Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 31.01.2011

31.01.2011
Stjórn Eyþings
220. fundur
 
Árið 2011, mánudaginn 31. janúar, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Sigurður Valur Ásbjarnarson boðaði forföll og varamaður hans hafði ekki tök á að mæta. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 14:00.

 

Þetta gerðist helst.

 

 
1. Undirbúningur fyrir fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis.
Fundur stjórnar með þingmönnum hefur verið boðaður 7. febrúar nk. Farið var yfir mál sem rædd verða á fundinum.

 

2. Fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög í Eyjafirði.
(a) Bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, dags. 13. desember sl., með ábendingum við fjallskilasamþykktina.
Í bréfinu eru ábendingar varðandi drög að fjallskilasamþykkt sem samþykkt var á aðalfundi Eyþings 2010. Óskað er eftir að ábendingarnar verði teknar til umfjöllunar og fjallskilasamþykktin að því loknu send ráðuneytinu á ný til staðfestingar. Ekki er um að ræða efnislegar athugasemdir heldur ábendingar um að skýra viss ákvæði frekar.
(b) Fundargerð nefndar um endurskoðun fjallskilasamþykkta, dags. 21. janúar, 8. fundur.
Í fundargerðinni er greint frá umfjöllun nefndarinnar um ábendingar ráðuneytisins og þeim breytingum sem nefndin leggur til á fjallskilasamþykktinni í kjölfarið. Einnig voru lögð fram drög að nýrri fjallskilasamþykkt með þeim breytingum.
Framkvæmdastjóra var falið að senda ráðuneytinu samþykktina til staðfestingar.

 

3. Bréf frá svæðisráði málefna fatlaðra á Norðurlandi eystra, dags. 17. nóvember, með bókun ráðsins varðandi færslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga.
Stjórnin þakkar góðar ábendingar, s.s. varðandi hlutverk trúnaðarmanns fatlaðra,  og mun koma þeim á framfæri eftir því sem við verður komið. Samþykkt var að framsenda erindið til félagsmálastjóra á svæðinu.

 

4. Bréf frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, dags. 21. desember, með ósk um tilnefningu eins fulltrúa Eyþings í vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra.
Óskað er eftir að tilnefnd verði bæði karl og kona í samræmi við ákvæði 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Ráðherra skipar þann fulltrúa í ráðið sem tryggir sem jafnasta kynjaskiptinu.
Samþykkt var að tilnefna eftirtalin:
Höllu Björk Reynisdóttur, bæjarfulltrúa Akureyri
Marinó Þorsteinsson, varabæjarfulltrúa Dalvíkurbyggð.

 

5. Drög að nýjum menningarsamningi fyrir árin 2011 – 2013.
Farið var yfir nokkrar ábendingar og athugasemdir sem framkvæmdastjóri og menningarfulltrúi hafa gert við drögin.
Stjórnin lýsir ánægju með drögin sem eru einföld og skýr en vill koma á framfæri nokkrum ábendingum sem framkvæmdastjóra er falið að senda mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Stjórnin gerir ekki athugasemdir við tillögu ráðuneytisins að skiptingu framlaga milli landshluta þó æskilegt hefði verið að forsendur útreikninga, eða mats, kæmu skýrar fram. Þá telur stjórnin mikilvægt að áfram verði höfð að leiðarljósi þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar í upphafi þegar ákveðið var að ráðast í gerð menningarsamninga.

 

6. Til kynningar.
(a) Námskeið Skipulagsstofnunar og Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri 1. febrúar nk. um skipulagsmál fyrir kjörna fulltrúa.
(b) Kynningarfundur Skipulagsstofnunar á Akureyri 3. mars nk. um ný skipulagslög, ný mannvirkjalög og drög að nýjum reglugerðum.

 

7. Úrskurður Skipulagsstofnunar og atvinnuuppbygging á Bakka (frestað á síðasta fundi).
Bergur gerði grein fyrir úrskurði Skipulagsstofnunar á grundvelli sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum fjögurra verkefna í Þingeyjasýslu sem birt var 24.  nóvember sl. Athugasemdirnar lúta einkum að annars vegar línulögnum og hins vegar byggingum, eða virkjunum, á stöðum þar sem engin mannvirki eru til staðar í dag. Að sögn Bergs eru framkvæmdaaðilar sáttir við niðurstöðu matsins og telja unnt að bregðast við þeim ábendingum sem þar koma fram.
Þá greindi Bergur frá fyrirhuguðum rannsóknarborunum Landsvirkjunar á svæðinu fyrir vel á annan milljarð króna. Einnig sagði hann frá viðræðum Landsvirkjunar við nokkra aðila um fjárfestingu á Bakka.

 

8. Kynning á námskeiði fyrir ungt fólk (áður á dagskrá 219. fundar).
Lagðar voru fram upplýsingar frá Pétri Guðjónssyni sem stendur fyrir námskeiðinu. Stjórnin hefur efasemdir um þá miklu þátttöku sem við er miðað og  telur að námskeiðinu verði ekki komið á nema með samstarfi við einstök sveitarfélög. Hún telur jafnframt rétt að kanna hug símenntunarmiðstöðvanna til verkefnisins.

 

9. Drög að frumvarpi til sveitarstjórnarlaga (einkum IX. kafli – 97. grein).
Umræða varð um nokkur ákvæði frumvarpsins og sérstaklega fjallað um 97. grein þess sem kveður á um landshlutasamtök sveitarfélaga. Stjórnin felur framkvæmdastjóra að koma á framfæri þeim sjónarmiðum sem rædd voru varðandi 97. grein.

 

10. Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag. Forsætisráðuneytið, janúar 2011.
Lögð var fram stefnumörkun fyrir Ísland til ársins 2020 sem nýlega var samþykkt í ríkisstjórn. Stefnumörkunin er afrakstur vinnu við sóknaráætlun fyrir Ísland  og felur í sér stefnumörkun með mælanlegum markmiðum um uppbyggingu atvinnulífs og samfélagsgæða næstu 10 árin. Í henni felst m.a. að unnar verði sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta sem fela í sér forgangsröðun og tillögugerð. Stjórn Eyþings lýsir sig reiðubúna að vinna áfram að framgangi þessa verkefnis.

 

11. Önnur mál.
(a) Starfsemi Ríkisútvarpsins (RÚV) á Norðurlandi.
Fram kom að nefnd til að móta tillögur um svæðisútsendingar á Norður- og Austurlandi mun koma saman í næstu viku. Umræða varð um ímynd svæðisins og mikilvægi fréttaflutnings í því samhengi. Eftirfarandi bókun var samþykkt í framhaldi:
Óskar Þór Halldórsson fréttamaður mun láta af störfum á starfsstöð RÚV á Akureyri nú um mánaðamótin. Að mati stjórnarinnar er hér um að ræða einn besta fréttamann sem svæðisstöðin hefur haft. Óskar Þór hefur með einstaklega vönduðum fréttaflutningi stuðlað að jákvæðri og málefnalegri umfjöllun um málefni Norðurlands. Brotthvarf hans úr starfi fréttamanns veldur því vonbrigðum og er það von stjórnar Eyþings að RÚV eigi eftir að njóta starfskrafta Óskars á ný og skorar á stjórnendur RÚV og Óskar að vinna að því.
Í þessu áliti stjórnarinnar felst engin gagnrýni á störf annarra starfsmanna RÚV.

 

(b) Erindi frá Leið ehf., dags. 20. janúar.
Vakin er athygli á afgreiðslu Skipulagsstofnunar  á þeim þætti sem snýr að Húnavallaleið (Svínavatnsleið) í aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010 – 2030.
Stjórn Eyþings ítrekar þá afstöðu sína að mikilvægt er að möguleikum til að leggja veg um Húnavallaleið verði haldið opnum.

Fundi slitið kl. 16:10
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?