Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 25.10.2017

25.10.2017

Árið 2017, miðvikudaginn 25. október, kom stjórn Eyþings saman til fundar á Fosshótel Húsavík. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Eiríkur H. Hauksson, Elías Pétursson og Sif Jóhannesdóttir. Þá voru mætt Gunnar Gíslason og Heiða Hilmarsdóttir í forföllum Evu Hrundar Einarsdóttur og Gunnars I. Birgissonar. Varamaður Arnórs Benónýssonar hafði ekki tök á að mæta. Einnig sátu fundinn Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri og Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri.

Fundur hófst kl. 12:00

Þetta gerðist helst.

 

1.        Aðalfundur Eyþings 2017 (dagskrá, fjárhagsáætlun, tillaga að lagbreytingu).
Lögð fram drög að dagskrá. Fram komu ábendingar um viðbótarmálefni til umfjöllunar sem framkvæmdastjóra var falið að setja á dagskrá. Farið var yfir málefni sem æskilegt er að taka til umræðu í málefnahópum fundarins.

Farið yfir tillögur að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2017 og fjárhagsáætlun 2018. Stjórnin samþykkti að leggja áætlanirnar fyrir aðalfund

Lögð var fram tillaga að breytingum á lögum Eyþings sem stjórnin samþykkti að vísa til aðalfundar. 

2.        Starfsmannamál.
Framkvæmdastjóri greindi frá breytingum í starfsmannahaldi Eyþings. Vigdís Rún Jónsdóttir listfræðingur hefur verið ráðin verkefnisstjóri menningarmála og mun koma til starfa um miðjan nóvember. Hennar fyrstu verkefni munu lúta að ráðgjöf vegna umsókna í uppbyggingarsjóð.

Starfshlutfall Lindu Margrétar Sigurðardóttur verkefnastjóra var hækkað í 100% þann 1. október sl. Hún mun m.a. annast fjármál og umsýslu uppbyggingarsjóðs ásamt framkvæmdastjóra í samræmi við verkskipulag sem kynnt var undir dagskrárlið 5e. 

3.        Fundargerð samráðs Sambands ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga, dags. 6. október 2017.
Lögð fram. 

4.        Bréf frá Landsneti, dags. 04.10.2017.
Óskað var eftir tilnefningu á karli og konu í verkefnaráð vegna Hólasandslínu 3. Hvort þeirra verður skipað ræðst af því að hlutfall kynjanna verðir sem jafnast. Stjórnin samþykkti að tilnefna:
Guðmund B. Guðmundsson
Evu Hrund Einarsdóttur 

5.        Sóknaráætlun.
(a)     Fundargerð stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál, dags. 25. september, 39. fundur.
Lögð fram.

(b)     Fundargerð fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar, dags. 17. október, 11. fundur.
Lögð fram. 

(c)      Áhersluverkefni.
Stýrihópur Stjórnarráðsins hefur staðfest GERT áhersluverkefnið sem stjórnin samþykkti á síðasta stjórnarfundi.

Verkefnisskilgreining áhersluverkefnisins um smávirkjanir verður væntanlega send til stýrihópsins á næstu dögum þegar niðurstöður liggja fyrir við  ábendingum stjórnar frá síðasta fundi. 

(d)     Samráðsvettvangur.
Lögð fram dagskrá fundar í samráðsvettvangi sóknaráætlunar sem haldinn verður í dag í kjölfar stjórnarfundar. 

(e)      Uppbyggingarsjóður - endurskoðun verklagsreglna, tímaáætlun og verkskipulag.
Lögð var fram tillaga að endurskoðuðum verklagsreglum Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra sem unnin var eftir fund starfsmanna Eyþings með verkefnastjórum atvinnuþróunarfélaganna og formönnum fagráða og úthlutunarnefndar.

Stjórnin samþykkir breyttar verklagsreglur.

Lögð var fram tímaáætlun vegna úthlutunar úr uppbyggingarsjóði 2018. Auglýsingar um umsóknir verða birtar 30. október. Miðað er við úthlutunarathöfn 1. eða 2. febrúar 2018.

Lagt fram verkskipulag vegna umsýslu uppbyggingarsjóðs. 

(f)       Greiðslur til fagráða og úthlutunarnefndar.
Tillaga að greiðslum til fagráða og úthlutunarnefndar lögð fram. Stjórn samþykkti tillöguna. Tillagan felur í sér að annars vegar verður greitt fyrir fyrirfram skilgreindan fjölda bókaðra fundar og hins vegar að hver nefndarmaður í fagráðum mun fá greidda tiltekna upphæð fyrir hverja umsókn. Nokkru hærri upphæð verði greidd fyrir yfirferð umsókna um stofn- og rekstrarstyrki. Með þessu verði mætt auknu hlutverki og vinnuálagi við afgreiðslu umsókna.

Stjórnin samþykkir tillöguna og þær upphæðir sem í henni felast.  

6.        Bréf frá vinnuhópi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 17. október, um rekstur flugsamgöngukerfisins innanlands.
Lagt fram og umfjöllun frestað til næsta fundar. 

7.        Samstarf um úrgangsmál á Norðurlandi.
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings mætti til fundar undir þessum lið en hann situr í þriggja manna nefnd sem var falið að vinna að málinu. Kristján Þór greindi frá hugmyndum sem fram komu á nýlegum fundi nefndarinnar. Lagt er til að Norðurland sameinist um að fá ráðgjafa til að kortleggja æskilegt samstarf og skipulag á grundvelli Svæðissáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi. Mikilvægt er að fá fram hvað skynsamlegast er að gera í úrgangsmálum til lengri tíma litið bæði á Norðurlandi og á landinu í heild. Horft verði sérstaklega til þeirrar aðstöðu sem við höfum þegar í fjórðungnum. Verkefnið kallar á beina aðkomu ríkisins eigi það að ganga eftir.

Framkvæmdsstjóra falið að ræða við framkvæmdastjóra SSNV og kanna vilja SSNV til að þeir skilgreina verkefnið sem áhersluverkefni innan sóknaráætlunar. Kristján Þór mun, fyrir hönd áður skipaðrar nefndar um úrgangsmál, vinna með þeim að því að útfæra verkefnishugmyndina.

 

Fundi slitið kl. 14:05.

Linda Margrét Sigurðardóttir og

Pétur Þór Jónasson rituðu fundargerð.

Getum við bætt síðuna?