Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 18.11.2015

24.11.2015

 Árið 2015, miðvikudaginn 18. nóvember, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Karl Frímannsson og Sif Jóhannesdóttir. Hilma Steinarsdóttir var í síma. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 16:15.

Þetta gerðist helst.

1.   Bréf frá Greiðri leið ehf., dags. 6. nóvember, um árlega aukningu hlutafjár.

Formaður fór yfir bréfið og greindi frá kynnisferð í Vaðlaheiðargöng og fundi með hluthöfum 16. nóvember sl. þar sem farið var vel yfir stöðu verkefnisins. Eftir undangengin áföll virðist bjartara framundan og mikilvægt er að hraða gangagreftri eins og kostur er. Mikilvægt er að allir hluthafar nýti forkaupsrétt sinn í aukningu hlutafjár.

Stjórnin samþykkir að Eyþing nýti sér forkaupsrétt sinn að 750.575 kr. hlut.

2.   Fundargerð aðalfundar 2015.
Lögð fram.

3.   Almenningssamgöngur.

Formaður greindi frá fundi sem hann og framkvæmdastjóri áttu með innanríkisráðherra og Sigurbergi Björnssyni skrifstofustjóra í dag. Fundinn sátu einnig tveir úr hópi þingmanna kjördæmisins, Valgerður Gunnarsdóttir og Kristján L. Möller. Fram kom að sú leið sem rædd var á fundi 16. október sl. gengur ekki upp. Ráðherra lýsti yfir að strax færi í gang vinna við að finna varanlega lausn á sértækum vanda Eyþings. Jafnframt var farið yfir þá vinnu sem er í gangi í ráðuneytinu til að skýra og bæta rekstrarumhverfi almenningssamgangna í landinu. Fullur skilningur væri í ráðuneytinu á mikilvægi þessa verkefnis.

Þá greindu formaður og framkvæmdastjóri frá fundi sem þeir áttu einnig í dag með Þórarni V. Þórarinssyni hrl. um ákvæði samninga, einkum varðandi ákvæði um einkaleyfi og um endurgreiðslu olíugjalds. Þórarinn mun taka saman stutta greinargerð um málið.

Á grundvelli þessara upplýsinga samþykkir stjórnin að bíða með frekari ákvarðanir meðan vinna ráðuneytisins er í gangi, eða fram í byrjun desember.

4.   Önnur mál.

(a)     Samstarf sveitarfélaga. Umræða varð sérstaklega um samstarf stoðstofnana sveitarfélaganna. Rætt var um skörun verkefna og um samkeppni stoðstofnana um verkefni, ekki síst á sviði ferðaþjónustu. 

Framkvæmdastjóra var falið að skipuleggja vinnudag eftir áramót um aukið samstarf stoðstofnana í landshlutanum, sem stefni að skilvirkari vinnu og betri nýtingu fjármuna.

(b)     Næsti stjórnarfundur. Samþykkt var að færa áætlaðan fundartíma og halda fundinn þriðjudaginn 8. desember, kl. 16, í Þingeyjarsveit. 

Fundi slitið kl. 17:25.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

 

 

 

 

 

Getum við bætt síðuna?