Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 27.06.2016

16.08.2016

Árið 2016, mánudaginn 27. júní, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Karl Frímannsson og Sif Jóhannesdóttir. Hilma Steinarsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar hafði ekki tök á að mæta. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 16:05. 

Þetta gerðist helst. 

Formaður setti fund og óskaði eftir heimild stjórnar fyrir því að varaformaður stýrði fundinum, ásamt því að fela honum að undirbúa næsta fund stjórnar með framkvæmdastjóra. Stjórnin samþykkti þetta. 

Arnór Benónýsson varaformaður tók nú við fundarstjórn. 

  1. Ársreikningur Eyþings 2015, ásamt endurskoðunarskýrslu.

Níels Guðmundsson endurskoðandi hjá Enor mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið og var hann boðinn velkominn. Níels fór yfir ársreikninginn og svaraði fyrirspurnum ásamt framkvæmdastjóra.

Rekstartekjur ársins 2015 námu kr. 304,8 millj. samanborið við tekjur að fjárhæð kr. 303,2 millj. samkvæmt áætlun. Tekjur ársins 2014 námu kr. 253,4 millj. Frávik í tekjum frá áætlun eru í heild óveruleg þar sem frávikin ganga saman. Rekstrargjöld ársins námu kr. 331,1 millj. samanborið við gjöld að fjárhæð kr. 317,2 millj. samkvæmt áætlun. Helstu frávik koma fram í úthlutuðum styrkjum og uppgjöri vegna leiðar 57 í samgönguhlutanum. Rekstrarniðurstaða ársins 2015 var neikvæð um kr. 25,3 millj. samanborið við kr. 13,2 millj. neikvæða afkomu skv. áætlun.

Heildareignir í árslok 2015 námu kr. 145,4 millj. samanborið við kr. 119,3 millj. í ársbyrjun og hefur efnahagur sambandsins stækkað töluvert á síðustu tveimur árum. Eigið fé var í árslok neikvætt um kr. 69,6 millj. samanborið við kr. 44,3 millj. neikvæða stöðu í ársbyrjun. Uppsafnað tap samgönguhlutans var í árslok 2015 komið í um kr. 83,7 millj.

Hlutur Eyþings í áætluðum lífeyrisskuldbindingum hjá B-deild LSR vegna starfsmanna skólaþjónustu Eyþings hækkaði um 2,0 milljónir á árinu 2015 og nema nú tæpri 21 millj. kr.

Endurskoðandi fór í framhaldi yfir endurskoðunarskýrsluna. Vakti sér staklega athygli á tveimur atriðum til úrbóta á innra starfi. Annars vegar gerði hann grein fyrir tillögu um aðgreiningu og skiptingu starfa varðandi bókhald og meðferð fjármuna í tengslum við aukin umsvif  í kjölfar samnings  um sóknaráætlun.  Hinsvegar lagði hann áherslu á að ákvarðanir um einstök verkefni komi skýrt fram í fundargerðum og eins upplýsingar um það hvernig einstök verkefni skuli fjármögnuð. Hann vakti athygli á erlendu samstarfsverkefni sem ekki væri að finna samþykkt fyrir í fundargerðum. Varaformaður skýrði ástæður þess að þarna hefði orðið misbrestur á.

Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn með undirskrift sinni og vísar honum til aðalfundar. 

   2. Fundargerð sumarfundar landshlutasamtaka sveitarfélaga, dags 11. júní 2016, ásamt fylgiskjölum (ný byggðaáætlun, gjaldskrármál, ábyrgðir sveitarfélaga og landshlutasamtaka, „Ísland ljóstengt“ og hæfisreglur uppbyggingarsjóða).

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fundargerðinni en hann sat sumarfundinn. Hann nefndi einnig fund á vegum Byggðastofnunar sem haldinn var á Akureyri 9. júní sl. um undirbúning byggðaáætlunar 2017 – 2023.

Ekki náðist samþykki fyrir einföldun afsláttargjalda í strætó á fundinum en fulltrúum fjögurra landshlutasamtaka var falið að vinna málið áfram í samstarfi við Guðjón Bragason lögfræðing og fulltrúa Strætó bs.

Talsverð umræða spannst um minnisblað Guðjóns Bragasonar og Vigdísar Sveinsdóttur frá 7. júní um ábyrgðir sveitarfélag og landshlutasamtaka, m.a. vegna verkefnisins um almenningssamgöngur. Stjórnin er sammála um að minnisblaðið kalli á dýpri skoðun og umræðu en ýmis ný sjónarmið eru viðruð í minnisblaðinu.

Eins og fram kemur í fundargerðinni og fylgigögnum komu fram áhyggjur af því að byggðasjónarmið kæmust ekki að við úthlutun fjár til ljósleiðaravæðingar. Tryggja þurfi á sanngjarnan hátt að öll veikustu svæðin ljósleiðaravæðist ekki sjálfkrafa síðast. Rætt hefur verið um sértækan byggðapott í því sambandi. Annars er talið að árangur af úthlutun í ár hafi verið umfram væntingar.

Þá samþykkti stjórnin að vísa minnisblaði Guðjóns Bragasonar frá 7. júní, um sérstakt hæfi við styrkveitingar úr uppbyggingarsjóðum, til úthlutunarnefndar og fagráða. Stjórnin leggur áherslu á að hæfisreglur við meðferð umsókna séu vandaðar og skýrar. 

   3. Almenningssamgöngur.

Lögð voru fram svör Vegagerðarinnar í tölvupóstum frá 11. maí sl. við annars vegar umsókn um viðbótastyrk vegna rekstrarvanda og hins vegar við umsókn um þróunarverkefni.

Framkvæmdastjóri greindi frá stöðu einstakra verkefna. Unnið er að því að koma á akstri í tengslum við Grímseyjar- og Hríseyjarferju. Þá verður akstri á leið 79 milli Akureyrar og Húsavíkur breytt við gildistöku vetraráætlunar og mun þá aka um Aðaldal og Fljótsheiði. 

   4. Starfsemi Eyþings og stoðstofnana. Samantekt frá 281. fundi stjórnar.

Fundarstjóri óskaði eftir að framkvæmdastjóri viki af fundi undir þessum dagskrárlið.

Stjórnin samþykkti að Arnór, Karl og Logi vinni áfram að minnisblaði sem lagt verði fyrir næsta fund stjórnar. 

   5. Þingmál.

(a)     Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, 783. mál.
http://www.althingi.is/altext/145/s/1338.html
Lögð fram.

(b)     Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum, 680. mál.
http://www.althingi.is/altext/145/s/1108.html
Lagt fram.

(c)      Frumvarp til laga um kosningar til Alþingis (persónukjör þvert á flokka), 58. mál. http://www.althingi.is/altext/145/s/0058.html
Lagt fram.

(d)     Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016 -2019, 765. mál.
http://www.althingi.is/altext/145/s/1285.html
Lagt fram.

(e)      Tillaga til þingsályktunar í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2019, 764. mál. http://www.althingi.is/altext/145/s/1284.html
Lögð fram.

(f)      Frumavarp til laga um námslán og námsstyrki, 794. mál.
http://www.althingi.is/altext/145/s/1338.html.

Stjórn Eyþings telur jákvætt að stefnt sé að því að koma upp námsstyrkjakerfi á Íslandi en stjórnin telur miðað við áætlað fyrirkomulag í frumvarpinu að styrkurinn sé of dýru verði keyptur t.d. með verulegri hækkun vaxta og afnáms tekjutengingar (jafngreiðslulán). Að mati stjórnar Eyþings mismunar frumvarpið námsmönnum eftir búsetu og efnahag. Námsmenn af landsbyggðinni munu þurfa að taka dýrari námslán þar sem styrkurinn dugar ekki vegna þess aukakostnaðar sem felst í að sækja menntun fjarri heimabyggð s.s. húsaleiga og ferðakostnaður.

Í frumvarpinu felst ekki jöfnun með tilliti til búsetu og efnahags. Að mati stjórnar Eyþings væri hægt að mæta þeim aðstöðumun með styrkjakerfi. Þá þarf að fara ítarlega yfir áhrif þess að afnema tekjutengingu á endurgreiðslu lána.         

 Eftirfarandi liðum á dagskrá var frestað til næsta fundar stjórnar, sem stjórnin samþykkti að stefna að miðvikudaginn 20. júlí.

   6. Erindi frá framhaldsskólum á norðaustursvæði, dags. 20. maí. 

   7. Ályktun um Dettifossveg frá verkefnisstjórnum „Brothættra byggða“ á Raufarhöfn og í Öxarfirði.

   8. Minnispunktar frá ráðstefnu Eyþings og SSNV 2. maí sl. um úrgangsmál.

   9. Samstarfsyfirlýsing, dags. 9. júní 2016, um verkefnið Eim.

   10. Fundargerð aðalfundar Greiðrar leiðar ehf., dags. 10. maí 2016.

   11. Önnur mál. 

Fundi slitið kl. 18:10.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?