Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 20.05.2015

14.07.2015

Árið 2015, miðvikudaginn 20. maí, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Hilma Steinarsdóttir, Jón Stefánsson og Sif Jóhannesdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 11:30

Þetta gerðist helst. 

  1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

(a)     Staða varðandi Uppbyggingarsjóð.

Umsóknarfrestur rann út 13. maí. Fagráð menningar hefur þegar komið saman og fjallað um umsóknir. Alls barst 61 umsókn um styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 108 umsóknir bárust til menningarstarfs.

Að sögn Arnórs formanns fagráðs menningar gekk umsóknarferlið í flesta staði vel en ýmsar athugasemdir komu fram varðandi umsóknareyðublað. Þar á meðal eru atriði sem ræða þarf við stýrihóp Stjórnarráðsins.

(b)     Breytingar á skipun úthlutunarnefndar.

Breyta þarf skipan nefndarinnar þar sem formaður hennar er í hópi umsækjenda í Uppbyggingarsjóð. Stjórnin samþykkir eftirfarandi breytingu á áður samþykktri skipan (265. fundur):

Eva Hrund Einarsdóttir verður formaður

Hulda Sif Hermannsdóttir, Akureyri, tekur sæti í nefndinni í stað Erlu Bjargar Guðmundsdóttur.

(c)      Reglur um starfshætti fagráða og úthlutunarnefndar

Rædd voru drög að starfsháttum sem lögð verða fyrir stjórn til afgreiðslu á næsta fundi stjórnar að lokinni samræmingu.

(d)     Staða stefnumótunarvinnu (gerð sóknaráætlunar).

Lokið er svæðafundum til undirbúnings sóknaráætlunar. Haldnir voru fjórir fundir, þ.e. á Húsavík, Raufarhöfn, Ólafsfirði og Akureyri. Fundarstjórn var í höndum Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur en auk hennar sátu formaður og framkvæmdastjóri alla fundina. Fundirnir voru misfjölmennir en tókust í heildina vel og umræður líflegar. Mikið efni liggur fyrir eftir fundina sem unnið verður úr.

(e)      Bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, dags. 6. maí, um fjárveitingu til Urðarbrunns.

Lagt fram.

2.   Fundargerð frá vorfundi landshlutasamtaka, dags. 16. apríl.

Arnór og Pétur fóru yfir fundargerðina sem fjallar að miklu leyti um undirbúning sóknaráætlana og breytingar sem fylgja tilkomu uppbyggingarsjóða landshlutanna. Þá var einnig rætt um almenningssamgöngur, þar á meðal tillögu um fargjaldamál og samræmingu gjaldskrár sem Guðjón Bragason og Pétur Þór kynntu á fundinum. Tillögunni var vísað til stjórna landshlutasamtakanna til afgreiðslu, sjá næsta dagskrárlið. Jafnframt var óskað eftir að vinnu við sameiginlega gjaldskrá yrði hraðað.

3.   Tillaga um samþykktarferli gjaldskrárbreytinga almenningssamgangna.

Lagt var fram minnisblað Guðjóns og Péturs frá 16. apríl ásamt tillögu þeirra að samkomulagi milli landshlutasamtakanna um fyrirkomulag við samþykkt breytinga á gjaldskrá. Sérstaklega er kveðið á um skilyrði fyrir bindandi niðurstöðu.

Stjórnin samþykkir tillöguna. 

4.   Bréf frá forsætisráðuneytinu, dags. 21. apríl, um tilnefningu í starfshóp um millilandaflug.

Með bréfinu  er óskað eftir að Eyþing og Markaðsstofa Norðurlands tilnefni sameiginlega fulltrúa í starfshóp til að gera tillögur að því hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík.

Samkomulag er milli Eyþings og Markaðsstofu Norðurlands um að tilnefna til setu í starfshópnum:

Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands,

og til vara:

Þorvald Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Stjórnin hafði áður samþykkt þessa tillögu í tölvupósti og hún verið tilkynnt með bréfi til forsætisráðuneytis 5. maí sl.

5.   Bréf frá velferðarráðuneytinu, dags. 16. apríl, um tilnefningu í vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra 2015 – 2019.

Í bréfinu er óskað eftir tilnefningu eins fulltrúa Eyþings í vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra og annars til vara. Jafnframt er óskað eftir að ráðuneytinu berist tilnefning um bæði karl og konu í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Stjórn Eyþings samþykkir eftirtaldar tilnefningar:

Linda Margrét Sigurðardóttir, Kroppi, 601 Akureyri

Gunnlaugur Stefánsson, Laugarholti 7c, 640 Húsavík

6.   Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (heimagisting og flokkar veitingastaða, 704. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/1178.html 
Lagt fram.

(b)     Frumvarp til laga um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl (tímabundnar aflaheimildir), 691. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/1165.html
Lagt fram.

 (c)      Frumvarp til laga um veiðigjöld (veiðigjald 2015-2018), 692. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/1166.html 
Lagt fram.

 (d)     Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015-2016, 689. ml. http://www.althingi.is/altext/144/s/1163.html
Lögð fram. Stjórnin hefur áður tekið landsskipulagsstefnuna til umfjöllunar.

 (e)      Frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð, 629. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/1085.html 

Stjórn Eyþings telur að ekki hafi verið horft nægilega mikið til sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga við gerð frumvarpsins og leggst því eindregið gegn því að frumvarpið verði að lögum.

Stjórn Eyþings vísar til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að öðru leyti.

 (f)      Frumvarp til laga um lögræðislög (réttindi fatlaðs fólks, svipting lögræðis o.fl.), 687. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/1161.html 
Lagt fram.

 (g)     Frumvarp til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, 703. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/1177.html 
Lagt fram.

 (h)     Tillaga til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda, 184. mál.http://www.althingi.is/altext/144/s/0193.html 
Lagt fram.

 (i)       Tillaga til þingsályktunar um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, 355. mál. http://www.althingi.is/altext/144/s/0456.html
Lagt fram.

 (j)       Frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, 693. mál.http://www.althingi.is/altext/144/s/1167.html 

Stjórn Eyþings lýsir yfir ánægju með frumvarpið og telur brýnt að það verði samþykkt sem fyrst. Frumvarpið rammar inn og formfestir verklagið við gerð sóknaráætlana ásamt því að tengja saman byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

(k)     Tillaga til þingsályktunar um lýðháskóla, 502. mál.http://www.althingi.is/altext/144/s/0870.html 
Lagt fram.

7.   Bréf frá Ráðrík, dags. 24. mars, með kynningu á ráðgjöf fyrirtækisins.

Lagt fram.

 8.   Málefni Aflsins og SÁÁ.

Eva Hrund kynnti tillögu að ályktun um málefni Aflsins sem lögð hefur verið fyrir fleiri aðila:

Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi hefur starfað á Akureyri frá árinu 2002. Starfsemin hefur ávallt byggt á ósérhlífni hugsjónafólks og er það samdóma álit þeirra sem til þekkja að þar hafi verið unnið ómetanlegt starf í gegnum tíðina. Aflið hefur átt í góðu samstarfi við þá aðila sem koma að þjónustu við þolendur ofbeldis, svo sem Akureyrarbæ, lögregluna á Akureyri, slysa- og bráðamóttöku SAk, geðdeild SAk, Kvennaathvarfið í Reykjavík og Símey.

Fyrir marga er það mjög stórt skref að leita sér hjálpar. Það skiptir því máli að aðgengið að þjónustunni sé gott, en Aflið hefur opinn síma allan sólarhringinn, auk þess að taka við beiðnum í tölvupóstum og á samskiptamiðlum. Ráðgjafar eru í viðbragðsstöðu og stökkva til með litlum fyrirvara ef nauðsyn krefur. Mikilvægt er að þolendur geti unnið úr reynslu sinni í heimabyggð óháð efnahag.

Fjárframlög af hálfu hins opinbera hafa verið af mjög skornum skammti. Starfsemi Aflsins hefur liðið fyrir fjárskort og allt of mikill tími og orka hefur farið í fjáröflun til að standa undir brýnustu verkefnum. Aflið hefur því reglulega sent út neyðarkall sem félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki víðs vegar á Norðurlandi hafa svarað með fjárframlögum. Þrátt fyrir að framlög til Aflsins hafi aukist lítillega á undanförnum árum er staðan sú að starfsemi samtakanna er í uppnámi. Aflið hefur ekki efni á að ráða starfsmann, þó ekki væri nema í hálft starf. Öll umsýsla og fjáröflun hvílir því á herðum sjálfboðaliða.

Aflið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki á Akureyri og á Norðurlandi öllu, ef ekki víðar. Þótt það sé jákvætt að þjónusta við þolendur sé efld með ráðningu sálfræðings á SAk kemur það ekki í stað þeirrar þjónustu sem Aflið veitir. Rannsóknir hafa sýnt að jafningjastuðningur við úrvinnslu ofbeldisreynslu er afar mikilvægur í bland við faglegan stuðning. Þar gegna félagasamtök mjög mikilvægu hlutverki.

Fyrir hönd samfélagsins og þolenda ofbeldis óskum við þess að félagsmálaráðherra tryggi Aflinu nauðsynlegt fjármagn til að standa vörð um sambærilega þjónustu á landsbyggðinni og veitt er á höfuðborgarsvæðinu.

 

Stjórn Eyþings styður ályktunina.

 Í framhaldi voru málefni göngudeildar SÁÁ á Akureyri rædd. Formaður og framkvæmdastjóri greindu frá fundi sem þeir, ásamt fleirum, sóttu með formanni SÁÁ þann 21. apríl sl. Þar voru m.a. kynnt framtíðaráform SÁÁ og starfsemi göngudeildarinnar á Akureyri sem virðist ekki föst í sessi.

Stjórnin samþykkir að taka málefni SÁÁ upp við þingmenn kjördæmisins.

 9.   Áform um sameiningu framhaldsskóla á Norðurlandi eystra.

Að loknum umræðum samþykkti stjórnin eftirfarandi ályktun:

Stjórn Eyþings hvetur menntamálaráðherra til að fara afar varlega í öll áform um sameiningu framhaldsskólanna og leggur áherslu á að haft verði náið samráð við heimamenn um málið. Nauðsynlegt er að gefinn sé tími til nauðsynlegrar umræðu um allar hugmyndir sem fram kunna að koma.

Stjórnin leggur áherslu á mikilvægi jafnréttis til náms, óháð búsetu og efnahag. Framhaldsskólarnir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í að jafna búsetuskilyrði í landshlutanum og landinu öllu. Þá hafa þeir víða haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun.

Framhaldsskólarnir hafa hver um sig þróast með ólíkum hætti og skapað sér sérstöðu. Þessar ólíku áherslur eru mjög mikilvægar í því að ná til ólíkra hópa ungmenna, hvetja þau til mennta og minnka brottfall.

 10.   Önnur mál.

(a)     Verkfall dýralækna og fleiri stétta.

       Jón hóf umræðu um málið. Rætt var um það ástand sem hefur skapast vegna verkfalls ákveðinna starfsstétta innan BHM. Sérstaklega komu til umræðu alvarleg áhrif verfallsins fyrir sjúklinga og sömuleiðis rætt um avarlegar afleiðingar af völdum verkfalls dýralækna. Eftifarandi ályktun var samþykkt:

       Stjórn Eyþings skorar á samninganefndir BHM og ríkisins að leita allra leiða til að ná sáttum í  kjaradeilu sinni. Það ástand sem hefur skapast er grafalvarlegt og bitnar mjög harkalega á þriðja aðila. Nefna má sjúklinga, auk þess sem neyðarástand er að skapast hvað snertir velferð dýra.

(b)     Greiðsla fundaþóknunar til fulltrúa Eyþings í Minjaráði Norðurlands eystra.

       Tveir fulltrúar tilnefndir af Eyþingi sitja í Minjaráðinu. Stjórnin samþykkir að greiða þeim fyrir bókaða fundi í ráðinu í samræmi við reglur Eyþings.

(c)      Fundur í fulltrúaráði Eyþings.

       Á svæðisfundi sóknaráætlunar á Ólafsfirði 18. maí, beindi Steinunn María Sveinsdóttir fulltrúi Fjallabyggðar því til stjórnar Eyþings að boða til fundar í  fulltrúaráði til umræðu um málefni framhaldsskólanna og þær hugmyndir sem fram hafa komið um sameiningu skóla.

       Stjórnin samþykkir að fela framkvæmdastjóra að boða til fundar þriðjudaginn 26. maí, kl. 13 á Akureyri. Jafnframt að bjóða skólameisturum framhaldsskólanna fimm til fundarins.

 

 Fundi slitið kl. 13:50

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð

Getum við bætt síðuna?