Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 20.07.2016

24.08.2016

Árið 2016, miðvikudaginn 20. júlí, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Karl Frímannsson og Sif Jóhannesdóttir. Hilma Steinarsdóttir kom til fundar undir 3. dagskrárlið. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 15:10. 

Þetta gerðist helst.

Formaður setti fund og óskaði eftir því að varaformaður stýrði fundinum líkt og á síðasta fundi stjórnar. Arnór Benónýsson varaformaður tók nú við fundarstjórn.

   1. Erindi frá framhaldsskólum á norðaustursvæði, dags. 20. maí.

Lagt fram. Spurt var um 2. lið erindisins sem snýr að samgöngum milli Lauga og Húsavíkur. Upplýst var að akstur á leið 79 mun breytast í vetraráætlun og verður þá ekið um Aðaldal og Fljótsheiði. Breytingunni fylgir nokkur lenging á aksturstíma. Biðstöð verður við vegamót hjá Einarsstöðum.

   2. Ályktun um Dettifossveg frá verkefnisstjórnum „Brothættra byggða“ á Raufarhöfn og í Öxarfirði.

Lögð fram. Framkvæmdastjóra var falið að leita upplýsinga hjá samgöngunefnd Alþingis um stöðu málsins og annarra áherslna Eyþings.

   3. Minnispunktar frá ráðstefnu Eyþings og SSNV 2. maí sl. um úrgangsmál.

Lagðir fram. Stjórnin hvetur starfshópinn sem skipaður er bæjarstjóranum á Akureyri og sveitarstjórum Norðurþings og Skagastrandar til að hraða þeirri vinnu sem starfshópnum var falin.

   4. Samstarfsyfirlýsing, dags. 9. júní 2016, um verkefnið Eim.

Eins og fram kemur í yfirlýsingunni er eftir að taka endanlega ákvörðun um félagsform. Stjórnin leggur áherslu á að það verði í samræmi við þær hugmyndir sem upphaflega voru kynntar.

Þá greindi framkvæmdastjóri frá að Albertína Friðbjörg Elíasdóttir hefði verið ráðin sem framkvæmdastjóri Eims úr hópi 19 umsækjenda.

   5. Fundargerð aðalfundar Greiðrar leiðar ehf., dags. 10. maí 2016.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fundargerðinni.

   6. Þingmál.

(a)      Frumvarpsdrög varðandi málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga. Birt á vef velferðarráðuneytisins og er unnt að koma athugasemdum við drögin á framfæri til 29. ágúst næstkomandi:
https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/frumvarpsdrog-vardandi-malefni-fatlads-folks-og-felagsthjonusta-sveitarfelaga-til-umsagnar
Stjórnin ræddi nokkra þætti í drögunum sem þeir töldu þarfnast nánari skoðunar og samþykkti að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga varðandi umsögn.

   7. Sóknaráætlun.

(a)     Aðgerðaáætlun fyrir Sóknaráætlun Norðurlands eystra, ásamt bréfi dags. 18. júlí.
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir aðgerðaáætluninni sem send var til umsagnar til samráðsvettvangs og stoðstofnana með ofangreindu bréfi. Umsagnarfrestur er til 20. ágúst. Stjórnin telur mikilvægt í framhaldi að virkja sveitarstjórnir í að fylgja áætluninni eftir.

(b)     Staða áhersluverkefna 2015.
Framkvæmdastjóri ásamt Evu fór yfir stöðu verkefnanna en þau áttu nýverið viðtöl við ábyrgðaraðila þeirra. Einu verkefni af sex, Matartengd ferðaþjónusta, er að fullu lokið.

(c)      Fundargerð fagráðs menningar, dags. 28. júní, 61. fundur.
Arnór, formaður ráðins, gerði grein fyrir fundargerðinni.

(d)     Fundargerðir stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 11. janúar – 21. júní, 21. – 26. fundur.
Lagðar fram.

   8. Önnur mál.

Þessi dagskrárliður var færður fram. Hilma skýrði frá því að hún muni flytja til Svíþjóðar í byrjun ágúst og þetta muni því verða hennar síðasti stjórnarfundur. Stjórn Eyþings þakkar henni ánægjulegt samstarf. Hilma þakkaði sömuleiðis samstarfið og sagði stjórnarsetuna hafa verið ánægjulega og lærdómsríka.

Í framhaldi spunnust umræður um aðalfund Eyþings sem haldinn verður á Þórshöfn. Hilma greind frá stöðu undirbúnings og að gengið hafi verið frá því hverjir taka við af henni af hálfu heimaaðila. Undirbúningur aðalfundar verður tekinn á dagskrá næsta fundar.

   9. Starfsemi Eyþings og stoðstofnana.
Að beiðni fundarstjóra yfirgaf framkvæmdastjóri fund þegar kom að þessum dagskrárlið. 

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

 

 

Getum við bætt síðuna?