Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 20.04.2016

11.05.2016

 Árið 2016, miðvikudaginn 20. apríl, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Sif Jóhannesdóttir og varamennirnir Gunnar Gíslason og Olga Gísladóttir. Karl Frímannsson forfallaðist og ekki voru tök á að boða varamann.  Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 16:00. 

Þetta gerðist helst. 

1. Skýrsla starfshóps um stöðu og framtíð framhaldsskólastarfs á norðaustursvæði, dags. 15. desember 2015.

Skýrslan, sem unnin var fyrir mennta- og menningarmálaráðherra, var lögð fram og rædd. Stjórn Eyþings lýsir yfir ánægju með þær hugmyndir sem þar koma fram. Það er hins vegar álit stjórnar að fjárvöntun framhaldsskólastigsins sé mjög mikil og alvarleg. 

2. Fundargerð vorfundar formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga, dags. 7. apríl 2016.

Formaður gerði grein fyrir helstu atriðum fundargerðarinnar en framkvæmdastjóri var í fríi þegar fundurinn var haldinn. Tillaga Eyþings um einföldun á gjaldskrá almenningssamgangna var til umræðu á fundinum og var samþykkt að fresta afgreiðslu hennar til sumarfundar landshlutasamtakanna í júní.

Þá var í framhaldi af fundinum ákveðið að landshlutasamtökin sameinuðust um þriggja manna starfshóp til að undirbúa og koma fram í sameiginlegri samningagerð um framhald verkefnisins um almenningssamgöngur. Formaður Eyþings hefur tekið sæti í starfshópnum ásamt framkvæmdastjórum SASS og SSV.

Í framhaldi af umræðu um ljósleiðaraverkefnið var óskað eftir fundi með IRR og Fjarskiptasjóði til að fara yfir hvaða leiðir verði farnar við úthlutun á næsta ári. Óskað hefur verið eftir að öll landshlutasamtökin sendi fulltrúa á fundinn. Stjórnin samþykkti að Arnór Benónýsson og Linda Margrét Sigurðardóttir sitji fundinn.

Á fundinum var einnig rætt um undirbúning 7 ára byggðaáætlunar og um stjórnsýslulega stöðu landshlutasamtakanna.

3. Bréf frá Fjallabyggð, dags. 22. mars 2016, um fulltrúatilnefningu í Legatsjóð Jóns Sigurðssonar.

Upplýst var að einhver sveitarfélög höfðu sent erindið til AFE. Stjórnin samþykkir að erindi Fjallabyggðar verði vísað þangað.

4. Erindi (tölvupóstur) frá Baldvin Valdimarssyni (AFE), dags. 8. apríl 2016, með athugasemdum við skipun varamanna í fagráð Uppbyggingarsjóðs.

Bent er á að ekki hafi verið haft samráð við atvinnuþróunarfélögin við skipun varamanna, ásamt því að báðir varamenn í fagráð atvinuþróunar og nýsköpunar séu búsettir vestan Vaðlaheiðar sem hvoru tveggja sé í ósamræmi við verklagsreglur.

Í verklagsreglum uppbyggingarsjóðs sem samþykktar voru í stjórn 25. mars 2015 er einungis kveðið á um skipun aðalmanna. Í 4. grein stendur: „Leita skal til atvinnuþróunarfélaga, háskólastofnana og atvinnulífs eftir tilnefningum í fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar.“ Í greininni eru ekki skilyrði um búsetu. Leitað var til atvinnuþróunarfélaganna, en aðeins þeirra, við skipun aðalmanna. Í ljósi fenginnar reynslu ákvað stjórn Eyþings að skipa tvo varamenn í hvort fagráð þó ekki sé ákvæði um það í verklagsreglum.

Stjórn Eyþings þakkar fyrir ábendinguna en telur ekki tilefni til að afturkalla ákvörðun sína frá 278. fundi um skipun varamanna.

5. Almenningssamgöngur (Fjármögnun og gjaldskrármál).

Lagðar voru fram umsóknir Eyþings, annars vegar um framlag úr viðbótarfjárveitingu  til að mæta rekstrarvanda dags. 18. mars og hins vegar um framlag til þróunar almenningssamgangna dags. 1. apríl. Umsóknirnar voru gerðar á grundvelli bréfs frá innanríkisráðuneytinu frá 26. janúar sem var til umfjöllunar á 278. fundi stjórnar. Jafnframt var lagt fram bréf til innanríkisráðherra, dags. 18. mars.

Framkvæmdastjóri sagðist hafa fengið upplýsingar um að búið væri að afgreiða umsóknirnar og að beðið væri formlegs svars frá Vegagerðinni. Þá sé gjaldskrárbreytingin og einföldun á afsláttakjörum mikilvægur liður í því að bæta rekstur verkefnisins.

6. Samstarfsverkefni um bætta nýtingu orkuauðlinda.

Framkvæmdastjóri greindi frá fundum sem hann hefur setið undanfarna daga vegna undirbúnings verkefnisins og þá sérstaklega vinnufundi sem haldinn var í Kröflu 19. apríl til að skilgreina og skipuleggja verkefnið nánar. Auglýst verður eftir verkefnisstjóra fljótlega. Kallað er eftir skipun Eyþings, annars vegar í stjórn verkefnisins frá fjármögnunaraðilum þess og hins vegar í fagráð (framkvæmdaráð) þess sem mun stýra faglegri vinnu.

Formaður gerði tillögu um að Arnór Benónýsson taki sæti í stjórn verkefnisins og var það samþykkt af stjórn. Aðrir í stjórn eru Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Helgi Jóhannesson forstjóri NO og Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings fyrir hönd Orkuveitu Húsavíkur.

Í fagráði munu sitja fulltrúar fjármögnunaraðila, auk fulltrúa frá Íslenska jarðvarmaklasanum og Íslenska ferðaklasanum. Einn fulltrúi frá hverjum, nema Eyþing með tvo fulltrúa, auk þess sem varafulltrúar verði skipaðir. Aðrir en Eyþing hafa skipað sína fulltrúa. Stjórn Eyþings samþykkir að skipa eftirtalda í fagráðið:

Sigurð Inga Friðleifsson, framkvæmdastjóra Orkuseturs
Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands 

Til vara verði einn fulltrúi frá hvoru atvinnuþróunarfélagi. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir tilnefningu þeirra.

7. Samstarf um úrgangsmál sveitarfélaga .

Lögð voru fram drög að dagskrá ráðstefnu Eyþings og SSNV sem haldin verður 2. maí nk. á Akureyri.

8. Svæðisskipulag ferðaþjónustu – áhersluverkefni sóknaráætlunar.

Málið var rætt á 278. fundi stjórnar. Stjórnin samþykkir að ráðast í verkefnið og ráðstafa til þess allt að 9 mkr. í ár af fé til áhersluverkefna sóknaráætlunar. Stjórnin telur rétt að stefnt verði að því að leita tilboða og fá upplýsingar um það hvernig viðkomandi hyggst vinna verkið. Mikilvægt er að búið verði að stilla verkefninu upp, m.a. í tíma og kostnaði, fyrir aðalfund í haust.

Stjórnin samþykkir að fela framkvæmdastjóra að afla upplýsinga um aðila sem unnið hafa að áþekkum verkefnum.

9. Erindi (tölvupóstur) frá Trausta Þorsteinssyni (HA), dags. 8. apríl, varðandi ráðstefnu 28. maí um „vandamálavæðingu eða starfsþróun í skólum“.

Í erindinu er gerð grein fyrir ráðstefnunni og óskað eftir að Eyþing styðji við ráðstefnuna með 150 þkr. framlagi á grundvelli kostnaðaráætlunar sem fylgdi erindinu.

Stjórnin samþykkir 150 þkr. framlag til ráðstefnunnar í ljósi þess hve viðfangsefni ráðstefnunnar varðar sveitarfélögin miklu.

10. Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um helgidagafrið (brottfall laganna), 575. mál.
http://www.althingi.is/altext/145/s/0935.html
Lagt fram.        

(b)     Tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun 2015 – 2018, 638. mál. http://www.althingi.is/altext/145/s/1061.html

Stjórnin samþykkti eftirfarandi bókun:
Stjórn Eyþings harmar þá niðurstöðu í „Tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015 - 2018“, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, að ekki sé gert ráð fyrir því að lokið verði við Dettifossveg og gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll. Hvoru tveggja eru þessar framkvæmdir mikilvægar fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Norðurlandi eystra.

Stjórnin vekur sérstaklega athygli á eftirfarandi markmiði sem er að finna í samgönguáætlun: „Í samræmi við sóknaráætlanir landshluta verði við forgangsröðun framkvæmda tekið mið af þörfum einstakra svæða fyrir bættar samgöngur til að efla sveitarfélög, styrkja vinnusóknarsvæði og landið allt“. Bæði ofangreind verkefni eru hluti áhersluatriða í Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019. Því skorar stjórn Eyþings á Alþingi að endurskoða þessa niðurstöðu og setja bæði verkefnin á dagskrá þannig að þeim verði lokið að fullu fyrir lok árs 2018.

11. Drög að rammaáætlun III.

(a)     Skýrsla á slóðinni http://www.ramma.is/media/verkefnisstjorn-gogn/RA3-Lokaskyrsla-DROG-160331.pdf

Stjórnin samþykkir eftirfarandi bókun:
Stjórn Eyþings leggst gegn þeirri niðurstöðu verkefnisstjórnar sem fram kemur í drögum að rammaáætlun III að setja alla möguleika til raforkuöflunar með vatnsafli á Norðurlandi í verndarflokk. Stjórnin telur að álit allra faghópanna fjögurra hefði þurft að liggja til grundvallar þessum tillögum. Nauðsynlegt er að dýpri umræða sé tekin um orkuöflun og flutningskerfi og sett í samhengi við samfélagsleg áhrif.

(b)     Ályktun stjórnar Hrafnabjargarvirkjunar hf. vegna draga að rammaáætlun III.
Lögð fram.

12. Bréf frá Byggðstofnun, dags. 17. mars, varðandi undirbúning stefnumótandi byggðaáætlunar 2017 – 2023.

Í bréfinu er undirbúningur áætlunarinnar kynntur og leitað eftir samstarfi við landshlutasamtökin um samráðsfundi. Stjórnin ræddi mögulega tímasetningu fundar og fól framkvæmdastjóra að festa fundartíma með Byggðastofnun.

13. Bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, dags. 6. apríl, með boði á Fjórðungsþing 4. maí nk.

Stjórnin þakkar boðið en ekki eru tök á að þiggja það. 

14. Málefni heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

(a)     Erindi (tölvupóstur) frá Guðjóni Bragsyni Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 5. apríl, ásamt bréfi dags. 31. mars 2016.

Óskað er eftir að málið verði tekið til umræðu og er æskilegt að svar berist fyrir 15. maí nk.

(b)     Bókun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 6. apríl varðandi hugsanlegar breytingar á skipulagi og framkvæmd heilbrigðiseftirlits.

Samþykkt var að fela formanni og framkvæmdastjóra að eiga fund með framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og málefni 14. dagskrárliðar verði tekið fyrir á næsta fundi stjórnar.

15. Ljósleiðaramál. Upplýsingar um tilboð í styrki frá fjarskiptasjóði vegna ljósleiðarauppbygingar 2016.

Lagðar fram upplýsingar frá opnun tilboða 6.4.2016 í IRR.

16. Vinnuskýrsla frá framkvæmdastjóra.

Formaður greindi frá ástæðum þess að hann fór fram á að framkvæmdastjóri gerði grein fyrir vinnu sinn.
Framkvæmdastjóri lagði fram yfirlit um vinnu sína frá 1. mars og gerði grein fyrir þeim viðfangsefnum sem hann hefur unnið að.

17. Áætlun um stjórnarfundi.

Dagskrárliðurinn kom ekki til umræðu.

 

Fundi slitið kl. 18:30.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?