Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 26.10.2010

26.10.2010
Stjórn Eyþings
218. fundur

Árið 2010, þriðjudaginn 26. október, kom stjórn Eyþings saman til fundar á skrifastofu Norðurþings á Húsavík. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Fundur hófst kl. 13:30.
Þetta gerðist helst.

Nýkjörinn formaður, Bergur Elías, bauð nýkjörna stjórn velkomna til starfa en allir stjórnarmenn að frátöldum formanni sitja nú sinn fyrstar stjórnarfund í Eyþingi.
 
1. Kosning varaformanns stjórnar.
Geir Kristinn Aðalsteinsson var kjörinn.

 

2. Starfshættir stjórnar og helstu verkefni.
Lagðar voru fram upplýsingar sem formaður fór yfir.

 

3. Aðgerðaáætlun Eyþings 2010 – 2011/Ályktanir aðalfundar 2010.
Farið var yfir allar ályktanir aðalfundarins og rætt hvernig þeim verður fylgt eftir. Einstökum málum verður fylgt eftir við þingmenn, ráðherra og aðra sem þau varða. Þá munu mörg af þeim málum sem aðalfundurinn ályktaði um koma til frekari úrvinnslu stjórnar.

4. Áhrif fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2011 á svæði Eyþings.
Farið var sérstaklega yfir þá liði sem lúta að einstökum stofnunum og verkefnum í landshlutanum, s.s. fjárveitingar til heilbrigðisstofnana, framhaldsskólanna, málefna fatlaðra, menningarsamninga, vaxtarsamninga og ýmissa annarra stofnana á svæðinu.

5. Viðtalstímar þingmanna Norðausturkjördæmis 26. og 27. október.
Lögð var fram dagskrá fyrir viðtalstíma þingmanna með sveitarstjórnum en Eyþing hefur annast skipulagningu þeirra.
Stjórn Eyþings mun hitta þingmennina strax að loknum stjórnarfundi. Ákveðið að fara yfir ályktanir aðalfundar og ræða sérstaklega ályktanir um niðurskurð fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu, Háskólann á Akureyri, almenningssamgöngur og Vaðlaheiðargöng.

6. Til kynningar.
(a) Yfirlit um tekjujöfnunarframlög 2010.
(b) Yfirlit um áætluð jöfnunarframlög skv. tillögum um breytingar á reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Sem vænta mátti felur uppstokkun jöfnunarkerfisins í vissum tilvikum í sér umtalsverðar breytingar fyrir einstök sveitarfélög.
(c) Fundargerð stjórnar SSNV frá 12. október sl.
(d) Dagskrá málþings um stöðu fámennra byggða, haldið að Ketilási í Fljótum 30. október nk.

7. Erindi frá Önnu Guðrúnu Björnsdóttur Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 19. október, með upplýsingum frá EFTA Local Forum.
Fram  kemur að 2. fundur EFTA Local Forum er boðaður í Brussel 25. og 26. nóvember nk. Formaður Eyþings er varamaður formanns SSNV í ráðinu.

8. Þingmál.
(a) Frumvarp til laga um mannvirki, 78. mál.
http://www.althingi.is/altext/139/s/0082.html
Með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 er boðaður harkalegur niðurskurður á svokallaðri grunnþjónustu (heilbrigðisþjónusta, framhaldsskólar, félags- og öldrunarþjónustan og fleira), einkum og sér í lagi á landsbyggðinni. Sú skoðun virðist almenn að setja eigi grunnþjónustuna í forgang og meira að segja í sjálfu fjárlagafrumvarpinu kemur fram að standa eigi vörð um hana. Að mati stjórnar Eyþings verður það ekki gert nema horft sé sérstaklega til mögulegs niðurskurðar á öðrum sviðum.
Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins á frumvarpinu er áætlað að útgjöld ríkisins muni aukast um 100 mkr. á ári vegna nýrrar Byggingarstofnunar og hefur þá verið dregið verulega í land frá eldri áætlun ráðuneytisins. Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs og nauðsynlegrar forgangsröðunar telur stjórn Eyþings fráleitt að stofna til þessara útgjalda að sinni. Þá ítrekar stjórnin þá skoðun að óviðunandi er að ríkið auki enn á umsvif sín á höfuðborgarsvæðinu og vísar til umsagnar frá 9. apríl 2008 um fyrri útgáfu frumvarpsins.
Stjórn Eyþings vill sérstaklega vekja athygli á 61. grein frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Byggingarstofnun skuli starfrækja stafrænt gagnasafn um mannvirki og mannvirkjagerð um land allt. Einnig að gagnasafnið skuli vera innan gagna- og upplýsingakerfis fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands eða samtengjanlegt því. Að mati stjórnarinnar ber að fella út orðin „eða samtengjanlegt því“. Sjálfsagt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem fyrir er, en uppbygging og rekstur fasteignaskrárinnar þykir til fyrirmyndar, ekki síst tenging hennar við sveitarfélög landsins. Þá á sér stað áframhaldandi þróunarvinna eftir sameiningu fasteignaskrár og þjóðskrár undir nafni Þjóðskrár Íslands. Eðlilegt er að gagnasafn um mannvirki verði hluti hennar.
Niðurstaða stjórnar Eyþings er að hún leggst gegn samþykkt frumvarpsins að svo stöddu.

(b) Frumvarp til laga um brunavarnir, 79. mál.
http://www.althingi.is/altext/139/s/0083.html
Vísað er til umsagnar um frumvarp til laga um mannvirki en frumvörpin eru nátengd.


9. Önnur mál.
Ekki reyndist svigrúm til að taka upp mál undir þessum dagskrárlið.

 

Fundi slitið kl. 15:10.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?