Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 25.03.2015

15.04.2015

Árið 2015, miðvikudaginn 25. mars, kom stjórn Eyþings saman til fundar á skrifstofu Þingeyjarsveitar að Laugum í Reykjadal. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Hilma Steinarsdóttir, Jón Stefánsson, Sif Jóhannesdóttir og Gunnar Gíslason varamaður Evu Hrundar Einarsdóttur sem boðaði forföll. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 12:00.

Þetta gerðist helst. 

     1.   Almenningssamgöngur. Staða verkefnis.

Formaður gerði grein fyrir fundum sem haldnir voru 4. mars sl. með innanríkisráðherra, vegamálastjóra og fulltrúum Strætó bs. Ásamt formanni mættu á fundina framkvæmdastjóri, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson.  Eins og áður voru til umræðu grunnframlag til verkefnisins, þróunarstyrkur, niðurgreiðsla olíugjalds, rekstrarumhverfi og frumvarp um almenningssamgöngur, rekstur leiða milli landshluta, gjaldskrármál og ekki síst skuldastaða Eyþings vegna verkefnisins.

Fátt nýtt kom fram en góður vilji til að lagfæra rekstrarumhverfið, ásamt því að leysa rekstrarvanda Eyþings vegna verkefnisins. Fyrir liggur að breytingar verða gerðar á úthlutun þróunarstyrks en ekki kom skýrt fram hvenær þær taka gildi.

Stjórnin samþykkir að óska eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins 8. apríl nk. til að gera grein fyrir verkefninu og ræða almenningssamgöngur almennt.

Þá samþykkir stjórnin að senda Vegagerðinni bréf og óska eftir endurskoðun samnings um almenningssamgöngur á grundvelli 8. greinar samningsins. 

     2.   Sóknaráætlun.

(a)     Samningur um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019.

Samningurinn, sem undirritaður var 11. febrúar sl., var lagður fram.

(b)     Tillaga að verklagsreglum fyrir Uppbyggingarsjóð og tillaga að stjórnskipulagi (úthlutunarnefnd og fagráð).

Stjórnin samþykkir tillögur að verklagsreglum og stjórnskipulagi Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra og felur framkvæmdastjóra að senda þær til stýrihóps Stjórnarráðsins til staðfestingar.

Skipað verður í nefndir uppbyggingarsjóðs á næsta fundi stjórnar.

(c)      Fundargerðir stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 20. janúar og 13. febrúar, 10. og 11. fundur.

Lagðar fram.

(d)     Uppgjör skv. samningi 2014 (vaxtarsamnings- og sóknaráætlunar-framlög).

Skila á greinargerðum og uppgjöri fyrir 1. apríl. Verkefnin verða kynnt síðar fyrir stjórn.

(e)      Skapalón (rammi) fyrir sóknaráætlun.

Lagðar fram leiðbeiningar sem stýrihópurinn hefur sent frá sér varðandi framsetningu sóknaráætlunar.

(f)      Gerð sóknaráætlunar.

Formaður viðraði hugmyndir um vinnu að sóknaráætlun og hverjir geti tekið þátt í þeirri vinnu.

Framkvæmdastjóra falið að vinna verk- og tímaáætlun í samstarfi við formann fyrir næsta fund stjórnar.

     3.   Fundargerð fulltrúaráðsfundar, dags. 20. febrúar 2015, 3. fundur.

Fundargerðin samþykkt. 

     4.   Fundargerð fundar Eyþings og SSA með þingmönnum NA-kjördæmis, dags. 11. febrúar 2015.

Nokkur umræða varð um framgang og eftirfylgni þeirra mála sem rædd voru við þingmenn kjördæmisins.

     5.   Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um náttúrupassa (heildarlög), 455. mál.

http://www.althingi.is/altext/144/s/0699.html 

Stjórn Eyþings gerir ekki athugasemdir við efnisinntak frumvarpsins en leggur áherslu á að almannaréttur á Íslandi haldist óskertur.

Verði frumvarp þetta að lögum telur stjórn Eyþings eðlilegt að taka lög um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til endurskoðunar með hliðsjónar af því hvort ekki sé eðlilegt að sjóðurinn verði felldur að sóknaráætlunum landshluta. Að mati stjórnarinnar er rökrétt að heimamenn í landshlutunum forgangsraði áherslum og úthluti fé til uppbyggingar ferðamannastaða líkt og til menningarmála og til atvinnuþróunar og nýsköpunar.

(b)     Frumvarp til laga um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum (heildarlög), 427. mál.

http://www.althingi.is/altext/144/s/0649.html 

Stjórn Eyþings fagnar því að komið verði á heilstæðri stefnumarkandi  framkvæmdaráætlun vegna framkvæmda til verndar náttúru og menningarminjum og til uppbyggingar innviða í þágu ferðaþjónustu og almennings í landinu.

Að mati stjórnar Eyþings er verkefnisstjórn skv. 5. gr. frumvarpsins alltof fjölmenn. Ekki er þörf á svo fjölmennri verkefnisstjórn þar sem gert er ráð fyrir víðtæku samráði skv. 6. gr. frumvarpsins. Skilgreina þarf betur hverjum er ætlað að eiga fulltrúa í nefndinni, það er hvaða útivistarfélag og náttúruverndarsamtök eigi fulltrúa og skilgreina hvað er átt við með háskólasamfélagi. Þá telur stjórnin að fulltrúar Samband íslenskra sveitarfélaga eigi að koma af landsbyggðinni þar sem flestir ferðamannastaðir eru utan Reykjavíkur.

Stjórn Eyþings telur að tillögur skv. 7. gr. frumvarpsins geti verið hluti af sóknaráætlun landshluta en hugmyndin með sóknaráætlunum er m.a. að samþætta sem flestar áætlanir og samræma stefnumótun.

(c)      Frumvarp til laga um stjórn vatnamála (gjaldtaka fyrir vatnsþjónustu, EES-reglur), 511. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/0888.html

Stjórn Eyþings telur þá skattlagningu á lögbundna almannaþjónustu sveitarfélaga sem lögð er til með frumvarpi þessu með öllu óásættanlega og eðlilegast sé að ríkissjóður greiði þann kostnað Umhverfisstofnunar sem þessu frumvarpi er ætlað að fjármagna.

Stjórn Eyþings vísar til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að öðru leyti.

(d)     Frumvarp til laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum (heildarlög, strangari reglur) 512. mál.

http://www.althingi.is/altext/144/s/0889.html

Lagt fram.

(e)      Frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.), 434. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/0666.html

Stjórn Eyþings styður þá breytingu sem fram kemur í 1. grein frumvarpsins. Í núverandi lögum er gert ráð fyrir að sérstaka lagabreytingu þurfi til að breyta staðsetningu á stofnun sem er í Reykjavík. Slíkt á ekki við um stofnanir utan borgarmarka Reykjavíkur nema að staðsetning sé tilgreind sérstaklega í lögum.

Eyþing telur ekki forsvaranlegt að sérstakar lagaheimildir þurfi til að flytja stofnanir á grunni þess að þær séu í Reykjavík, ekki síst þar sem slíkar lagaheimildir hefur ekki þurft til að flytja stofnanir sem staðsettar eru utan Reykjavíkur.

(f)      Frumvarp til laga um farmflutninga á landi (aukið eftirlit, starfsleyfi o.fl., EES-reglur), 503. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/0873.html

Lagt fram.

(g)     Frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni (heildarlög, EES-reglur), 504. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/0874.html

Send var ítarleg umsögn um frumvarpið þar sem fjallað var almennt um frumvarpið og sérstaklega vikið að 2., 14. og 34. grein. Þá var lögð áhersla á það annars vegar að heiti frumvarpsins verði breytt í frumvarp til laga um almenningssamgöngur og fólksflutninga á landi í atvinnuskyni og hins vegar að líta verði á leiðakerfið í landinu sem eina heild.

Umsögnin er birt í heild sinni á vef Eyþings, eything.is.

(h)     Frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (breyting ýmissa laga), 466. mál.

http://www.althingi.is/altext/144/s/0725.html

Lagt fram.

(i)       Frumvarp til laga um kosningar til Alþingis (persónukjör þvert á flokka), 57. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/0057.html

Lagt fram.

(j)       Frumvarp til laga um landmælingar og grunnkortagerð (gjaldfrjáls landupplýsingagrunnur), 560. mál.

http://www.althingi.is/altext/144/s/0974.html

Lagt fram.

(k)     Tillaga til þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun, 166. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/0172.html 

Lagt fram.

(l)       Frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir (drög dags. 9. mars 2015)

Lagt fram til kynningar.

     6.   Bréf frá SÁÁ, dags. 13. febrúar, varðandi rekstur og framtíð göngudeildar á Akureyri.

Óskað er eftir milligöngu Eyþings við að koma á fundi fulltrúa SÁÁ og fulltrúa sveitarfélaganna í Eyþingi um rekstur göngudeildarinnar og þýðingu hennar og starfsemi SÁÁ fyrir byggð og mannlíf á starfssvæði Eyþings.

Stjórnin samþykkir að fela framkvæmdastjóra að koma á umræddum fundi.

     7.   Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 17. febrúar, um áætluð framlög til landshlutasamtaka sveitarfélaga á árinu 2015.

Fram kemur að áætlað framlag árið 2015 á hver samtök er 23,6 mkr.

     8.   Aðalfundur 2015.

Samþykkt að fresta ákvörðun um tímasetningu aðalfundar. Fyrir liggur að aðalfundur SSA verður í ár haldinn í byrjun október.

     9.   Önnur mál.

(a)      Undirbúningur framkvæmda vegna Bakka.

Gunnar Gíslason tók til umræðu kröfu Landverndar um nýtt umhverfismat  vegna línulagnar frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka og lagði til að stjórnin samþykkti bókun um málið. Samþykkt var að leggja tillögu að bókun fyrir næsta stjórnarfund. 

(b)     Fundaáætlun.

Jón Stefánsson óskaði eftir að sett yrði niður áætlun um stjórnarfundi næstu   mánuði. Formaður og framkvæmdastjóri munu taka það til skoðunar. Samþykkt var að næsti fundur stjórnar verði þriðjudaginn 7. apríl.

Fundi slitið kl. 13:45

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð

Getum við bætt síðuna?