Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 23.05.2012

23.05.2012
Stjórn Eyþings
230. fundur

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Ráðhúsinu á Siglufirði. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Fundur hófst kl. 12:10.
Þetta gerðist helst.

 

1. Ársreikningur 2011, ásamt endurskoðunarskýrslu KPMG, dags. 18. maí.
Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur sambandsins á árinu 51,2 millj. kr. og voru þær 5,3 millj. kr.  (9,3%) lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrargjöld sambandsins námu 52,3 millj. kr. og reyndust 4,4 millj. kr. (7,8%) lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrartap fyrir fjármagnsliði nam 1,0 millj. kr. en að þeim meðtöldum nam tap sambandsins 0,2 millj. kr.
Fjármagnsliðir reyndust vera jákvæðir  um 0,9 millj. kr. 
Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir sambandsins bókfærðar á 57,8 millj. kr. Þar af eru veltufjármunir 56,8 milljónir kr. Skuldir sambandsins nema samkvæmt efnahagsreikningi 48,3 millj. kr., þar af eru fyrirframinnheimtar tekjur vegna menningarráðs 25,1 millj. kr. Bókfært eigið fé nemur 9,5 millj. kr. í árslok 2011 sem er 16,5% af heildarfjármagni. Í árslok 2010 nam bókfært eigið fé 12,7 millj. kr.
Menningarráð Eyþings er rekið sem sjálfstæður þáttur í starfsemi sambandsins. Reikningsskilaaðferð Menningarráðs er nú breytt og rekstur hvers árs er nú gerður upp á núlli og voru tekjur því lækkaðar um 7,2 millj. kr. og færðar á fyrirfram innheimtar tekjur.
Óráðstafað eigið fé nam 9,5 millj. kr. í árslok (þar af 0 millj. kr. vegna menningarráðs), en nam 12,7 millj. kr. í árslok 2010.
Hlutur Eyþings í áætluðum lífeyrisskuldbindingum hjá B-deild LSR vegna starfsmanna skólaþjónustu Eyþings nam 15,2 millj. kr. en nam 13,0 millj. kr. í árslok 2010.
Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn með undirskrift sinni og vísar honum til aðalfundar.

 

2. Undirbúningur IPA-umsóknar á vegum Eyþings.
Framkvæmdastjóra falið að ganga frá samningi við Önnu Margréti Guðjónsdóttur í samræmi við umfjöllun á 228. fundi stjórnar. Samþykkt að stefna að fundi með Önnu Margréti 6. júní nk.
 
3. Fundargerð Menningarráðs Eyþings, dags. 27. mars. 37. fundur.
Lögð fram. Umræða varð um áætlaðan flutning fjármagns af safnliðum fjárlaga til ráðsins sem ekki hefur gengið eftir. Erindum sem stjórn og menningarráð vísuðu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins í lok febrúar hefur enn ekki verið svarað.
Samþykkt að koma á fundi fulltúra stjórnar með menningarráðinu.  Bergi, Geir og Pétri falið að mæta á fundinn.

 

4. Almenningssamgöngur.
(a) Fundargerð nefndar um almenningssamgöngur, dags. 12. apríl, 8. fundur.

Sigurður Valur formaður nefndarinnar fór yfir fundargerðina, s.s. viðræður varðandi akstur milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og um almenningssamgöngur við Hrísey.
(b) Minnisblað frá VSÓ ráðgjöf, dags. 24. apríl, varðandi fyrirkomulag útboðs vegna almenningssamgangna á Norðurlandi eystra.
Á minnisblaðinu er leiðakerfi og fyrirkomulag aksturs sett fram og sömuleiðis skilgreining á umfangi verkefnisins.
(c) Tilboð í almenningssamgöngur fyrir Akureyri – Reykjavík og Reykjavík – Akureyri, opnuð 15. maí 2012, ásamt fundargerð VSÓ ráðgjafar frá kynningu á útboðsgögnum 12. apríl sl.
Lagt var fram minnisblað frá VSÓ ráðgjöf, dags. 21. maí, þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðu útboðsins.Fjögur tilboð bárust og var tilboð Hópbíla hf. lægst.
Stjórnin samþykkir fyrir sitt leyti að fela framkvæmdastjóra Strætó bs., sem annaðist útboðið, að ganga til samninga við lægstbjóðanda. Jafnframt var samþykkt að fela SSV að koma fram fyrir hönd þeirra landshlutasamtaka sem aðild eiga að útboðinu.

 

5. Fundargerð landshlutasamtaka sveitarfélaga 22. mars sl.
Bergur gerði grein fyrir fundargerðinni. Til umfjöllunar voru fjögur málefni, þ.e. stefnubreyting ríkisins í málefnum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, byggðastuðningur ESB (TAIEX og IPA), sóknaráætlanir og almennings-samgöngur.

 

6. Sóknaráætlun landshlutans.
(a) Verkefnið Norðurslóðamiðstöð Íslands.
Lögð fram greinargerð Péturs Þórs um verkefnið, dags. 10. maí, en þar er m.a fjallað um bakgrunn umsóknar Eyþings og þær áherslur sem Eyþing setur fram í verkefninu.
Þá kynnti Pétur drög að skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnun um verkefnið. Óskað er eftir að Eyþing gerist stofnaðili ásamt félagasamtökunum Norðurslóðamiðstöð Íslands. Stofnfé Eyþings, 500.000. kr verði tekið af fjárveitingu til verkefnisins.
Stjórnin felur framkvæmdastjóra að leita til lögfræðings og ganga úr skugga um að ekki falli ábyrgðir á Eyþing og aðildarsveitarfélög þess. Sé svo ekki samþykkir stjórnin stofnaðildina. Þá leggur stjórnin sérstaka áherslu á tengslin við HA og að um sé að ræða miðstöð norðurslóðamála.

(b) Verkefnið Fjarskipti og gagnaflutningar á Norðurlandi eystra.
Pétur greindi frá samtölum við innanríkisráðuneytið og upplýsingum um hliðstætt verkefni frá SSV.
(c) Fundarboð stýrinets sóknaráætlana landshluta um samráðsfund með landshlutasamtökunum 24. maí nk.
Formaður og framkvæmdastjóri mun sækja fundinn. Bergur sagðist líta svo á að það væri grundvallaratriði að tryggja aðgengi okkar svæðis að fjárfestingaáætlun ríkisins. Nefndi einnig að nauðsynlegt væri að fara að ræða aukið umfang og verksvið Eyþings, ásamt því að skerpa fókus fyrir landshlutann.

 

7. Þingmál.
(a) Frumvarp til laga um kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna (áheyrnarfulltrúi í landskjörstjórn og yfirkjörstjórn), 108. mál.
 
www.althingi.is/altext/140/s/0108.html 

 

(b) Tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, 39. mál. www.althingi.is/altext/140/s/0039.html

 

(c) Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum (EES-reglur, aukin matsskylda o.fl.), 598. mál. www.althingi.is/altext/140/s/0933.html

 

(d) Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (hesthús), 510. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/0778.html

 

(e) Frumvarp til laga um stimpilgjald (afnám gjalds vegna kaupa á íbúðarhúsnæði), 415. mál. www.althingi.is/altext/140/s/0654.html 

 

(f) Frumvarp til laga um Byggðastofnun (takmörkun kæruheimildar), 302. mál. www.althingi.is/altext/140/s/0351.html 

 

(g) Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 657. mál. www.althingi.is/altext/140/s/1052.html

 

(h) Frumvarp til laga um veiðigjöld (heildarlög), 658. mál. www.althingi.is/altext/140/s/1053.html

 

(i) Tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi, 329. mál. www.althingi.is/altext/140/s/0395.html

 

(j) Tillaga til þingsályktunar um endurskoðun laga og reglugerða um kaup erlendra aðila á jörðum á Íslandi, 358. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/0434.html

 

(k) Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (hesthús), 633. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/1013.html

 

(l) Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 727. mál. www.althingi.is/altext/140/s/1165.html 

 

(m) Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2012 – 2013, 635. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/1017.html

 

(n) Frumvarp til laga um framhaldsskóla (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld), 715. mál. www.althingi.is/altext/140/s/1150.html

 

(o) Frumvarp til laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar (stofnstyrkir, frádráttarákvæði), 689. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/1119.html 

 

(p) Frumvarp til laga um vinnustaðanámssjóð (heildarlög), 765. mál.
www.althingi.is/altext/140/s/1256.html 

 

Öll ofangreind þingmál voru lögð fram án umsagnar.

 

  
8. Bréf frá iðnaðarráðuneytinu, dags. 23. mars, um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð.
Lagt fram.

 

9. Tölvubréf frá sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi (Gyðu Einarsdóttur), dags. 9. maí, um námsferðir sveitarstjórnarfólks til Brussel.
Fram kemur að verið er að skipuleggja tvær námsferðir fyrir sveitarstjórnarfólk. Fyrri námsdvölin verður 18.-20. júní nk. og er yfirskrift hennar: Þátttaka íslenskra sveitarfélaga í byggðastefnu Evrópusambandsins. Evrópusambandið ber allan kostnað af þátttöku, þ.m.t. ferða- og uppihaldskostnað. Seinni námsdvölin hefur enn ekki verið tímasett.
Hvatt er til að stjórnarmenn og aðrir sveitarstjórnarmenn nýti sér þessar námsferðir.

 

10. Erindi frá Sambandi ísl sveitarfélaga (Önnu Guðrúnu Björnsdóttur), dags. 15. maí með ítrekun á boði utanríkisráðuneytisins um Taiex-námsferð.
Eyþing á kost á þriggja daga námsferð fyrir þrjá til aðildarríkis ESB. Nokkur landshlutasamtök hafa þegar þegið slíkt boð. Áhersla er á að skoða samstarf sveitarfélaga og afla þekkingar á framkvæmd byggðastefnu ESB.
Stjórnin samþykkir að þiggja boðið og felur framkvæmdastjóra að afla frekari upplýsinga, m.a. um heppilega staði til heimsóknar.

 

11. Til kynningar.
(a) Bókun stjórnar SSA frá 27. mars sl. vegna háhraðatenginga.
(b) Fundagerðir frá landshlutasamtökum.
(c) Ráðstefnan Íslensk þjóðfélagsfræði – málstofa um samhæfingu og nýja skipan opinberrar þjónustu, haldin 20. og 21. apríl í HA.

Framkvæmdastjóri sat dagskrá í ofannefndri málstofu.
(d) TAIEX námskeið um verkefnaval og verkefnastjórn í byggðamálum 27. apríl sl.
Framkvæmdastjóri sat námskeiðið.

 

(e) Málþing um ESPON rannsóknir á sviði svæða- og byggðamála í Háskólanum á Akureyri 21. maí.
Framkvæmdastjóri sat málþingið.

 

12. Önnur mál.
(a) Vaðlaheiðargöng.

Pétur fór yfir stöðu verkefnisins. Fjárlaganefnd hefur lokið umfjöllun sinni um frumvarp fjármálaráðherra um fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Gert er ráð fyrir að fram komi þrjú álit í málinu. Þar af tvö sem leggja til að frumvarpið verði samþykkt, þar af annað frá meirihluta nefndarinnar.
(b) Atvinnuuppbygging á Bakka.
Bergur fór yfir stöðuna. Greindi frá að gerð lóðarleigusamnings við þýska fyrirtækið PCC væri á lokastigi. Viðræður hafa staðið yfir við ríkisstjórnina um ýmsa þætti og búið að semja frumvörp sem lúta að einstökum undirbúningsframkvæmdum og farið að huga að heimildarlögum. Umhverfismati lýkur hins vegar ekki fyrr en í desember og bíða verður eftir því.
(c) Framkvæmdir og atvinnuuppbygging í Fjallabyggð.
Sigurður Valur greindi frá helstu framkvæmdum í sveitarfélaginu, m.a. miklum framkvæmdum við skóla bæði á Ólafsfirði og Siglufirði. Þá greindi hann frá áformuðum umfangsmiklum fjárfestingum í ferðaþjónustu á Siglufirði sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga. Stofnað hefur verið sjálfseignarfélag með 300 milljónum kr. til uppbyggingar skíðasvæðis og golfsvæðis. Gert er ráð fyrir að á þriggja og hálfs árs tímabili verði framkvæmt fyrir samtals 2,5 milljarða króna í ferðaþjónustu.
 
Fundi slitið kl. 14:45.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?