Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 30.04.2010

30.04.2010
Stjórn Eyþings
212. fundur

Árið 2010, föstudaginn 30. apríl, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Ráðhúsinu á Svalbarðseyri. Mætt voru Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður, Árni K. Bjarnason, Marinó Þorsteinsson og Ólína Arnkelsdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Bergur Elías Ágústsson boðað forföll sem og varamaður hans. Þá mætti Ólafur G. Vagnsson á fundinn undir 1. lið dagskrár.
Fundur hófst kl. 13:40.

 

Þetta gerðist helst.

 

Formaður minntist Elísabetar Sigurðardóttur sem lést þann 11. mars sl. en hún sat í stjórn Eyþings á árunum 2006 – 2008. Stjórnin vottar aðstandendum Elísabetar samúð sína.
 
1. Fundargerðir nefndar um endurskoðun fjallskilasamþykkta, dags. 26. febrúar, 29. marsog 23. apríl, 5. - 7. fundur, ásamt tillögu nefndarinnar að nýrri fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög í Eyjafirði.
Ólafur G. Vagnsson formaður nefndarinnar mætti á fundinn og gerði grein fyrir starfi nefndarinnar og helstu breytingum sem nefndin gerði á fjallskilasamþykktinni.
Stjórnin þakkar nefndinni mjög gott starf. Framkvæmdastjóra falið að senda tillöguna út til sveitarfélaganna í Eyjafirði til kynningar og umræðu, en hún mun síðan tekin til endalegrar afgreiðslu af hálfu sveitarfélaganna á aðalfundi Eyþings í haust og í framhaldi send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

 

2. Fundur með fulltrúum stjórnar Ríkisútvarpsins ohf.
Fundi hefur verið frestað í tvígang en er nú áformaður þann 11. maí á Akureyri. Þóroddur Bjarnason prófessor við HA mun mæta á fundinn og fjalla um þjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins og mikilvægi svæðisbundinna frétta.

 

3. Erindi frá Birgi Guðmundssyni, dags. 5. febrúar, um nöfnin Hólaheiði og Hófaskarðsleið á nýrri leið yfir Melrakkasléttu (frestað á síðasta fundi).
Í erindinu leitar Birgir aðstoðar Eyþings við að kveða upp úr um nafn á hinni nýju leið.
Stjórn Eyþings telur Hófaskarðsleið sterkara auðkenni og því æskilegra heiti á hina nýju leið, enda það nafn sem í upphafi var notað um leiðina.

 

4. Bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, dags. 8. mars, um mat á sameiningarkostum sveitarfélaga.
Í bréfinu er mælst til að skipuð verði verkefnisstjórn til að ræða og meta sameiningarkosti í landshlutanum.
Formaður og framkvæmdastjóri héldu símafund með forsvarsmönnum sveitarfélaganna þann 14. apríl. Það var einróma niðurstaða á fundinum að rétt væri að skipa verkefnisstjórn með fulltrúum sveitarfélaganna. Í framhaldi óskaði framkvæmdastjóri eftir tilnefningu þeirra og hafa nú borist tilnefningar um aðal- og varamann frá öllum sveitarfélögunum að undanskildu einu. Framkvæmdastjóri mun kalla nefndina saman á næstu dögum.

 

5. Bréf frá Félagi áhugafólks um Heimafóðurverkefnið, dags. 22. mars, með ósk um fjárstuðning.
Stjórn Eyþings hafnar beiðninni og telur hana ekki samræmast hlutverki samtakanna. Stjórnin vísar til þess að sveitarfélögin hafa með sér samstarf innan atvinnuþróunarfélaga til að sinna verkefnum af þessum toga auk þess sem þau hafa þann möguleika að koma að verkefninu hvert um sig. Að mati stjórnarinnar er hér um áhugavert verkefni að ræða og lofsvert framtak.

 

6. Bréf frá Félagi ísl. atvinnuflugmanna (FÍA), dags. 23. mars, með ályktun félagsins um Reykjavíkurflugvöll og nýja samgöngumiðstöð.
Í bréfinu eru sveitarfélög hvött til þess að vinna að því að núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar verði til frambúðar auk þess sem samgönguyfirvöld eru hvött til að hefja nú þegar byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni.
Stjórn Eyþings tekur undir sjónarmið FÍA, enda í fullu samræmi við fyrri bókanir og ályktanir stjórnar og aðalfundar Eyþings.

 

7. Bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 8. apríl, um sveitarstjórnarvettvang innan EFTA, ásamt erindi frá Önnu Guðrúnu Björnsdóttur sviðsstjóra, dags. 21. apríl, með tillögu um fyrirkomulag á tilnefningu fulltrúa.
Farið var yfir hlutverk þessa nýja sveitarstjórnarvettvangs innan EFTA, en gert er ráð fyrir að fyrsti fundur hans verði í Reykjavík 22. og 23. júní nk.
Tilnefna þarf sex fulltrúa og jafnmarga til vara. Tillaga er um að Samband ísl. sveitarfélag tilnefni einn, Reykjavíkurborg tilefni einn og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefni fjóra. Þannig er gert ráð fyrir að landshlutasamtökin átta skipti með fjórum aðalmönnum  og fjórum varamönnum og að það verði formenn samtakanna á hverjum tíma sem verði fulltrúar.
Stjórn Eyþings tekur jákvætt í að skoða erindið og mun hafa samráð við hin landshlutasamtökin. Stjórnin telur að skoða þurfi hvort hægt er að lækka kostnað t.d. með því að fækka fulltrúum.

 

8. Þingmál.
(a) Frumvarp til skipulagslaga, 425. mál.

www.althingi.is/altext/138/s/0742.html
Stjórnin vísar til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

 

(b) Frumvarp til laga um mannvirki, 426. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/0743.html
Stjórnin vísar til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

 

(c) Frumvarp til laga um brunavarnir, 427. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/0744.html
Stjórnin vísar til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
 
(d) Frumvarp til laga um olíugjald og kílómetragjald, 333. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/0477.html 
Lagt fram.
 
(e) Tillaga til þingsályktunar um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna, 341. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/0611.html
Stjórnin mælir eindregið með samþykkt tillögunnar, sem er í fullu samræmi við samstarfssamning utanríkisráðuneytisins við Háskólann á Akureyri um að efla skólann sem miðstöð norðurslóðasamstarfs.

 

(f) Tillaga til þingsályktunar um lækkun rafmagnskostnaðar garðyrkjubænda, 193. mál. www.althingi.is/altext/138/s/0216.html 
Lagt fram.

 

(g) Frumvarp til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, 342. mál. www.althingi.is/altext/138/s/0613.html.
Lagt fram.

 

(h) Tillaga til þingsályktunar um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi, 358. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/0651.html 
Stjórn Eyþings hvetur til að tillagan verði samþykkt en vísar jafnframt til eftirfarandi bókunar frá síðasta fundi stjórnarinnar:
„Stjórnin styður heilshugar bókun sveitarstjórnar Norðurþings frá 23. febrúar 2010 þar sem því er beint til iðnaðarráðherra að hann hlutist til um að nú þegar verði hafist handa um framhald rannsókna á hugsanlegum kolvetnisauðlindum í Öxarfirði, Skjálfanda og hluta Eyjafjarðar.“

 

(i) Frumvarp til laga um almenningssamgöngur, 14. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/0014.html
Stjórn Eyþings gerir ekki athugasemdir við frumvarpið. Stjórnin vísar til eldri umsagnar sinnar við nær samhljóða frumvarp sem flutt var á 136. löggjafarþingi.

 

(j) Frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (skil á fjármálaupplýsingum), 452. mál. www.althingi.is/altext/138/s/0779.html
Stjórn Eyþings gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.

 

(k) Tillaga til þingsályktunar um jöfnun samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni með endurskoðun á reglum ÁTVR, 357. mál. www.althingi.is/altext/138/s/0650.html
Stjórn Eyþings mælir með samþykkt tillögunnar, enda aðkallandi að reglur um móttöku og dreifingu ÁTVR verði endurskoðaðar. Stjórnin minnir á eldri samþykktir Eyþings um jöfnun flutningskostnaðar.
 
(l) Frumvarp til lögreglulaga (fækkun lögregluumdæma o.fl.), 586. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/0977.html
Stjórn Eyþings tekur ekki afstöðu til frumvarpsins.

(m) Frumvarp til laga um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, 508. mál. www.althingi.is/altext/138/s/0895.html  
Stjórn Eyþings leggur áherslu á að 3. grein frumvarpsins verði breytt á þann veg að ein stjórn verði yfir allri starfsemi stofnunarinnar.
Starfsemi Fasteignaskrárinnar á Akureyri er dæmi um einkar vel heppnaða dreifða starfsemi ríkisstofnunar. Stjórnin hvetur til að það verði fellt inn í frumvarpið og lögfest að hluti starfseminnar verði utan höfuðborgarsvæðisins.
Að teknu tilliti til þessara ábendinga mælir stjórn Eyþings með samþykkt frumvarpsins og telur að það feli í sér hagræði fyrir sveitarfélögin.

 

9. Efni frá landshlutasamtökum sveitarfélaga.
Lagt fram.

 

10. Upplýsingar um vinnu að 20/20 Sóknaráætlun.
Formaður og framkvæmdastjóri gerðu grein fyrir stöðu verkefnisins, en ákveðin kaflaskil urðu 7. apríl með kynningu á megin niðurstöðum sóknaráætlana landshlutanna. Mikil vinna er framundan við frekari úrvinnslu.

 

11. Endurnýjun menningarsamnings.
Lögð voru fram drög að samningi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Einnig lagt fram erindi frá formanni Menningarráðs sem sent var ráðuneytinu 16. mars sl. með athugasemdum og ábendingum varðandi ákvæði um framlög sveitarfélaganna skv. samningsdrögunum. Framkvæmdastjóri óskaði eftir svari við erindinu í tölvupósti þann 23. apríl en svar hefur ekki borist.
Stjórn Eyþings telur óraunhæft að fara fram á stórfellda hækkun á framlögum sveitarfélaganna vegna yfirstandandi árs við núverandi efnahagsaðstæður og á sama tíma og ríkið sker niður framlög til samningsins. Ríkið mun greiða 25 millj. kr. til samningsins sem er 5 millj. kr. lækkun frá fyrra ári. Stjórnin tekur undir þær áherslur sem kynntar hafa verið á fundi í ráðuneytinu og koma fram í fyrrnefndu erindi formanns Menningaráðs Eyþings. Stjórnin óskar eftir því að  ráðuneytið taki mið af þeim áherslum við frágang samningsins.
Stjórnin tekur jafnframt undir bókun stjórnar SASS þann 26. mars sl. þar sem lögð er  áhersla á að við gerð næsta samnings á komandi hausti verði reglur um framlög sveitarfélaganna tekin til gagngerrar endurskoðunar. Að óbreyttum samningi munu framlög sveitarfélaganna hækka á sama tíma og framlög ríkisins lækka.

 

12. Fréttir af yfirfærslu málefna fatlaðra í landshlutann.
Fram kom að Dalvíkurbyggð á í viðræðum við SSNV um þjónustusamning, en Fjallabyggð er þegar með þjónustusamning við SSNV. Til skoðunar er að skilgreina svæði Eyþings að öðru leyti sem eitt þjónustusvæði með um 25 þúsund íbúum, þó þannig að þjónusta verði með óbreyttu sniði á tveimur undirsvæðum líkt og verið hefur, þ.e. Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Komið yrði á fót faglegu samstarfi svæðanna. Viðræður standa yfir milli sveitarfélagann um útfærslu verkefnisins.

13. Sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar. Niðurstaða kosninga 20. mars sl.
Í Arnarneshreppi voru 58,8% fylgjandi sameiningu en 41,2% andvíg.
Kjörsókn var 79,4%.
Í Hörgárbyggð voru 92,5% fylgjandi sameiningu en 7,5% andvíg.
Kjörsókn var 52,4%.
Með sameiningunni verður til liðlega 600 manna sveitarfélag.
Stjórn Eyþings lýsir yfir ánægju með niðurstöðu kosninganna.

 

14. Bréf frá formanni verkefnisstjórnar Rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða, dags. 8. mars, ásamt skýrslu með niðurstöðum fjögurra faghópa. Sjá www.rammaaetlun.is.
Lagt fram.

 

15. Aðalfundur Eyþings 2010.
Aðalfundurinn verður haldinn á Siglufirði. Stjórnin samþykkir að fundurinn verði haldinn dagana 8. og 9. október nk. í kjölfar opnunar Héðinsfjarðarganga.
 
Fundi slitið kl. 15:15.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?