögin. Upphæð 3.500.000 kr. Samþykkt árið 2017. Framkvæmdaaðili: RHA.
  3. Norðurland – Hlið inn í landið. Meginmarkmið er að koma á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll til lengri tíma. Upphæð 15.000.000 kr. Samþykkt árið 2015. Framkvæmdaaðili: Markaðsstofa Norðurlands
  4. Skapandi skólastarf. Meginmarkmið er að vinna framkvæmdaáætlun í skapandi skólastarfi, ásamt tilraunaverkefni. Upphæð 3.500.000 kr. Samþykkt árið 2015. Framkvæmdaaðili: Háskólinn á Akureyri.
  5. Birding Iceland. Meginmarkmið er þróun og kynning á fuglaskoðun á Norðurlandi. Upphæð 3.253.000 kr. Samþykkt árið 2015. Framkvæmdaaðili: Markaðsstofa Norðurlands.
  6. Grunngerð og mannauður. Meginmarkmið er að til verði gagnagunnur um grunngerð og mannauð í menningu. Upphæð 3.000.000 kr. Samþykkt árið 2015. Framkvæmdaaðili: Eyþing.
  7. Matartengd ferðaþjónusta. Meginmarkmið er uppbygging matartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi. Upphæð kr. 2.000.000 kr. Samþykkt árið 2015. Framkvæmdaaðili: Markaðsstofa Norðurlands.

Eyþing stóð fyrir málþingi um áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra þann 15. maí sl. þar sem flest áhersluverkefnin voru kynnt og farið yfir markmið þeirra. Mikil ánægja var með málþingið.
Þess skal að lokum getið að innanríkisráðherra veitti sl. haust 15 mkr. til  sérstaks áhersluverkefnis vegna undirbúnings samningagerðar  í tengslum við stórskipahöfn í Finnafirði. Eyþing gerði samninga um verkefnið og annaðist greiðslur. 

Greinargerð til stýrihóps Stjórnarráðsins. Eyþing skilaði ítarlegri greinargerð til stýrihópsins um framkvæmd samningsins um sóknaráætlun á árinu 2017. Stýrihópurinn tók líkt og árið áður saman mjög áhugaverða skýrslu þar sem dregnar eru saman upplýsingar úr einstökum landshlutum. 

2. Almenningssamgöngur.
Erfiðleikar í rekstri almenningssamgangna hafa kallað á mikla vinnu allt frá því að Eyþing tók við verkefninu í kjölfar útboðs í ársbyrjun 2013. Í fyrstu virtust rekstrarerfiðleikar að mestu vera bundnir við Eyþing. Undanfarin ár hefur vandinn farið ört vaxandi í öðrum landshlutum og vandinn því sameiginlegur. Af því leiddi að málið var sett í sameiginlegan farveg af hálfu landshlutasamtakanna. Settur var á fót þriggja manna starfshópur þeirra til að fara ofan í saumana á rekstri almenningssamgangna og leiða viðræður við ríkið um lausn á uppsöfnuðum vanda og framtíðarlausn. Formaður Eyþings var skipaður í starfshópinn ásamt framkvæmdastjórum SSV og SASS. Starfshópurinn hefur þegar unnið m.a. í samræmingu upplýsinga frá einstaka landshlutasamtökum ásamt því að þrýsta á viðbrögð af hálfu ríkisins.
Samningar við Vegagerðina um rekstur almenningssamgangna renna út um næstkomandi áramót. Með bréfi dags. 7. mars sl. sagði Eyþing samningnum upp, en ella hefði hann framlengst um tvö ár.
Tvær leiðir eru reknar af Eyþingi innan landshlutans: Leið 78 (milli Akureyrar og Siglufjarðar) og leið 79 (milli Akureyrar og Húsavíkur). Þá eru tvær leiðir milli landshluta reknar í samstarfi með öðrum landshlutasamtökum: Leið 56 (milli Akureyrar og Egilsstaða) og leið 57 (milli Akureyrar og Reykjavíkur).
Á árunum 2013 – 2015 varð niðurstaðan sú að Vegagerðin ákvað að brúa bilið þannig að Eyþing gæti staðið við samninga við akstursaðila. Í árslok 2015 var skuldin við Vegagerðina orðin um 59 milljónir. Ákveðin kaflaskil verða árið 2016 en þá var veitt 75 mkr. aukaframlagi til almenningssamgangna og sömu upphæð árið 2017. Í hlut Eyþings komu 37 mkr. bæði árin og sömuleiðis nú í ár en í heild nemur viðbótarframlagið í ár 150 mkr. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 er áfram gert ráð fyrir 150 mkr. aukaframlagi og því til viðbótar liðlega 160 mkr. Ljóst er sú upphæð nægir ekki til að greiða uppsafnaðan halla landshlutasamtakanna vegna almenningssamgangna. Í árslok 2017 nam skuld Eyþings við Vegagerðina um 42 mkr. Þess ber einnig að geta að Eyþing varð að leggja fé úr eigin sjóði inn í reksturinn árið 2013 og vegna versnandi afkomu af leið 57 (Akureyri+Reykjavík) hefur myndast skuld við SSV. Krafa Eyþings er að heildarskuldin verði gerð upp.
Samgönguráðuneytið hefur nú boðað til fundar 24. september um stöðu samninga og hugmyndir að nýju rekstrarfyrirkomulagi almenningssamgangna á landsbyggðinni. Jafnframt verður kynnt ný skýrsla um almenningssamgöngur milli byggða sem gert er ráð fyrir að leggi grunn að nýrri stefnu í almenningssamgöngum. Eins og við má búast er þessa fundar beðið með nokkurri eftirvæntingu. 

3. Menningarmál.
Eins og annars staðar er vikið að þá kom verkefnisstjóri menningarmál til fullra starfa í ársbyrjun en hafði áður komið tímabundið í tengslum við umsóknarferli uppbyggingarsjóðs. Hennar megin viðfangsefni, auk þess að byggja upp sitt tengslanet, hefur verið ráðgjöf og eftirfylgni við menningarhluta uppbyggingarsjóðs, verkefnið Creative Momentum og Grunngerð og mannauður (gagnagrunnur í menningu, sjá áhersluverkefni).
Verkefninu Creatvie Momentum lauk í maí 2018 en unnið verður áfram með nokkur verkefni sem sköpuðust í gegnum verkefnið. Þar má helst nefna snjallsímaforritið Creative Trails: Lista- og menningaslóð sem nær yfir allt Norðurland, Creative Business Model Toolkit: Viðskiptalíkan fyrir rekstur skapandi greina og Economic & Social Impact Assessment - North East Iceland Creative Sector: Innviðagreining á efnahagslegum og félagslegum áhrifum skapandi greina á Norðurlandi eystra.
Lokið hefur verið við gagnagrunninn Grunngerð og mannauður, sem var áhersluverkefni hjá Eyþingi 2015, og mun hann verða aðgengilegur almenningi á heimasíðum Eyþings og SSNV í lok september 2018. Einnig verður í boði fyrir þau sveitarfélög sem þess óska að birta gagnagrunninn á heimasíðum sínum. Gagnagrunninum er ætlað að veita aðgang að upplýsingum um alla menningarstarfsemi á Norðurlandi. Gagnagrunnurinn krefst reglulegrar uppfærslu og verður það í höndum verkefnisstjóra menningarmála Eyþings og atvinnuráðgjafa Norðurlands vestra að halda utan um grunninn.
Þá ber þess að geta að í lok ágúst fór  verkefnisstjóri í tveggja daga menningarleiðangur um Þingeyjarsýslur ásamt ráðgjafa Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Einnig ber að geta að verkefnisstjóri stóð fyrir kynningu á gerð viðskiptalíkans fyrir skapandi fyrirtæki í samstarfi við NMÍ á hátíðinni Lýsu í Hofi. 

4. Vaðlaheiðargöng.
Eyþing er hluthafi í Greiðri leið ehf. ásamt öllum sveitarfélögum í landshlutanum og nokkrum fyrirtækjum, alls 23 hluthafar. Hlutur Eyþings nemur alls 5.423.037 kr. Því skal haldið til haga að verkefnið um Vaðlaheiðargöng er sprottið upp úr mikilli vinnu á vettvangi Eyþings sem formlega hófst árið 2002.
Þeir aðilar sem standa að Greiðri leið tóku að sér skuldbindingar vegna lánasamnings Vaðlaheiðarganga hf. um árlega 40 mkr. aukningu hlutafjár til og með árinu 2017. Þeim lokaáfanga hefur nú verið náð. Hlutur Greiðrar leiðar ehf. í Vaðlaheiðargöngum hf. nemur nú 396 milljónum af 600 milljón kr. heildarhlutafé.
Framkvæmdastjóri Eyþings gegnir formennsku í Greiðri leið og situr í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. fyrir hönd hluthafa í Greiðri leið. Samkvæmt nýgerðu samkomulagi milli Vaðlaheiðarganga hf og verktakans, Ósafls, er þess nú vænst að göngin verði opnuð fyrir umferð 1. desember nk. 

5. Fulltrúaráð Eyþings.
Formlegur fulltrúaráðsfundur hefur ekki verið haldinn á starfsárinu. Áformað var að halda fulltrúaráðsfund í apríl sl. en horfið var frá því þar sem of stutt þótti til sveitarstjórnarkosninga.
Samráðsfundur var á hinn bóginn haldinn 7. september sl. þar sem boðaðir voru fulltrúar allra sveitarfélaga. Til umfjöllunar voru tvö stór málefni, annars vegar staða og framhald almenningssamgangna og hins vegar erindi stjórnar AFE um viðræður um samrekstur Eyþings og AFE.  Ekki er hægt að skipa í fulltrúaráð fyrr en að loknum aðalfundi Eyþings þar sem kosið er til stjórnar, en stjórnarmenn eru sjálfkjörnir í fulltrúaráð.
Hlutverk fulltrúaráðs er að vera stjórn til ráðgjafar og að vera farvegur fyrir gagnkvæma upplýsingamiðlun. 

6. Fjölmenningarstefna.
Fyrir um ári síðan samþykkti stjórn Eyþings endurskoðaða fjölmenningarstefnu. Hún er aðgengileg á heimasíðu Eyþings. Nokkuð hefur verið spurst fyrir um stefnuna. Kynningar- og umræðufundir eru áformaðir síðar í haust á nokkrum stöðum með fulltrúum sveitarfélaga. Sérstök áhersla er á að ábyrgðaraðilar innflytjendamála hjá sveitarfélögunum mæti á fundina. 

7. Kynning á Eyþingi.
Talsverð umræða hefur verið um að þörf sé á að kynna hlutverk og starfsemi Eyþings og þá sérstaklega fyrir nýjum sveitarstjórnarfulltrúum. Útbúið hefur verið kynningarefni og var áformað að boða til funda á nokkrum stöðum þar sem starfsmenn skýrðu í sameiningu frá starfseminni og svöruðu fyrirspurnum. Af ófyrirséðum ástæðum hefur verið ákveðið að fresta  þeim fundum í bili. 

8. Raforkumál.
Eitt af þremur forgangsmálum sem fram komu við gerð sóknaráætlun landshlutans var raforkumál. Eðli málsins samkvæmt hlýtur pólitískur samráðsvettvangur landshlutans að láta sig málið varða og beita sér gagnvart stjórnvöldum fyrir auknu raforkuöryggi. Gott samstarf hefur verið við atvinnuþróunarfélögin sem m.a. birtist í tveimur áhersluverkefnum um raforkumál. Þá á formaður Eyþings sæti í verkefnaráði vegna Hólasandslínu 3. 

9. Ýmsir fundir og verkefni
Framkvæmdastjóri, og eftir atvikum aðrir starfsmenn og formaður hafa sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni. Hér er einungis nokkurra getið.
Verkefnastjóri Eyþings sat ráðstefnu um persónuvernd og fund fyrir hönd Eyþings um umsóknargátt uppbyggingarsjóðs. Framkvæmdastjóri sat lokafundi í verkefninu Raufarhöfn og framtíðin sem var eitt af verkefnum Brothættra byggða. Framkvæmdastjóri sat í stjórn verkefnisins auk þess að sitja í stjórn verkefnisins Öxarfjörður í sókn sem enn stendur yfir. Þá átti framkvæmdastjóri sæti í verkefnisstjórn DMP (áfangastaðaáætlun) fyrir Norðurland en því verkefni er nú lokið. Framkvæmdastjóri og verkefnastjóri sóttu fund Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn á Norðurlandi og áttu fund með nemendum úr Háskólanum á Akureyri um sóknaráætlun. Framkvæmdastjóri sótti ársfund Byggðastofnunar og fund Byggðastofnunar og atvinnuþróunar sem haldinn var um sama leyti. Hann tók í ágúst sl. þátt í svokölluðu sviðsmyndaverkstæði um framtíð íslensks landbúnaðar. Hann tók einnig þátt í fundi Byggðastofnunar um stórt rannsóknarverkefni sem er að hefjast og lýtur að orsökum búferlaflutninga. 

10. Aðsend þingmál.
Á dagskrá stjórnar komu 28 þingmál til umsagnar. Haft var samráð við Samband ísl. sveitarfélaga í nokkrum tilvikum. Þá tók stjórnin nokkur mál til ítarlegrar umfjöllunar. Meðal mála sem stjórnin veitti umsögn um var tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024, tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Umsagnirnar í heild sinni er að finna í fundargerðum stjórnar. 

11.  Samgönguáætlun.
Samgöngumál hafa alla tíð verið eitt af veigameiri málum á borði Eyþings enda landshlutasamtökin formlegir samstarfsaðilar við mótun samgönguáætlunar. Samgönguráð hélt fund með fulltrúum Eyþings þann 28. febrúar sl. á Akureyri. Fyrir hönd Eyþings var fulltrúaráð þess boðað á fundinn. Þátttaka var góð og umræður gagnlegar. Fulltrúum sveitarfélaganna gafst þar kostur á að skýra sjónarmið sín. Af hálfu Eyþings voru ítrekaðar þær áherslur sem fram komu í ályktun aðalfundar 2017 og þá forgangsröðun sem fram kemur í sóknaráætlun. Formaður og framkvæmdastjóri sátu Samgönguþing 2018 sem haldið var 21. júní sl. í Reykjavík. 

12.  Starfsmannamál
Þrír starfsmenn hafa verið í fullu starfi hjá Eyþingi frá s.l. áramótum en Vigdís Rún Jónsdóttir verkefnisstjóri menningarmála kom til starfa í ársbyrjun. Áður hafði hún komið tímabundið til starfa í nóvember og desember vegna ráðgjafar við uppbyggingarsjóð.
Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri annast greiðslu reikninga fyrir Eyþing og sér um fjármál og umsýsla uppbyggingarsjóðs auk annarra verkefna í samstarfi við framkvæmdastjóra. Má þar t.d. nefna yfirferð og umsagnir þingmála.
Nú skömmu fyrir aðalfund fór framkvæmdastjóri í ótímabundið veikindaleyfi.
Á vinnufundi framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna í maí sl. var ákveðið að ráðast í vinnu við sameiginlegan grunn að mannauðsstefnu. Ítrekað höfðu komið upp dæmi sem sýndu þörf á slíkri stefnu með ýmsum viðmiðunarreglum sem tækju mið af mikilvægu og vaxandi stjórnsýsluhlutverki landshlutasamtakanna. Mannauðsstefnan var unnin í nánu samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga og hafa landshlutasamtökin eitt af öðru verið að taka stefnuna upp. Þar á meðal Eyþing sem staðfesti mannauðsstefnuna í júní sl. 

13. Uppgjör við Brú lífeyrissjóð
Um sl. áramót bárust greiðendum í Brú lífeyrissjóð kröfur um uppgjör lífeyrisskuldbindinga skv. lögum nr. 127/2016. Heildarkrafa á Eyþing nam tæpum 32 mkr. Samkomulag náðist við sjóðinn um leiðréttingu á viðmiðunarupphæð og að í stað uppgjörs á svokölluðum lífeyrisauka yrði greitt 4,5% viðbótariðgjald vegna starfsmanna. Jafnframt að upphæð í jafnvægissjóð og varúðarsjóð yrði gerð upp. Sú upphæð nam tæpum 7,2 mkr. og var innheimt af aðildarsveitarfélögunum. Hefði lífeyrisaukinn einnig komið til innheimtu hefði til viðbótar þurft að innheimta um 17,2 mkr. eða alls um 24,4 mkr. og því farsæl lausn fyrir sveitarfélögin að lífeyrisaukinn sé fullnustaður jafnóðum með viðbótariðgjaldi. 

14. Úttekt á innra starfi Eyþings
Á aðalfundi 2017 var samþykkt tillaga frá Siggeiri Stefánssyni um að farið yrði í rýni og greiningu á innra starfi Eyþings. Stjórnin ákvað að semja við Róbert Ragnarsson um verkið. Hann mun gera grein fyrir verkefninu og helstu niðurstöðum  á aðalfundinum. 

15. Samstarf við þingmenn
Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að átt gott samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um málefni landshlutans. Eyþing hefur að venju annast skipulagningu funda í svokallaðri kjördæmaviku þingmanna. Síðastliðinn vetur var hún um miðjan febrúar. Áformaður var þá sameiginlegur fundur stjórna Eyþings og SSA með þingmönnum en fella varð fundinn niður vegna veðurs. Tveir fundir voru hins vegar haldnir með sveitarstjórnarmönnum í landshlutanum, annars vegar á Húsavík og hins vegar á Akureyri dagana 13. og 14. febrúar. Þetta var annað árið í röð sem þessi háttur var hafður á í stað viðtala við forsvarmenn einstakra sveitarfélaga. Svo virðist sem góð sátt sé um þetta fyrirkomulag sem þykir varpa skýrara ljósi á helstu hagsmunamál sveitarfélaganna og landshlutans í heild. Að auki áttu formaður og framkvæmdastjóri fund með þingmönnum um helstu mál á vettvangi Eyþings. 

16. Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök
Margháttað samstarf var við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samband ísl. sveitarfélaga, önnur landshlutasamtök sveitarfélaga á síðasta starfsári og sama á við um stýrihóp Stjórnarráðsins og Byggðastofnun. Þau samskipti hafa m.a. tengst sóknaráætlunum landshluta, brothættum byggðum og almenningssamgöngum. Samskipti þessara aðila er þó á kosningaári með nokkuð öðrum hætti en venja er og birtist m.a. í því að minna er um formlega fundi.
Að venju hafa verið margvísleg samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis málefni. Nefna má  samskipti við Guðjón Bragason lögfræðing sambandsins, einkum í tengslum við þingmál. Þá ber þess að geta að framkvæmdastjóri sambandsins situr fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna þannig að mjög góð tengsl hafa skapast milli þessara aðila.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir. Framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna höfðu vinnufund í maí til að skiptast á upplýsingum og deila reynslu um ýmis hagnýt mál. M.a. var rætt um starfsmannamál og gerð sameiginlegrar mannauðsstefnu, starfsreglur stjórna, stjórnskipulag og þóknanir vegna uppbyggingarsjóða. Sumarfundur formanna og framkvæmdastjóra var haldinn 6. og 7. júní á Hótel Glym í Hvalfirði. Á fundinum var umfjöllun um almenningssamgöngur, sóknaráætlanir og samspil við byggðaáætlun. Rætt var um nýja samninga um sóknaráætlun en núgildandi samningar renna út í árslok 2019. Einnig var umræða um þörf á skýrari lagaumgjörð um starfsemi landshlutasamtaka, auk þess sem rædd voru nokkur mál á vettvangi Sambands ísl. Sveitarfélaga og einstakra landshluta. Farið var í kynnisferðir, annars vegar í Borgarfjörð þar sem áhersla var á uppbyggingu í ferðaþjónustu og hins vegar á Akranes þar sem metnaðarfull uppbyggingaráform sveitarfélagsins voru kynnt. 
Formenn landshlutasamtakanna, fjórir í senn, skiptast á að vera aðalfulltrúar á sveitarstjórnarvettvangi EFTA tvö ár í senn. Formaður Eyþings lauk sínu tímabili á fundi sem haldinn var í Reykjavík í lok júní. Að jafnaði hafa fundir verið haldnir tvisvar á ári. Á fundinum í júní voru fjögur málefni sérstaklega til umræðu, þ.e. fækkun og sameining sveitarfélaga í Noregi, umhverfismál, jafnréttismál og áhrif Brexit. 

17. Starfsemi Eyþings og stoðstofnana
Eyþing hefur eins og þegar hefur komið fram átt margvíslegt og gott samstarf við svokallaðar stoðstofnanir sveitarfélaga, þ.e. atvinnuþróunarfélögin tvö og Markaðsstofu Norðurlands. Um árabil hefur verið umræða um samstarf og/eða mögulega sameiningu, einkum Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna. Nú síðast kom málið til alvarlegrar umræðu  í kjölfar skýrslu sem RHA vann fyrir Eyþing og var til umfjöllunar á síðasta ári. Sem kunnugt er tókst ekki að þoka málinu áfram þá. Nú liggur hins vegar tillaga fyrir aðalfundi í kjölfar erindis frá stjórn AFE, um viðræður um sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna. Væntingar eru um að þær viðræður muni leiða af sér samstarf/sameiningu þessara stoðstofnana sveitarfélaga. Áþekk þróun hefur verið í öðrum landshlutum, nú síðast á Vestfjörðum þar sem stoðstofnanir sveitarfélaga voru sameinaðar undir hatti Vestfjarðastofu. 

18. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (HNE)
Að venju verður gerð grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna sem síðast var endurskoðaður árið 2010. 

19.  Aðalfundur Eyþings 2018
Kjörnir fulltrúar á aðalfundi Eyþings eru 40 talsins úr 13 sveitarfélögum með alls 30.506 íbúa m.v. 1. desember 2017 (voru 29.681 árið 2016). Sveitarfélögin eru sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar. Fámennasta sveitarfélagið var með 58 íbúa og það fjölmennasta með 18.789 íbúa. Samtals starfa 85 sveitarstjórnarmenn á starfssvæði Eyþings. Eftir kosningar í vor eru 46% þeirra konur og nýliðar eru 52%.
Efnistök aðalfundarins taka mið af því að við erum stödd í upphafi nýs kjörtímabils. Sérstök áhersla er á að horfa til næstu fjögurra ára og skýra hlutverk Eyþings og áherslur þess fyrir kjörtímabilið. Sú vinna verður í höndum þingfulltrúa. Slík starfsáætlun hefur ekki fyrr verið unnin fyrir kjörtímabilið en þess er vænst að hún geri starf Eyþings markvissara og um það ríki sátt.
Framsöguerindi eru þrjú talsins. Fyrst er kynning á uppbyggingaráætlun fyrir Akureyrarflugvöll sem unnin var sem áhersluverkefni innan Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Verkefnið tengist beint einu af þremur brýnustu hagsmunamálum landshlutans sem fram koma í Sóknaráætlun. Þá er kynning á innri úttekt sem gerð var á Eyþingi í samræmi við tillögu sem samþykkt var á aðalfundi 2017. Loks er erindi sem fjallar um styrkingu sveitarstjórnarstigsins en vænta má þess að það málefni verði til umfjöllunar á Landsþingi Sambands ísl. Sveitarfélaga í næstu viku. Full þörf er á að málið sé rætt á vettvangi sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi eystra. Þá er að venju gert ráð fyrir ávörpum frá helstu samstarfsaðilum Eyþings.

Stjórn Eyþings þakkar sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir áfram góðs samstarfs. 

Akureyri 21. september 2018
Stjórn Eyþings.

Getum við bætt síðuna?