Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 17.07.2013

17.07.2013

 

Stjórn Eyþings

243. fundur

 

Árið 2013, miðvikudaginn 17. júlí, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur og Ólafur Jakobsson úr nefnd um almenningssamgöngur sat fundinn undir 1. dagskrárlið. 

Fundur hófst kl. 13:00.

Þetta gerðist helst.

 

1.        Almenningssamgöngur.

(a)      Fundargerðir nefndar um almenningssamgöngur, dags 11. og 28. júní, 15. og 16. júlí, 20. – 23. fundur.

(b)     Minnisblað nefndar um almenningssamgöngur, dags. 17. júlí.

Sigurður og Ólafur nefndarmenn um almenningssamgöngur á vegum Eyþings fóru yfir fundargerðir nefndarinnar og í framhaldi yfir minnisblaðið sem m.a. innheldur samanburð á rauntölum og rekstraráætlunum. Miðað við fyrirliggjandi gögn er staðan alvarleg og stefnir í umtalsvert tap. Farið var yfir helstu ástæður á fyrirsjáanlegum rekstrarhalla og einnig yfir þá þætti sem skipta sköpum við að bæta stöðuna. Þyngst vega þrír þættir er varðar rekstrarhallann:

·      Fargjaldatekjur eru langt undir áætlun en þess ber að geta að gert er ráð fyrir að sumarmánuðirnir skili stórum hluta tekna. Ljóst er að miklu hærra hlutfall farþega ferðast á afsláttarkjörum en áætlað var.

·      Framlag hefur ekki verið veitt sem vilyrði var gefið fyrir vegna aksturs milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar samhliða því sem akstri milli Sauðárkróks og Siglufjarðar var hætt og flugvellir á Ólafsfirði og Siglufirði aflagðir.

·      Framlag til þróunar almenningssamgangna á svæði Eyþings óréttlátt og með öllu óviðunandi miðað við umfang og þátta eins og tenginga við ferjusiglingar. Sumir landshlutar að fá 29 mkr. á ári meðan aðrir s.s. Eyþing fá 3.250.000 kr.

Við ofangreind atriði bætist að einkaleyfi sem um er getið í samningi við Vegagerðina frá 29. desember 2011 hefur ekki haldið og óljóst hve mikil áhrif þess eru á tekjur.

Stjórn Eyþings samþykkir eftirfarandi aðgerðir:

1.    Óskað verði eftir fundi með þingmönnum hið fyrsta með stjórn og nefndarmönnum. Hjálmar Bogi Hafliðason í nefnd um almenningssamgöngur hefur tekið að sér að koma á fundi í samstarfi við 1. þingmann kjördæmisins.

 

2.    Óskað verði eftir fundi með innanríkisráðherra í framhaldi. Formaður Eyþings og formaður nefndarinnar fari á fundinn.

3.    Fundur verði síðan haldinn með Vegagerðinni ef ástæða verður til.

4.    Fundur verði með Smára Ólafssyni og fleirum frá Strætó.

5.    Framkvæmdastjóra falið að leita eftir lögfræðiáliti á uppsagnarákvæðum samninga.

6.    Skoðað verði að taka til baka viðbótarþjónustu sem sett var á, s.s. að fækka ferðum úr fjórum í þrjár og fella út viðbótarleiðir. Skoða þarf ákvæði samninga. Leitað verður til Smára.

7.    Næsta greiðsla vegna samninga verði lánuð úr sjóðum Eyþings.

8.    Leita þarf eftir yfirdrætti hjá bankastofnun Eyþings og jafnfram að leita eftir heimild hjá aðildarsveitarfélögum Eyþings.

9.    Gengið verði frá samningum við SSA og SSV um uppgjör á leiðum 56 og 57 í kjölfar fundar með Smára Ólafssyni. Formaður nefndarinnar, formaður Eyþings og framkvæmdastjóri annast það.

Varðandi 9. atriði vill stjórn Eyþings halda til haga að landshlutasamtökin fá framlag til að mæta kostnaði sem nemur hlutdeild hvers þeirra í samreknum leiðum skv. skiptingu sem ákveðin var af Vegagerðinni. Þannig er hlutdeild Eyþings 36,73 % í leið 57 milli Akureyrar og Reykjavíkur og 57,15% í leið 56 milli Akureyrar og Egilsstaða. Samkvæmt þessu hefur kostnaði verið skipt. Þegar um er að ræða hagnað af viðkomandi leið ber að skipta honum með sama hætti.

 

2.        Sóknaráætlun.

Geir og Pétur upplýstu að allir samningar við framkvæmdaaðila væru frágengnir að undangengnum fundum til að skerpa innihald og framkvæmd verkefnanna. Framgangur verkefna verður metinn í september.

Þá samþykkti stjórnin að leita aftur til Bjarna Snæbjarnar Jónssonar um ráðgjöf og aðstoð við undirbúning og gerð sóknaráætlunar 2014.

 

3.        Aðalfundur 2013.

Rætt var um þær lagabreytingar sem þarf að gera tillögu um í samræmi við afgreiðslu aukafundar 12. febrúar sl. vetur. Samþykkt að fara í þá vinnu að loknum sumarleyfum.

Þá komu fram ábendingar um málefni sem æskilegt er að taka til umfjöllunar á aðalfundinum og samþykkt var að vinna út frá.

 

4.        Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 5. júní, um framlag vegna vinnu við sóknaráætlanir landshluta.

Í bréfinu koma fram upplýsingar um hvernig 25 mkr. framlagi vegna umsjónar með sóknaráætlunum landshluta verður skipt milli landshlutasamtaka.

 

5.        Bréf frá Vegagerðinni, dags. 22. apríl, um umsjón með styrktum ferjum á Norðurlandi eystra.

Með bréfinu leitar Vegagerðin eftir áhuga Eyþings á að taka að sér rekstur ferjusiglinga til Hríseyjar og Grímseyjar með sama hætti og almenningssamgöngur á landi í landshlutanum.

Stjórnin samþykkir eftirfarandi bókun:

Vegna erfiðs reksturs á almenningssamgöngum á landi og ófullnægjandi framlags frá ríkinu hafnar stjórn Eyþings að taka við frekari verkefnum á sviði almenningssamgangna að sinni. Fáist hins vegar hljómgrunnur til að fara yfir forsendur og fjármagn fyrri samnings telur stjórnin eðlilegt að taka upp viðræður um erindi Vegagerðarinnar frá 22. apríl 2013 og varðar umsjón með styrktum ferjum á Norðurlandi eystra.

 

6.        Önnur mál.

Húsnæðismál. Pétur greindi frá viðræðum Eyþings og nokkurra stoðstofnana sveitarfélaga og ríkis um leigu á sameiginlegu húsnæði. Tveir kostir eru í skoðun. Annars vegar í núverandi húsnæði Eyþings og Ferðamálastofu að Standgötu og hins vegar húsnæði í eigu Reita að Hafnarstræti 91 Fyrir liggja áætlanir um endurbætur í báðum tilvikum og áætlað leiguverð.

Stjórn Eyþings telur áhugaverðan kost að flytja starfsemi Eyþings í samstarfi við fleiri stoðstofnanir á nýjan stað í húsnæðið í Hafnarstræti 91 sem stendur til boða miðað við fram komnar upplýsingar og felur framkvæmdastjóra að vinna að framgangi málsins.

 

 

Fundi slitið kl. 16:25.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?