Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 17.07.2014

22.01.2015

 

Stjórn Eyþings

256. fundur

 Árið 2014, fimmtudaginn 17. júlí, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mættir voru allir aðalmenn: Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson,  Halla Björk Reynisdóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarsonar og Siggeir Stefánsson sem var í síma. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Þórður Stefánsson bókari Eyþings sat fundinn undir 1. dagskrárlið.

Fundur hófst kl. 13:10.

 

Þetta gerðist helst.

 

  1. Almenningssamgöngur.

(a)     Frá fundi með vegamálastjóra 25. júní.

Geir og Sigurður sátu fundinn og vísuðu til bréfs Vegagerðarinnar í næsta dagskrárlið.

(b)     Bréf frá Vegagerðinni, dags. 26. júní, varðandi uppsögn Eyþings á samningi um almenningssamgöngur á Norðurlandi eystra.

Í bréfinu kemur fram að Vegagerðin telur að ekki sé heimilt að segja samningnum upp fyrr en í fyrsta lagi um næstu áramót. Jafnframt kemur fram að nauðsynlegt sé að gera einhverjar breytingar á rekstrarumhverfinu til að tryggja framtíð verkefnisins hjá Eyþingi. Taldir eru upp nokkrir þættir sem geti verið liður í að tryggja reksturinn til frambúðar.

Stjórn Eyþings er reiðubúin að vinna áfram að rekstri almenningssamgangna til næstu áramóta á þeim grunni sem kynntur er í bréfinu og í góðu samstarfi við Vegagerðina eins og verið hefur. Nauðsynlegt er að nægt rekstrarfé fylgi til að hægt verði að veita þá lágmarksþjónustu sem nú er veitt áður en farið verður í að þróa hana frekar s.s. með tengingu við skólaakstur. Stjórnin vill ítreka að ástæða uppsagnar Eyþings á samningi, sbr. bréf Eyþings 30. apríl, er sú að miðað við óbreytt ástand var stórfelldur halli á rekstrinum og engir möguleikar fyrir Eyþing að halda honum áfram að óbreyttu. Stjórnin telur rétt að fulltrúar Eyþings og Vegagerðarinnar hittist þegar líður á haustið og meti hvort viðundi úrbætur hafi náð fram að ganga til að forsendur séu fyrir áframhaldandi rekstri á vegum Eyþings.

Stjórn Eyþings gerir það þó að algerri forsendu fyrir áframhaldandi rekstri almenningssamgangna að leið 57 (Akureyri - Reykjavík) verði rekin og gerð upp sem sér leið. Strætó bs. lagði fram hugmyndir þar um á fundi með landshlutasamtökunum í byrjun október 2013. Stjórn Eyþings fjallaði um hugmyndirnar og samþykkti tillögu Strætó á fundi þann 24. október 2013. Ekki hefur enn verið tekið á þessu máli og þeim ágreiningi og vanda sem leiðir af núverandi fyrirkomulagi.

 

 

Það er því krafa stjórnar Eyþings að Vegagerðin og innanríkisráðuneytið gangi í málið og komi því til leiðar að leið 57 verði rekin sem sér leið. Stjórnin telur það koma vel til greina að Eyþing annist rekstur leiðarinnar, ekki síst þar sem önnur endastöð leiðarinnar er á Akureyri.

(c)      Tölvupóstur frá Guðjóni Bragasyni, dags. 4. júlí, ásamt afriti af bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga til innanríkisráðherra, dags. 3. júlí,  um frumvarp til laga um fólksflutninga á landi.

Í tölvupóstinum greinir Guðjón frá starfi nefndar um almenningssamgöngur. Stjórnin þakkar upplýsingarnar en telur að miðað við þær þá skorti á að nefndin fari ofan í grunninn að útdeilingu fjármagns til verkefnisins og hvernig framlög þróuðust árin áður en landshlutasamtökin tóku við verkefninu. Sömuleiðis er ástæða til að tekjumöguleikar einstakra landshluta séu skoðaðir.

Stjórnin tekur undir bréf sambandsins til innanríkisráðherra og telur brýnt að frumvarpið verði lagt fram.

Stjórnin samþykkir að beina því til Strætó bs. að boða landshlutasamtökin til fundar sem fyrst um breytingar á gjaldskrá.

(d)     Bréf frá SSV (Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi), dags. 1. júlí og 7. júlí, vegna áætlaðrar hlutdeildar Eyþings í tekjum af leið 57.

Með bréfinu eru endursendir reikningar frá Eyþingi vegna ársins 2013 og það sem af er árinu 2014 þar sem SSV kannast ekki við að skulda Eyþingi þá reikninga sem um ræðir.

Stjórnin felur framkvæmdastjóra að ræða stöðuna við lögmenn.

(e)      Ábendingar frá Jóni Aðalsteini Hermannssyni varðandi leið 57.

Lögð fram afrit af tölvupóstum Jóns og Strætó bs. Stjórnin þakkar Jóni ábendingarnar og telur eðlilegt að tillögur hans til styttingar ferðatíma á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur verði teknar til skoðunar, en einkum er leiðin milli Borgarness og Reykjavíkur mjög seinfarin.

(f)      Fjármál verkefnisins.

Þórður Stefánsson gerði grein fyrir fjárhagsstöðu verkefnisins. Óskað var eftir að Þórður leggi fram nýjar upplýsingar á næsta fund stjórnar en þá verða tveir af þremur sumarmánuðum verkefnisins komnir með í uppgjör.

  1. Samkomulag við ENOR vegna viðbótarkostnaðar við gerð og endurskoðun ársreiknings Eyþings fyrir árið 2013.

Formaður og framkvæmdastjóri gerðu grein fyrir samkomulaginu og þeim upplýsingum sem ENOR lagði fram.

Stjórnin fellst á rök ENOR og er tilbúið að greiða þann viðbótarkostnað sem um ræðir vegna aukins umfangs í rekstri Eyþings. Stjórnin felur jafnframt formanni og framkvæmdastjóra að ganga frá samkomulagi varðandi endurskoðun ársins 2014 í samræmi við umræður á fundinum og þannig að ekki komi til frekari kostnaður.

  1. Erindi frá Byggðastofnun, dags. 26. júní, um mat á framkvæmd þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlunar 2010 – 2013.

Framkvæmdastjóra var falið að taka málið til skoðunar.

  1. Fundargerð frá sumarfundi landshlutasamtaka sveitarfélaga sem haldinn var á Reykjanesi 12. – 13. júní, ásamt minnisblaði um sóknaráætlanir landshluta.

Formaður og framkvæmdastjóri gerðu grein fyrir fundinum og minnisblaðinu sem tekið var saman í framhaldi af fundinum og sent ráðherrum og öðrum sem málið varðar.

  1. Sóknaráætlun og framlög til byggðaþróunar.

(a)     Samráðsfundur um framhald sóknaráætlana landshluta, boðaður 29. ágúst í Reykjavík.

Formaður og framkvæmdastjóri munu sitja fundinn.

(b)     Staða samninga 2014.

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu menningarsamninga, sóknaráætlunar og vaxtarsamninga.

(c)      Mat á framkvæmd verkefna 2013.

Lögð voru fram eyðublöð vegna upplýsinga sem strýrihópur stjórnarráðsins óskar eftir.  Áformað er að lokauppgjör fari fram í september. Þá vinnur fyrirtækið Evris að úttekt á framkvæmd og árangri sóknaráætlunar og hefur kallað eftir upplýsingum að undanförnu.

(d)     Undirbúningur nýrra samninga.

Stefnt er að því að nýir samningar á sviði byggðamála, þ.e. menningarsamningar, sóknaráætlun og vaxtarsamningar, taki gildi um næstu áramót og verður við undirbúning þeirra m.a. unnið að gerð reiknilíkans eða –líkana til að skipta fjármagni milli samninganna og milli landshluta. Gert er ráð fyrir að nánari upplýsingar um verklagið komi fram á fundi 29. ágúst.

Framkvæmdastjóri skýrði frá heimsókn formanns og framkvæmdastjóra SSA og Austurbrúar fyrir skömmu þar sem m.a. var rætt um undibúning þessara samninga.

Framkvæmdstjóra falið að undirbúa sjónarmið Eyþings fyrir samningagerðina.

  1. Efni frá landshlutasamtökum.

Lagt fram til kynningar.

  1. Undirbúningur aðalfundar 2014.

Haldið var áfram umræðu frá síðasta stjórnarfundi um fundarefni. Þá fór framkvæmdastjóri yfir þær upplýsingar um aðalfundarfulltrúa sem liggja fyrir. Fram komu áhyggjur þar sem svo virðist sem sum sveitarfélög leggi minni áherslu en áður á að skipa forsvarsmenn sína sem fulltrúa og þar með þau sterku tengsl milli sveitarstjórna og Eyþings sem verið hafa. Þetta sé í ósamræmi við stóraukin verkefni og þar af leiðandi þörf á sterkri aðkomu sveitarfélaganna.

  1. Bréf, dags. 4. júlí, með boðun landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga 24. – 26. september á Akureyri.

Formanni og framkvæmdastjóra var falið að sitja landsþingið.

  1. Erindi frá Ferðamálastofu, dags. 25. júní, um kortlagningu auðlinda í ferðaþjónustu á Íslandi. Tilnefning í svæðisbundinn samráðshóp.

Ekki er sérstaklega getið um menningartengda ferðaþjónustu, en samþykkt að tilnefna Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur menningarfulltrúa Eyþings í samráðshópinn.

  1. Námskeið fyrir nýkjörna sveitarstjórnarmenn.

Lagður fram tölvupóstur frá Önnu G Björnsdóttur frá 7. júlí þar sem fram kemur að námskeið munu hefjast eftir miðjan október. Óskað er eftir að landshlutasamtökin setji sem fyrst fram óskir um dagsetninga og staðsetningar fyrir námskeið.

Stjórnarmenn munu koma ábendingum á framfæri við framkvæmdastjóra áður en tillögur verða sendar.

  1. Ályktanir 9. fundar Sveitarstjórnarvettvangs EFTA 26. og 27. júní sl.

Lagðar voru fram tvær ályktanir frá fundinum. Annars vegar ályktun um rammaáætlun Evrópusambandsins um loftslags- og orkumál 2020 – 2030. Hins vegar um tækifæri sveitarfélaga og úrlausnarefni vegna áhrifa loftslagsbreytinga á norðurslóðir.

Formaður fór yfir ályktanirnar en hann hefur átt sæti í Sveitarstjórnarvettvangnum sl. tvö ár.

  1. Önnur mál.

(a)     Áform um flutning Fiskistofu til Akureyrar.

       Stjórnin fagnar flutningi á opinberum störfum út á land og væntir þess að vandað verði til verka við flutning á Fiskistofu.

       Lögð var fram skýrslan Flutningur Fiskistofu til Akureyrar – ögrandi verkefni, sem unnin var fyrir Eyþing árið 2004. Í skýrslunni var vel útfært hvernig flutningurinn gæti átt sér stað í skrefum, m.a. með tilliti til starfsmanna.

       Að mati stjórnarinnar er athyglisvert að skoða skýrsluna nú í ljósi áformaðs flutnings. Á sínum tíma fékk skýrslan litlar undirtektir.

(b)     Flughlað og efni úr Vaðlaheiðargöngum.

       Stjórnin lýsir yfir ánægju með viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í fjölmiðlum eftir fund hans með fulltrúum Vaðlaheiðarganga og bæjarstjórnar Akureyrar 15. júlí. Þar sagðist hann vona að Alþingi tryggi fjármuni til að hefja stækkun á flughlaðinu á Akureyrarflugvelli á næsta ári. Stjórn Vaðlaheiðarganga hefur lengi leitað eftir niðurstöðu í þessu máli en í útboðsgögnum var gert ráð fyrir að efni yrði flutt í nýtt flughlað. Gert er ráð fyrir að ISAVIA fái efnið endurgjaldslaust en greiði fyrir flutning þess og niðurlögn í flughlað.

(c)      Þörf á viðbótarstarfsmanni.        

       Siggeir óskaði eftir að málið yrði rætt í ljósi mikilla verkefna en það var til umræðu á 253. fundi stjórnar þar sem stjórnin samþykkti að tímabært væri að bæta við starfsmanni. Rifjaðar voru upp tillögur svokallaðrar sjö-mannanefndar sem fjallaði um starf og skipulag Eyþings. Tillögur nefndarinnar voru lagðar fyrir aðalfund 2013. Ein af tillögum nefndarinnar var að bætt yrði við starfsmanni en sú tillaga náði ekki fram að ganga á aðalfundinum.

       Stjórnin samþykkir að leggja til við aðalfund 2014 að bætt verði við starfsmanni. Í framhaldi þarf að gera greinargóða starfslýsingu.

 

Fundi slitið kl. 15:05.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?