Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 22.09.2016

07.10.2016

 Árið 2016, fimmtudaginn 22. september, kom stjórn Eyþings saman til fundar á Nordica hótel Reykjavík. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theódór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Sif Jóhannesdóttir og Eiríkur H. Hauksson varamaður Karls Frímannssonar sem boðaði forföll. Olga Gísladóttir boðaði einnig forföll. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 10:45. 

Þetta gerðist helst.

1. Starfsemi Eyþings og stoðstofnana.

Lögð var fram sameiginleg greinargerð Karls, Evu, Loga og Arnórs. Stjórnin samþykkti að vinna að þeim tillögum sem settar eru fram í greinargerðinni.

Framkvæmdastjóri vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

2. Aðalfundur 2016.

Endanleg dagskrá var lögð fram og hefur hún verið send aðalfundarfulltrúum og öðrum. Rætt var um fyrirkomulag málefnavinnu. Ákveðið var að hafa einungis tvær fastanefndir, annars vegar kjörnefnd og hins vegar fjárhags- og stjórnsýslunefnd. Að öðru leyti verði fulltrúar með sömu viðfangsefni en hugsanlega skipt í minni umræðuhópa.

Fram komu áhyggjur að þátttöku í fundinum. Fyrir liggur að meiri hluti þingmanna verður fjarverandi vegna flokksþinga á sama tíma. Af sömu ástæðu mun nokkur fjöldi fulltrúa verða fjarverandi. Þá hafa borist fréttir af því að vígsluhátíð vegna nýs bryggjukants í Fjallabyggð hefði verið sett á sama tíma.

3. Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019, útgáfa 2.

Lögð var fram ný útgáfa, útgáfa 2, af Sóknaráætlun. Með henni fylgja í viðaukum viðamikil aðgerðaáætlun og yfirlit um áhersluverkefni. Þá voru lagðar fram ítarlegri verkefnislýsingar fyrir þau þrjú áhersluverkefni sem stjórnin hefur samþykkt á árinu 2016, þ.e. Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra, Þróun og ráðgjöf í menningarmálum og Samstarf um fjölnýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra. Framkvæmdastjóri vakti athygli á að ekki hefur verið ráðstafað liðlega 2,5 mkr. af þeirri upphæð sem stjórnin samþykkti til áhersluverkefna.

Stjórnin samþykkti að vísa ofannefndum gögnum til stýrihóps Stjórnarráðsins og óska staðfestingar á áhersluverkefnum. 

Fundi slitið kl. 11:50.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?