Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 17.12.2014

22.01.2015

 

Stjórn Eyþings

262. fundur

 

Árið 2014, miðvikudaginn 17. desember, kom stjórn Eyþings saman til fundar á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 1. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Eva Hrund Einarsdóttir, Hilma Steinarsdóttir, Jón Stefánsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Arnór Benónýsson og Sif Jóhannesdóttir voru í síma en þau komust ekki til fundar vegna veðurs og ófærðar. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 13:35.

Þetta gerðist helst.

 

  1. Sóknaráætlun.

(a)     Staða verkefna sóknaráætlunar 2014.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir þeim þremur verkefnum sem unnið er að en þeim mun ýmist ljúka nú um áramót eða í lok janúar.

(b)     Bréf frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, dags. 4. desember, um endurgreiðslu vegna verkefnis.

Af ýmsum ástæðum tókst ekki að hefja verkefnið Akureyri – hlið inn í landið innan tilgreindra tímamarka. Gerð er því krafa um að sá hluti sem þegar hafði verið greiddur út vegna verkefnisins verði endurgreiddur. Upphæðin er varðveitt á sér reikningi hjá Markaðsstofu Norðurlands og verður endurgreiddur. Fyrirheit liggja fyrir um að framlaginu verði endurúthlutað til Eyþings á nýju ári sem getur þá ráðstafað því á ný til verkefnisins sem er hefjast þessa dagana.

(c)      Bréf, dags. 19. nóvember, með bókun stjórnar Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga vegna skipulags atvinnu- og byggðamála.

Í bókuninni kemur fram sá vilji að þau verkefni sem rekin hafa verið á vegum félagsins, þ.m.t. vaxtarsamningur, verði áfram rekin á sömu forsendum og markist af starfssvæði þess.

(d)     Drög 28.11.14 að samningi um sóknaráætlun 2015 – 2019.

Formaður fór yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið frá fyrri drögum og eru til mikilla bóta. Þá greindi hann frá umræðu á samráðsfundi sem haldinn var í Reykjavík 5. desember. Miðað við þær er ekki reiknað með að fram komi tillögur um miklar breytingar, en nauðsynlegt er að finna lausn á þeim sér aðstæðum sem eru á svæði Eyþings, þar sem verið hafa tveir vaxtarsamningar. Þessu næst lagði hann fram tillögu í tengslum við 7. grein samningsins að skipulagi úthlutunarnefndar og fagráða vegna uppbyggingarsjóðs  sem  taka  mun  við  af  menningar- og vaxtarsamningum.

 

 

 

Tillagan hefur verið kynnt fyrir fulltrúum stýrihópsins. Í tillögunni felst í grófum dráttum eftirfarandi:

Stjórn Eyþings sem samnings- og ábyrgðaraðili tekur í upphafi ákvörðun um skiptingu fjármagns, annars vegar til menningarverkefna og atvinnu- og nýsköpunarverkefna og hins vegar milli svæða. Sett verði á fót tvö þriggja til fimm manna fagráð, annað fyrir menningarverkefni og hitt fyrir atvinnu- og nýsköpunarverkefni. Fagráðin fari yfir umsóknir og geri tillögur til úthlutunarnefndar. Ein fimm manna úthlutunarnefnd verði skipuð sem tekur við tillögunum til formlegrar afgreiðslu. Inn í úthlutunarnefnd komi einn fulltrúi úr hvoru fagráði. Stjórn Eyþings staðfestir að lokum að úthlutanir séu innan fjárhagsramma.

Að mati stjórnarinnar er hér um að ræða raunhæfa lausn og samþykkir hún tillöguna. Jafnframt er formanni og framkvæmdastjóra falið að kynna tillöguna fyrir forsvarsmönnum atvinnuþróunarfélaganna. Framkvæmdastjóra er í framhaldi falið að koma tillögunni og sjónarmiðum stjórnar á framfæri við stýrihópinn.

(e)      Gögn frá samráðsfundi 5. desember um sóknaráætlanir.

Lögð var fram kynning á skiptireglu til að skipta fjármunum milli landshluta. Ánægjulegt er að sjá hversu vandaður rökstuðningur liggur að baki vali á breytum. Tillagan gerir ráð fyrir fimm breytum sem eru með jöfnu vægi:

Íbúafjöldi, „umfang“ svæðis, atvinnuleysi, íbúaþróun og efnahag.

Stjórn Eyþings er í meginatriðum sátt við tillöguna eins og hún var kynnt en tekur undir ábendingar sem fram komu á samráðsfundinum um að í stað útsvars á íbúa verði notað viðmið fyrir efnahag sem byggir á fullnýtingu útsvars, s.s. útsvarsstofn. Þá telur stjórnin að skoða þurfi tengsl efnahags og atvinnuleysis en gæta þarf þess að breyturnar mæli ekki sama hlutinn. Þrátt fyrir að ekki sé æskilegt að fjölga breytum getur stjórnin fallist á að bætt verði við breytu sem byggir á fjarlægð frá Reykjavík. Bent hefur verið á að á árdögum menningarsamninga var það grundvallarsjónarmið að gera samninga við þá landshluta sem lægju fjærri höfuðborginni sem hýsir allar helstu menningarstofnanir landsins.

(f)      Viðauki I við samning. Drög 25.11. að úthlutunarreglum.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi mætti á fundinn undir þessum lið en hún hefur farið yfir úthlutunarreglurnar og gerði stjórninni grein fyrir ábendingum sínum og tillögum að breytingum.

Stjórnin felur framkvæmdastjóra og menningarfulltrúa að útfæra tillögurnar nánar áður en þær verða sendar til stýrihópsins. Þá mælist stjórnin til að  umsjónarmenn vaxtarsamninganna verði kallaðir til fundar til að fara yfir tillögurnar með menningarfulltrúa.

(g)     Viðauki II við samning. Drög 25.11 um ábyrgð og hlutverk stýrihóps.

Lagður fram.

 

 

(h)     Fundargerðir stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál, 5. – 9. fundargerð (16. september – 27. nóvember 2014).

Lagðar fram.

  1. Bréf frá Greiðri leið ehf., dags. 3. desember, um árlega 40 milljón kr. aukningu hlutafjár.

Í bréfinu er annars vegar óskað eftir að hluthafar staðfesti að þeir falli frá forkaupsrétti á 1 milljón kr. sem Höldur ehf. er tilbúið að skrifa sig fyrir á árinu 2014. Hins vegar er óskað eftir að Eyþing nýti forkaupsrétt sinn að hlut sem nemur 423.691 kr. sem fram kemur á blaði um forkaupsrétt hluthafa. Í bréfinu er lögð áhersla á að hluthafar standi áfram þétt saman að baki verkefninu og nýti forkaupsrétt sinn. Samkvæmt lánasamningi ríkisins og Vaðlaheiðarganga hf. er 200 mkr. hlutafjáraukningu Greiðrar leiðar í Vaðlaheiðargöngum hf. dreift á fimm ár, þ.e. 2013 – 2017.

Stjórnin samþykkir að nýta forkaupsrétt sinn að  423.691 kr. hlut. Jafnframt er framkvæmdastjóra veitt heimild til að kaupa allt að 200.000 kr. til viðbótar telji einhverjir í hópi hluthafa sér ekki fært að nýta sinn rétt.

  1. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 5. nóvember, um framlag vegna umsýslu sóknaráætlunar.

Í bréfinu er gerð grein fyrir skiptingu greiðslna en framlagið til Eyþings nemur samtals 3.918.556 kr. á árinu.

  1. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 6. nóvember, um lokauppgjör vegna 2013 og áætlað framlag 2015.

Fram kemur að á árinu 2013 hafi verið um að ræða ofgreiðslu sem nemur 104.170 kr sem leiðrétt hefur verið fyrir. Þá er áætlað framlag næsta árs 23.475.000 kr. sem er í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun Eyþings.

  1. Þingmál.

(a)     Tillaga til þingsályktunar um millilandaflug um Vestmannaeyjaflugvöll og Ísafjarðarflugvöll, 121. mál. www.althingi.is/altext/144/s/0123.html

Lögð fram.

(b)     Tillaga til þingsályktunar um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar, 78. mál.          www.althingi.is/altext/144/s/0078.html       

Lögð fram.

(c)      Tillaga til þingsályktunar um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði, 209. mál.

       www.althingi.is/altext/144/s/0235.html     

       Lögð fram.

(d)     Tillaga til þingsályktunar um kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum, 55. mál. www.althingi.is/altext/144/s/0055.html 

Lögð fram.

(e)      Tillaga til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttinda barna, 397. mál.  www.althingi.is/altext/144/s/0551.html  

Lögð fram.

(f)      Tillaga til þingsályktunar um nýtingu eyðijarða í ríkiseigu, 126. mál.

www.althingi.is/altext/144/s/0128html   

Lögð fram.

(g)     Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði o.fl.), 366. mál.  www.althingi.is/altext/144/s/0483.html  

Lögð fram.

  1. Starfsmannamál.

Framkvæmdastjóri greindi frá að alls hefðu borist 40 umsóknir um skrifstofustarf sem auglýst var hjá Eyþingi. Umsóknir voru vandaðar og stór hópur mjög hæfra umsækjenda. Fimm úr hópi umsækjenda voru kallaðir til viðtals. Þá viðraði framkvæmdastjóri nokkur sjónarmið sem upp hefðu komið og hann taldi rétt að ræða við stjórn áður en hann gengi frá ráðningu.

 

  1. Tölvupóstur frá Ferðamálastofu, dags. 16. desember, um breytingar varðandi úthlutun framlaga til markaðsstofa, upplýsingamiðstöðva og ferðamálasamtaka. Einnig tölvupóstur frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, dags. 3. desember, um sama mál.

Framkvæmdastjóra falið að afla nánari upplýsinga hjá Markaðsstofu Norðurlands og leggja fyrir stjórnina ef óskað verður eftir.

 

  1. Önnur mál.

Lagt fram afrit af bréfi Fjórðungssambands Vestfirðinga til forsætisráðuneytis, dags. 16. desember, þar sem fyrir hönd landshlutasamtaka sveitarfélaga er óskað eftir kynningu á efni skýrslu landshlutanefndar Norðurlands vestra sem hefur verið til umfjöllunar í fréttum.

 

Fundi slitið kl. 15:45.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?