Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 23.11.2016

28.11.2016

 Árið 2016, miðvikudaginn 23. nóvember, kom nýkjörin stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður. Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Eva Hrund Einarsdóttir, Gunnar I. Birgisson og Sif Jóhannesdóttir. Elías Pétursson boðaði forföll og ekki náðist í varamann hans. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 15:15. 

Þetta gerðist helst.

1. Punktar fyrir nýja stjórn.
Framkvæmdastjóri lagði fram minnisblað, dags. 21.11.2016,  með ýmsum upplýsingum sem varða starf stjórnar.
Rætt var um mismunandi sjónarmið varðandi innihald og ritun fundargerða. Samþykkt að breyta verklagi þannig að gengið verði frá fundargerð strax í kjölfar fundar. Einnig var rætt um fundarstaði og fyrirkomulag fjarfunda.

2. Kosning varaformanns stjórnar.
Arnór Benónýsson var kosinn varaformaður.

3. Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra.
Á síðasta fundi stjórnar var samþykkt að skipa nefnd til að yfirfara tilboð frá þeim tveimur skipulagsráðgjöfum sem leitað var til varðandi fyrri áfanga  skipulagsverkefnisins.

Lagt var fram minnisblað frá nefndinni með rökstuðningi. Stjórnin er sammála því að fara að tillögu nefndarinnar og samþykkir að fela formanni og framkvæmdastjóra að ganga til viðræðna við Alta. Að baki ákvörðuninni liggja eftirfarandi rök:

  • Verkefnið er mjög vel skilgreint.
  • Gert er ráð fyrir víðtæku samráði við hagsmunaaðila snemma í ferlinu.
  • Einn af útgangspunktum tilboðsins er samþætting skipulagsvinnunnar og DMP-verkefnis Ferðamálastofu, Markaðsstofu Norðurlands og Stjórnstöðvar ferðamála. Við það gæti skapast hagræði í báðum verkefnunum.
  • Verkefnið er vel útfært og tengingin við seinni áfangann er með þeim hætti að gögnin sem verða til í fyrri hlutanum nýtast í verkefninu á seinni stigum.
  • Mat á umfangi (tímafjölda) verkefnisins er trúverðugt.
  • Fáir óvissuþættir eru í tilboði Alta og allt ferlið er varðað frá upphafi.
  • Minni krafa er gerð um vinnu frá skipulagsfulltrúum sveitarfélaga og eingöngu reiknað með að kallað verði eftir gögnum frá þeim. Einnig má ætla að þeir verði fulltrúar sveitarfélaga á samráðsfundum.

4. Efni frá aðalfundi Eyþings.

(a)     Ályktun aðalfundar.
Framkvæmdastjóri upplýsti að ályktunin hefði verið send út til fjölmargra aðila. Rætt var um leiðir til að koma efni hennar til umfjöllunar í fjölmiðlum.

(b)     Samþykkt um úttekt á kostum og göllum sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna.
Stjórnin ræddi mikilvægi þess að fenginn yrði óháður aðili í verkefnið og samþykkir að fela formanni og framkvæmdastjóra að ræða við forsvarsmenn RHA um að taka að sér verkefnið.

(c)      Minnisblöð frá málefnahópum.
Lögð voru fram minnisblöð frá málefnahópum sem störfuðu á aðalfundinum en þessir hópar eru:

Hópur um atvinnu- og umhverfismál.
Hópur um mennta- og menningarmál.
Hópur um samgöngumál.
Hópur um velferðarmál.

Á minnisblöðunum koma fram ýmsar hugmyndir sem stjórnin mun skoða nánar auk þess sem eðlilegt er að einstakar sveitarstjórnir taki þær til umræðu. Meðal annars eru viðraðar hugmyndir um nánara samstarf sveitarfélaganna á tilteknum sviðum. Minnisblöðin verða gerð aðgengileg á heimasíðu Eyþings.
http://www.eything.is/static/files/Adalfundir_Eythings/minnisblod-allra-hopaii.pdf

Stjórnin vill einnig vekja athygli sveitarstjórna á greinargerð um starfsemi Eyþings og stoðstofnana sem samþykkt var af stjórn 22. september 2016. http://www.eything.is/static/files/Adalfundir_Eythings/greinargerd-stjornkerfi-eythings-22-9-2016.pdf

Lögð voru einnig fram lög Eyþings með þeim breytingum sem samþykkt voru á aðalfundinum.

5. Erindi frá Svavari Pálssyni sýslumanni, dags. 17. nóvember, með ósk um að mæta fund fulltrúaráðs Eyþings.
Með erindinu óskar sýslumaður eftir að fá tækifæri til samráðs við fulltrúa sveitarstjórna um fyrirkomulag og samræmingu opinberrar þjónustu í umdæminu.
Stjórnin samþykkir erindið.

6. Fundargerðir stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 23. september, 19. og 31. október, 27.  – 29. fundur.
Lagðar fram.

7. Fundir og málefni framundan.
(a)     Fundur 29. nóvember um framkvæmd sóknaráætlunar.
(b)     Fundur 29. nóvember með Vegagerðinni um verkefnið almenningssamgöngur.
(c)      Fundur 30. nóvember um stöðuna í orkumálum landshlutans
(d)     Fundur um formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka 12. desember um skipulag og verkefni.

Tilefni ofangreindra funda var kynnt.

8. Önnur mál.

(a)     Umræða spannst um orkumál landshlutans. Samþykkt var að leita eftir greinargerð um málið í framhaldi af boðuðum fundi þann 30. nóvember um orkumál. Þá var samþykkt að taka upp samræður við SSNV um línulagnir um landshlutana.

(b)     Samþykkt var að næsti fundur stjórnar verði 16. desember á Akureyri. Óskað verði eftir að fulltrúar úr starfshópi um úrgangsmál á Norðurlandi mæti á fundinn.

 

Fundi slitið kl. 17:15.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?