Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 22.10.2012

22.10.2012
Stjórn Eyþings
235. fundur

Árið 2012, mánudaginn 22. október, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. 
Fundur hófst kl. 13:30.

 

Þetta gerðist helst.

 

Geir Kristinn bauð nýkjörna stjórnarmenn velkomna til starfa og setti fund.

 

1. Skýrslan Starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi.
Skýrslunni, sem unnin var að frumkvæði Eyþings og SSA, var nú dreift eftir smávægilega breytingu. Þóroddur Bjarnason annar höfunda mætti til fundarins og fór yfir nokkrar helstu niðurstöður. Skýrslan inniheldur miklar og áhugaverðar upplýsingar bæði um tekjur og útgjöld ríkisins til einstakra málaflokka. Megin niðurstaðan er að Norðausturkjördæmi stendur fyllilega undir sínu.
Rætt var um kynningu á skýrslunni. Formanni og framkvæmdastjóra var falið að skipuleggja kynningu eða málþing í samstarfi við höfunda og að höfðu samráði við SSA.

 

2. Kosning varaformanns stjórnar.
Dagbjört Bjarnadóttir var kosin varaformaður.

 

3. Ályktanir aðalfundar 2012.
Farið var yfir allar ályktanir aðalfundarins og rætt um eftirfylgni þeirra. Bókað var sérstaklega varðandi nokkrar ályktanir.
Ályktun um skipulag Eyþings og sóknaráætlun landshlutans. Í ályktuninni er stjórninni falið að skipa 7 manna undirbúningshóp. Stjórnin samþykkir að skipa eftirtalda:
Berg Elías Ágústsson Norðurþingi, Siggeir Stefánsson Langanesbyggð, Margréti Bjarnadóttur Þingeyjarsveit, Guðmund Baldvin Guðmundsson Akureyrarbæ, Jónas Vigfússon Eyjafjarðarsveit, Hönnu Rósu Sveinsdóttur Hörgársveit og Bjarkey Gunnarsdóttur Fjallabyggð.
Að mati stjórnarinnar er rétt að hópurinn leggi höfuðáherslu á stjórnskipulag Eyþings. Vegna knappra tímamarka felur stjórnin formanni og framkvæmdastjóra að vinna tillögu að samráðsvettvangi og leggja fyrir vinnuhópinn. Þá varð umræða um ráðningu starfsmanns til Eyþings, bæði tímabundið og til lengri tíma.
Umsóknir um IPA styrki. Í ályktuninni er stjórninni falið að styðja við góð verkefni. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að upplýsa stjórnina um framvindu verkefna.

 

Mótun innanríkisstefnu. Því er beint til stjórnar að taka virkan þátt í þessari stefnumótun innanríkisráðuneytisins í samráði við sveitarfélögin. Beðið er frekari gagna sem ráðuneytið hefur tilkynnt að verði send.
Ályktun um menningarsamninga. Stjórnin samþykkir að óska eftir að menningarfulltrúi og formaður menningarráðs mæti á fund stjórnar og kynni verkalag og úthlutunarreglur ráðsins.
Í ályktun um Náttúruminjasafn Íslands er kynnt hugmynd um myndun safnanets undir merkjum Náttúruminjasafns Íslands. Stjórnin telur nauðsynlegt að taka þetta mál sérstaklega upp við þingmenn kjördæmisins auk þess sem kynna þarf það fyrir öðrum landshlutasamtökum.
Ályktun um starf að umhverfismálum á vegum Eyþings. Stjórnin telur rétt að vísa ályktuninni til vinnuhópsins um skipulag og verkefni Eyþings.
Innanlandsflugið. Ályktunin er tvíþætt, annars vegar um að miðstöð innanlandsflugsins verði áfram í Vatnsmýrinni og hins vegar um nauðsynlegan stuðning ríkisins við flugsamgöngur. Stjórnin samþykkir að taka þetta mál upp við þingmenn kjördæmisins.
Ítrekuð ályktun um að yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði flutt frá Reykjavík til svæða þjóðgarðsins. Stjórnin samþykkir að taka þetta mál upp við þingmenn kjördæmisins.

 

4. Almenningssamgöngur.
(a) Fundargerð nefndar um almenningssamgöngur, dags. 25. september, 11. fundur.
Dagskrárliðnum var frestað þar sem fundargerðin hafði ekki borist.
(b) Tilboð opnuð 19. október.
Aðeins barst tilboð frá einum aðila í leiðirnar milli Akureyrar-Dalvíkur-Siglufjarðar og milli Akureyrar-Húsavíkur-Þórshafnar. Verið er að yfirfara tilboðið og er þess vænst að gengið verði frá samningi í framhaldi.
Tilboð í akstur milli Akureyrar-Mývatns-Egilsstaða verður opnað 23. nóvember.
(c) Kynningarfundur.
Stjórnin samþykkir að fela formanni nefndar um almenningssamgöngur að stefna að kynningarfundi á næstu vikum þar sem verkefnið um almenningssamgöngur verði kynnt.

 

5. Til kynningar.
(a) Kynningarfundur um landsskipulagsstefnu 2013-2024, boðaður á Akureyri 26. október.
(b) Samantekt frá umræðuhópum á aðalfundi SSV 31. ágúst og 1. september.
(c) Fundargerð 46. aðalfundar SSA 14. og 15. september.
(d) Ályktanir 57. Fjórðungsþings Vestfirðinga 4. og 5. október.
(e) Ályktanir aðalfundar SSS 5. og 6. október.
 
6. Þingmál.
(a) Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða (rammaáætlun), 89. mál.
  
www.althingi.is/altext/141/s/0089.html 
 Lögð fram.
(b) Frumvarp til laga um bókasafnslög (heildarlög), 109. mál.
  
www.althingi.is/altext/141/s/0109.html 
 Lagt fram.
(c) Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum, 87. mál.
 
www.althingi.is/altext/141/s/0087.html
 Lagt fram.
(d) Frumvarp til umferðarlaga, 179. mál. 
  
www.althingi.is/altext/141/s/0180.html
 Lagt fram.
(e) Frumvarp til laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, 161. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0161.html
Lagt fram. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að umdæmi sýslumanna verði átta talsins.
(f) Frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum, 173. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0174.html 
Lagt fram. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að landið skiptist í átta lögregluumdæmi.
(g) Frumvarp til laga um kosningar til Alþingis (persónukjör þvert á flokka), 55. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0055.html 
Lagt fram.
(h) Frumvarp til laga um virðisaukaskatt (endurgreiðsla skatts vegna kaupa á varmatækjum), 60. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0060.html
Lagt fram.
(i) Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.(heildarlög), 194. mál.
www.althingi.is/altext/141/s/0197.html
Framkvæmdastjóra falið að kanna vinnu nefndar Eyþings, SSA og SSNV um svæðisútvarp RÚV en nefndinni var m.a. ætlað að skoða lagarammann.

 

7. Bréf frá Línudans ehf., dags. 9. október, um þróun og uppbyggingu raforkuflutningskerfa.
Lagt fram.

 

8. Bréf frá Jöfnunarsjóði, dags. 11. október, um framlag vegna sóknaráætlunar landshluta.
Í bréfinu er tilkynnt um framlag að fjárhæð 1,0 milljón kr. til hverra landshlutasamtaka vegna kostnaðar við sóknaráætlun landshluta.

9. Bréf frá SÁÁ, ódags., um átakið Betra líf!
Með bréfinu er leitað eftir stuðningi við að 10% af áfengisgjaldinu, sem ríkið innheimtir, verði varið í þjónustu við þolendur áfengis- og vímuefnavandans.
Stjórnin gerir sér grein fyrir  miklum vanda, ekki síst meðal ungs fólks, og miklu álagi sem er á göngudeild SÁÁ á Akureyri. Að mati stjórnarinnar hafa þarfir landsbyggðarinnar verið afskiptar í þjónustu SÁÁ og þörf á að bæta þar úr.
Stjórnin samþykkir að fresta erindinu og leita frekari upplýsinga.

 

10. Sóknaráætlun landshluta.
Pétur greindi frá fundi sem hann sat með stýrineti sóknaráætlana þann  16. október. Þar var m.a. skapalónið fyrir vinnu að sóknaráætlun tekið til endurskoðunar og farið yfir hugmyndir að skiptingu 400 milljón kr. framlags til sóknaráætlana milli landshluta. Stýrinetið mun ganga frá tillögum sínum fyrir lok mánaðarins.

 

11. Önnur mál.
(a) Lögð var fram útskrift af viðtali í þættinum Speglinum á RÚV 16. október við Þórð Víking Friðgeirsson. Í viðtalinu var rætt um vinnubrögð við undirbúning Vaðlaheiðarganga. Einnig lagðar fram athugasemdir sem framkvæmdastjóri sendi fyrir hönd Eyþings en í viðtalinu komu fram margar rangfærslur.
(b) Dagbjört óskaði eftir að skipaður verði varamaður fyrir hana í samráðshóp um félagsmálasjóð Evrópu eins og til stóð. Formaður tók að sér að kanna málið.
(c) Dagbjört greindi frá að stofnfundur Mýsköpunar verði 6. nóvember nk. en fresta þurfti fundinum fyrr í haust.

Fundi slitið kl. 16:10.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?