Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 31.01.2012

31.01.2012
Stjórn Eyþings
227. fundur

Árið 2012, þriðjudaginn 31. janúar, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Fundur hófst kl. 14:00.
Þetta gerðist helst.
 

 

1. Málefni Menningarráðs Eyþings.
Undir þessum dagskrárlið mættu fulltrúar Menningarráðsins, þau Arnór Benónýsson, Bjarni Valdimarsson og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.
(a) Starfsemi og starfsreglur ráðsins.
Stjórnin tekur undir mikilvægi þess að ráðið fylgi skýrum reglum í störfum sínum, bæði verkalagsreglum og úthlutunarreglum.
(b) Færsla fjármagns af safnliðum fjárlaga til Menningarráðs.
Lagðir voru fram minnipunktar frá Menningarráðinu. Í þeim er m.a. gerð grein fyrir þeim verkefnum í landshlutanum sem flutt eru til Menningarráðsins og fengu framlag á fjárlögum 2011, samtals að fjárhæð 21,9 mkr. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur skipt fjármagni vegna verkefna á árinu 2012 milli landshluta og í hlut Menningarráðs Eyþings koma 12,4 mkr. sem er 43% skerðing frá árinu áður. Þetta er andstætt því sem kynnt var um að tilflutningur verkefna af fjárlögum ætti ekki að hafa áhrif til lækkunar á svæðinu umfram þá lækkun sem yrði á fjárlagaliðnum í heild.
Óskað hefur verið eftir fundi með ráðherra um framtíð verkefna sem flutt eru til menningarráðs og er stefnt að því að formaður Eyþings mæti á þann fund ásamt fulltrúum Menningarráðs. Meðal annars er mikilvægt að fá upplýsingar um það fjármagn sem fluttist frá fjárlaganefnd til ráðuneytisins og skilgreiningu á því hvernig verkefnum er skipt milli sjóða ráðuneytisins og menningarráðanna. Málið verður jafnframt tekið upp á fundi stjórnar með þingmönnum kjördæmisins 3. febrúar nk.
Fulltrúar Menningarráðs yfirgáfu fundinn kl. 14:50.

 

2. Sóknaráætlun.
Lögð voru fram ýmis gögn. Í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins frá 25. nóvember sl. um sóknaráætlanir landshluta kemur fram að 11 verkefni, þar af tvö af þeim verkefnum sem Eyþing lagði til, hafi verið samþykkt á fjárlög 2012. Um er að ræða verkefnin Norðurslóðamiðstöð Íslands og fjarskipti og gagnaflutninga.
Í tölvubréfi frá Héðni Unnsteinssyni og Stefaníu Traustadóttur, dags. 21. desember sl., er gerð grein fyrir flokkun á þeim 57 verkefnatillögum sem bárust frá landshlutasamtökunum. Auk þeirra 11 tillagna sem fyrr er getið falla 29 tillögur undir flokk II yfir góðar og vinnuhæfar tillögur – raunhæfar hugmyndir. Tillögur Eyþings sem ekki komust í fyrsta flokk falla hér undir, þ.e. uppbygging innviða vegna orkufreks iðnaðar, Sjúkrahúsið á Akureyri, flughlað á Akureyrarflugvelli og Dettifossvegur. Hvatt er til að landshlutasamtökin komi af stað samtali við viðkomandi ábyrgðarráðuneyti um þau verkefni.
Í tölvubréfi frá Héðni Unnsteinssyni, dags. 16. janúar, kemur m.a. fram að ábyrgðarráðuneytin muni halda utan um útfærslu verkefnanna í samvinnu við viðkomandi landshlutasamtök.
Lögð var fram frásögn af fyrsta fundi verkefnisstjórnar verkefnisins „Norðurslóðamiðstöðvar Íslands“ sem fram fór á Akureyri 19. janúar sl. Formaður og framkvæmdastjóri sátu fundinn.
Áformaður er fundur í innanríkisráðuneytinu á næstu vikum þar sem fara á ítarlega yfir þá reynslu sem þegar er fengin af vinnu við sóknaráætlanir landshluta og leggja línur um næstu skref. Stjórnin mun taka sóknaráætlunina til frekari umfjöllunar að honum loknum.

 

3. Undirbúningur fyrir fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis 3. febrúar.
Fundur stjórnar með þingmönnum hefur verið boðaður 3. febrúar nk. Farið var yfir mál sem rædd verða á fundinum. Bergur fór sérstaklega yfir áætlanir um uppbyggingu innviða í tengslum við áformaða atvinnuuppbyggingu á Bakka á vegum fyrirtækisins PCC.

 

4. Almenningssamgöngur.
Lagður var fram samningur milli Eyþings og Vegagerðarinnar, dags. 29. desember 2011, um almenningssamgöngur á Norðurlandi eystra. Einnig kynnt drög að samningum við verktaka sem áformað er að undirrita 3. febrúar. Samkvæmt þeim eru samningar sem verið hafa við Vegagerðina framlengdir út árið 2012. Á þeim tíma verður skipulag almenningssamgangna á svæðinu endurskoðað og akstur boðinn út. Sigurður Valur greindi frá að nefnd Eyþings um almenningssamgöngur væri að hefja störf á ný.

 

5. Aðgerðaáætlun Eyþings 2011 – 2012/Ályktanir aðalfundur 2011.
Farið var yfir þau atriði sem var frestað á síðasta fundi stjórnar. Aðalfundurinn fól stjórninni að setja á fót vinnuhóp til að stemma stigu við útbreiðslu skógarkerfils og bjarnarklóar á starfssvæðinu. Stjórnin samþykkir að skipa eftirtalda í vinnuhópinn:
Guðmund Sigvaldason sveitarstjóra, Hörgársveit
Brynhildi Bjarnadóttur líffræðing, Eyjafjarðarsveit
Bergþóru Kristjánsdóttur yfirlandvörð, Mývatnssveit
Stjórnin telur ekki tímabært að boða til aukafundar vegna sóknaráætlunar en mun taka hann til umfjöllunar þegar nýjar upplýsingar um framgang sóknaráætlunar liggja fyrir sbr. 2. dagskrárlið.

 

6. Þingmál.
(a) Tillaga til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu, 385. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/0498.html 
Lagt fram.

 

(b) Frumvarp til laga um frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins, 376. mál. www.althingi.is/altext/140/s/0452.html 
Lagt fram.

 

7. Málþing um eflingu sveitarstjórnarstigsins föstudaginn 10. febrúar á Akureyri.
Dagskrá málþingsins lögð fram.

 

8. Efni frá landshlutasamtökum sveitarfélaga.
Lögð var fram bókun framkvæmdaráðs Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) frá 22. janúar um framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Stjórnin tekur undir bókun SSA.

 

9. Önnur mál.
Pétur greindi frá boði á fund í iðnaðarráðuneytinu 1. febrúar  nk. vegna undirbúnings að gerð framkvæmdaáætlunar fyrir byggðaþróunarsjóð ESB. Lögð hefur verið áhersla á að landshlutasamtökin eigi fulltrúa í stýrihópi verkefnisins.
Þá greindi Pétur frá boði á fund 2. febrúar nk. um framtíðarsýn fyrir Akureyrarflugvöll og forgangsröðun úrbóta.

Fundi slitið kl. 16:35
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?